01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í D-deild Alþingistíðinda. (4860)

21. mál, ríkisrekstur atvinnuvega og ríkiseignarjarða

Forseti (JBald):

Ég verð að mótmæla þeim ummælum frummælanda, hv. 6. þm. Reykv., Sigurðar Kristjánssonar, að forseti hafi beitt nokkurri hlutdrægni um það, að taka eigi mál þetta til umr. á síðasta þingi. Flm. er kunnugt um það, að á síðasta þingi var eigi hægt að koma áleiðis til úrslita allmörgum mikilsverðum málum, þar á meðal voru 2 till. til þál., sem 2 Alþfl.þm. og flokksbræður mínir fluttu og lögðu talsvert kapp á að koma fram. En þær komu eigi til úrslita vegna þess, að mikið kapp var á það lagt að koma áfram nauðsynlegum málum og slíta þingi, svo að alþm. gætu komizt heim fyrir hátíðar.

Þá mótmæli ég einnig þeirri aðdróttun, að ég myndi eigi hafa tekið málið á dagskrá, ef Sjálfstfl. hefði eigi krafizt útvarpsumr. um tillöguna samkv. þingsköpum, en ég hafði þvert á móti ákveðið að láta till. koma til umr. nú áður en þingi verður frestað, en hinu getur forseti eigi ávallt ráðið, að mál lúkist, ef miklar umr. verða um það.