12.10.1935
Sameinað þing: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2342 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

Kæra um kjörgengi

Frsm. minni hl. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Kjörbréfan. klofnaði um þetta mál, þessa kæru Bændafl. Till. minni hl. n. (hv. 2. þm. Rang. og mín) er sú, að Alþ. úrskurði, að hv. 2. landsk. þm. víki af þingi, en Stefán Stefánsson í Fagraskógi, fyrsti varaþm. Bændafl., komi í hans stað. Þessi till. er flutt í Sþ., og liggur hér fyrir til umr.

Magnús Torfason, sem kallast hv. 2. landsk. þm. og er enn ekki úrskurðaður frá þeim titli, komst á þing á því, að hann yfirgaf Framsfl.

Það er kunnugt, að það skarst í odda með honum og höfuðsmanni Framsfl. Þessi hv. 2. landsk. bauð sig fram til þingmennsku fyrir Bændafl., vegna þess að hann, þrátt fyrir aldur sinn, gat ekki sætt sig við að komast ekki á þing. Hann náði ekki að verða kjördæmakjörinn þm., en vegna atkvæðafjölda í því héraði, sem hann bauð sig fram fyrir, komst hann að sem uppbótarþm. Bændafl. Síðan hefir hann setið á Alþ. 1—2 ár — þetta hljómar eins og grafskrift —, en niðurstaðan um þingmennsku hans varð sú, að hann yfirgaf sinn flokk þegar í stað, er á þing kom. Og nú á þessu ári hefir hann tilkynnt formlega og opinberlega, að hann sé við sinn flokk skilinn. Það liggur því ákaflega ljóst fyrir, að þessi hv. þm. er úr Bændafl. kominn af sjálfs sín dáðum. Spurningin er nú sú, hvernig fara eigi með þennan hv. þm., sem er landsk. þm.

Eins og hv. þm. og að sjálfsögðu einnig alþjóð er kunnugt, var það mjög umþráttað efni á sínum tíma, hvernig haga skyldi kosningalöggjöf þeirri, sem nú er í gildi. Það var lengi vel vafasamt, hvort hún næði fram að ganga á þann hátt, sem raun varð þó á að lokum. Þessi löggjöf ber þess ótvíræð merki, sem deilt var um, og eins um hitt, hvernig það varð að lokum að miðlun, að löggjöfin yrði eins og hún varð. Þessi löggjöf er miðlunarlöggjöf. Það var, eins og lýðum er ljóst, krafa þeirra, sem mest og bezt börðust fyrir réttlátri kosningalöggjöf, að þjóðin ætti fulltrúa á hv. þingi í samræmi við þá atkvæðatölu, sem kæmi ekki aðeins á hvern mann, heldur einnig á hvern stjórnmálaflokk. áður fyrr, meðan kjördæmin voru sama sem einráð í þessu efni, að Reykjavík upp á siðkastið undantekinni, gat þar komið fyrir, að sá stjórnmálaflokkurinn, sem mest hafði atkvæðamagnið í landinu alls, yrði minnsti þingflokkurinn. Sá flokkur, sem raunverulega hafði meiri hluta þjóðarinnar að baki sér að atkvæðamagni, gat orðið undir í svo mörgum kjördæmum, að hann ætti sér ekki uppreistarvon. Tilgangurinn með breytingum kosningalaganna var að ráða bót á þessu misrétti, og það miklu rækilegri bót en raun varð á, og var sá tilgangur sérstaklega opinberlega yfirlýstur fyrr og síðar af öðrum þeim flokki, sem nú fer með völd í landinu, sem sé Alþfl. Þessar kröfur flokksins voru svo háværar, að fulltrúar hans hér á hv. Alþingi hljóta að muna eftir þeim, enda þótt þeir séu reyndar mjög lagnir á að gleyma því, sem þeir ekki vilja muna. Krafa flokksins var, að þingmenn væru kosnir eftir flokkum og jafnvel allsherjarhlutfallskosningar yrðu ráðandi um land allt. Það var mjög áberandi við undirbúning kosningalaganna, hvað þessi flokkur hélt fast við það, að það væri tilgangur sinn að fá réttlæti, þótt það yrði af mjög skornum skammti, og þá kem ég að þessari tvískiptingu, sem lögin eru mótuð af. Niðurstaðan varð nefnilega þannig, að þetta nýja réttlætið — skyldi ekki ráða, heldur það gamla. En nú er svo komið, að samkv. 26. gr. stjskr. skulu eiga sæti á þingi 49 þjóðkjörnir þingmenn, sem skulu í fyrsta lagi kosnir í einmennings- og tvímenningskjördæmum, í öðru lagi skulu 6 þeirra vera kosnir í Reykjavík, hlutfallsbundnum kosningum, og loks í þriðja lagi allt að 11 uppbótarþingmenn til jöfnunar milli þingflokka o. s. frv. Kjördæmin halda sér, svo sem kunnugt er, með ummerkjum, eins og þau voru, og mest veltur á úrslitum við kjördæmakosningar eftir sem áður. Fullkomið réttlæti er því ekki tryggt með lögunum. Þetta kom greinilega í ljós við síðustu kosningar, þar sem Framsfl. átti ekki eftir réttu hlutfalli alla þá þingmenn, sem hann fékk kosna, en gat samt náð meiri hl. með Alþfl. til þess að stjórna landinu. En sá meiri hl. er að vísu ekki tryggari en það, að þessir flokkar virðast staðráðnir í því að ná sér í þá uppbót, sem þeir með réttu ekki eiga. Til hvers? Til þess eins að geta haldið völdum og haldið áfram þeim verkum, sem andstæðingar þeirra telja óþurftarverk frá byrjun. Samkv. c-lið 26. gr. geta komið til 11 uppbótarþingmenn til jöfnunar milli þingflokka. Það átti að vera réttlætið við þetta höfuðatriði eru svo miðuð öll ákvæði kosningalaganna, sem um þetta fjalla. Nú verð ég að vitna til og lesa upp ýms ákvæði úr þessari löggjöf, allt með leyfi hæstv. forseta. Ég hafði þann vafasama heiður að vera í nefnd þeirri á hv. þingi 1933, sem fjallaði um undirbúning þessa máls. Var erfitt verk að undirbúa þessa löggjöf, og tíminn, sem ætlaður var til undirbúningsins í þinginu, of stuttur til þess að unnt væri að koma lögunum að öllu leyti í fullkomið og æskilegt horf. En þó löggjöfinni sé ábótavant, standa samt þessi tvö merki eins og klettar úr hafinu, sem sé gamla kjördæmaskipunin og svo þessi jöfnuður, sem átti að verða réttlætið. Það er þess vegna hinn mesti misskilningur og lögvilla, ef menn predika hér, að sama gildi um kjördæmakosna þingmenn og landskjörna, eins og hv. þm. Barð., frsm. meiri hl. kjörbrn., virtist gera. Getur verið, að sá hv. þm. hafi haft öðrum hnöppum að hneppa upp á siðkastið en að rifja upp lögfræði sína. Samt var hann í nefnd þeirri, sem ég gat um áðan. Nú er svo komið, að kosningalöggjöfin hefir reynt að setja ákvæði um þetta grundvallaratriði eftir því sem kleift var. Það má í þessu sambandi benda á 27. gr. þessara laga, 3. málsgr., þar sem talað er um, hvernig þingmenn skuli yfirleitt haga sér sem frambjóðendur, því að framboði einstaks frambjóðanda, svo og framboðslista í Reykjavík, skal fylgja skrifleg yfirlýsing frambjóðandans og meðmælenda hans, eru þegar um lista er að ræða, þeirra, sem lýsa því yfir, að þeir styðja kosningu listans, fyrir hvern stjórnmálaflokk frambjóðandinn eða listinn sé boðinn fram. Vanti yfirlýsinguna, telst frambjóðandinn eða listinn utan flokka. Þetta hafðist í gegn fyrir harðfylgi Alþfl. og Framsfl. þá. Það var fyrir harðfylgi þessara flokka, að það náði fram að ganga, að menn skyldu sýna mark á sér áður en þeir gengju til kosninga. Allir þingmenn eru þannig fyrirfram markaðir, en þó þannig, má segja, að kjördæmakosnir þingmenn voru aldrei annað en litmarkaðir, en uppbótarþingmenn verða að teljast eyrnamarkaðir; annars verða þeir seldir sem óskilafé. M. ö. o., þeir eru dregnir út úr réttinni og afhentir einhverjum öðrum. Þessa skýringu nota ég aðeins til þess að gera mönnum skiljanlegt, að hér skiptust leiðir strax. — Í 28. gr. kosningalaganna stendur, að landslista skuli fylgja til landskjörstjórnar skrifleg skýrsla um það, hver stjórnmálaflokkur ber hann fram, undirrituð af flokksstjórninni. Þetta er eðlilegt, því að samkv. lögunum er ekki um landskjör til uppbótar að ræða, nema það sé ljóst, til hvaða stjórnmálaflokks uppbótarþingmennirnir heyra. Þetta er enn betur ítrekað í 121. gr. kosningalaganna, sem er í samræmi við 26. gr. stjskr. Þar stendur:

„Þegar landskjörstjórn hafa borizt skýrslur allar um kosningaúrslit í kjördæmum eftir almennar alþingskosningar, skal hún koma saman til að úthluta allt að 11 uppbótarþingsætum milli flokkanna, þannig, að hver þeirra fái þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við kosningarnar ... “. — Öðruvísi verður ekki farið með þá menn. Í 125. gr. laganna stendur:

„Landskjörstjórn tekur til meðferðar og úrskurðar, að öllum skilríkjum athuguðum, hverjum stjórnmálaflokkum skuli telja frambjóðendur þá og framboðslista, er í kjöri hafa verið við kosningarnar, og hverja utan flokka, ... o. s. frv. Í 126. gr. segir, að landskjörstjórn telji saman atkvæðatölur hvers þingsflokks og fjölda þingmanna þeirra hvers um sig, kosinna í kjördæmum. Það er gert, til þess að samanlögð atkvæði flokks komi til greina, þegar fara á að úthluta þessum 11 þingsætum til jöfnunar þeim mismun, sem fram kann að koma í kjördæmum eftir réttu hlutfalli atkvæðamagns. Í 127. gr. stendur: „Til þess að finna, hvernig uppbótarþingsætum ber að skipta á milli þingflokka, . . . o. s. frv.

Í 128. gr. stendur: „Til þess að finna, hverjir frambjóðendur þingflokks hafa náð uppbótarþingsætum skal“ . . . o. s. frv. — Í 129. gr. segir, að þingflokkur, sem hlotið hefir uppbótarþingsæti, hafi rétt til jafnmargra varaþingmanna og hann hefir hlotið uppbótarþingsæti. Varaþingmenn eru aðeins ætlaðir uppbótarþingmönnum og þm. Rvíkur, en ekki fyrir kjördæmakosna þingmenn. Og þessir varaþingmenn eru til þess, að þeir geti — eins og nú er krafa Bændafl.. tekið sæti á þingi, þegar aðalþingmaðurinn forfallast eða hefir fyrirgert þingmennsku. Allt ber að sama brunni. Í 133. gr. segir svo: „Nú hefir Alþingi úrskurðað ógilda kosningu þingmanns, sem kjörbréf hefir fengið í kjördæmi eftir almennar alþingiskosningar, og uppkosning hefir farið fram, og skal þá landkjörstjórn, ef samanlagðar atkvæðatölur þingflokka og þingmannaðala þeirra geta nú ástæðu til slíks, leiðrétta fyrri niðurstöður um úthlutun uppbótarþingsæta, jafnvel þótt landskjörinn þingmaður missi við það umboð sitt. Þannig getur komið fyrir, að þingmaður, sem uppfyllir stranglega öll ákvæði um kjörgengisskilyrði, sem talin eru upp í 28. gr. stjskr., verði að víkja af þingi. Þetta sýnir, að til slíks getur komið, og það er t. d. mjög einkennilegt, að það skyldi koma fyrir nú á næstfyrsta þinginu, sem háð er samkv. þessari löggjöf, og sýnir þetta, að hér er um merkilegt atriði að ræða, sem getur komið til greina, þótt kosningalaganefndin hefði ekki beint gert ráð fyrir því; þingmaður uppbótarþingsætis getur skilið við sinn flokk, losnað frá sinni upphaflegu tengitaug. Það getur komið fyrir samkv. þessu, að þingmaðurinn verði all fara, hvað sem ákvæði 28. gr. stjskr. segja. Hann getur haldið hinum almennu kjörgengisskilyrðum en orðið að lúta í lægra haldi fyrir öðrum serslokum skilyrðum. Nú tók hv. frsm. meiri hl. það fram, sem hann hefði getað látið liggja milli hluta og segja það ekki beint, enda þótt hann hafi hugsað það, af því að það var rangt. Hann sagði, að ákvæði 28. gr. væru alveg tæmandi. Ég hefi þegar sent fram á að þau eru það ekki. Ótvíræð sönnun þess, að 28. gr. er ekki allskostar tæmandi, er það, ef þingmaður verður dómari í hæstarétti. Það getur komið fyrir. Í síðari málsgr. 29. gr. stjskr. stendur: „Þeir dómendur, er ekki hafa umboðsstörf á hendi, eru þó ekki kjörgengir.“ Það eru hæstaréttardómendur.

Þetta er því lögvilla, sem hv. frsm. meiri hl. ber fram. Fyrir utan hin almennu kjörgengisskilyrði, sem gilda fyrir alla undir öllum kringumstæðum, eru svo, eins og ég gat um, til önnur sérstök skilyrði, sem geta, hvað sem öðru líður, valdið því, að þingm. láti af þingmennsku. Þetta hefir nú, tel ég víst, hv. fyrrv. 2. landsk. alltaf vitað. Samt sem áður er hann ekki farinn af þingi, en fer væntanlega af sjálfsdáðum, ef ekki öðruvísi, þegar þessari sennu er lokið.

Af þessu er það sýnilegt, að ákvæði 28. gr. stjskr. eru ekkert tæmandi úrslitaatriði, þar sem sérstakt skilyrði kemur til greina, sem sé það, að uppbótarþingmaður verður að fylgja einhverjum flokki til þess að geta komizt í uppbótarþingsæti og getur ekki haldið áfram að vera landskjörinn þingm. flokks, nema því aðeins, að hann haldi áfram að vera í þeim sama flokki. Ef þetta væri ekki þannig, þá væri allt starfið unnið fyrir gíg. Þetta var tilgangurinn og það eina, sem eftir var af því „réttlæti“, sem barizt var fyrir. Það var meiningin, að tala þeirra þingmanna, sem flokkur hefir fengið inn á þennan hátt, með réttlætisjöfnuðinum, héldist kjörtímabilið á enda, svo framarlega sem flokkurinn yrði við lýði. Nú er það ekki greinilega ákveðið í stjskr. eða vel skýrgreint í kosningalögunum, hvernig flokkur eigi að vera, eða skipulag hans, til þess að fá þau fríðindi, sem honum eru ásköpuð í löggjöfinni, en það kemur óbeinlínis fram, að flokkur skuli uppfylla viss skilyrði til þess að geta orðið þinghæfur, er kalla mætti. Þeir flokkar, sem voru til, þegar kosningalögin komu til framkvæmda og höfðu fulltrúa á þingi, áttu að verða þingflokkar, en það voru Alþfl., Bændafl., Sjálfstfl. og Framsfl. Svo gat nýr flokkur unnið sig upp og orðið þingflokkur, eftir vissum reglum. En það varð nú ekki að þessu sinni. Þannig er landkjörsætunum ekki úthlutað af landkjörstjórn til vissra frambjóðenda persónulega, heldur til flokkanna, til þess að jafna þingsætatölu þeirra í hlutfalli við atkvæðatölur flokkanna, eftir því sem verða má. Þar við situr. Nú stendur þannig á, að hv. 2. landsk. er orðinn laus við sinn flokk, eins og vitað er og tekið hefir verið fram. Það hefir ekki orðið honum óviljandi, og það hefir ekki orðið fyrir sakir ofbeldis eða kúgunar frá þeim flokki, er hann taldist til. Og rök þau, sem hann færir fram sér til varnar, eru ekki heldur þess kyns. Það er ekki þannig, að flokkurinn hafi rekið hann. Sýnist ekki heldur hafa legið nærri. Flokkurinn hefir ekki það mörg sæti í þingi, að það hafi verið líklegt. Það liggur ekki heldur sérlega nærri, að t. d. Sjálfstfl. beiti sína þingmenn slíkum tökum. Öðru máli er að gegna með stjórnarflokkana. Þar hefir verið beitt kúgun og ofbeldi, reglulegum hnefarétti gegn einstökum þingmönnum í þeim flokkum. Það er því næsta skrítið að heyra hv. þm. Barð. vitna í 43. gr. stjskr. um þá hættu, sem þingmenn geti verið staddir í gagnvart flokki sínum. Upphaf þessarar gr. hljóðar þannig: „Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína, og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum“. — Það er alkunnugt, enda viðurkennt, að hér í hv. Alþ. hafa stjórnarflokkarnir virt þetta ákvæði að vettugi, bæði við kjördæmakosna fulltrúa sína og uppbótarþm. eða landskjörna. Þeirra framferði hefir því ekki verð í samræmi við lýðræðishugsun þá, sem liggur bak við ákvæði 43. gr. stjskr., heldur er það skylt þeim einræðisstefnum, sem nú geysa yfir löndin og stjórnarflokkarnir hafa þannig kappsamlega reynt að fylgja og framkvæma innan sinna vébanda. Það situr því ekki á hv. þm. Barð. að vitna í 43. gr., manni úr þeim flokki, sem hefir reynt að fótumtroða sannfæringu flokksmannanna, eða hefir látið fótumtroða sig af samstarfsflokki sínum, og ég veit vart, hvorum hópnum þessi hv. þm. tilheyrir. Hjá hvorugum á sannfæringin upp á háborðið. Þessum mönnum tjáir því lítið að vitna í það frelsi. — Þótt aðeins sé tekið tillit til þess, að hv. 2. landsk. hefir sagt skilið við sinn flokk, og þótt hann ekki hafi verið rekinn þaðan, þá er það nægilegt til að sanna, að hann hefir fyrirgert rétti sínum til þingsetu. Honum er þess vegna einnig vissulega leyfilegt að vitna í 43. gr. stjskr., en það stoðar hann aðeins ekki neitt, og ég veit, að hann er svo viti borinn, að hann skilur þetta, og að hann veit, að hann á að hverfa héðan á heiðarlegan hátt, því að það er enginn hér innan þings, sem dirfist í alvöru að neita því, að það er siðferðileg skylda hans að fara og víkja sæti fyrir varamanni sínum, sem nú er ranglega haldið frá þingsetu. Hér er ekki verið að framkvæma neina kúgun. Hann hefir verið frjáls, þessi hv. þm. Þetta hefir allt verið ákjósanlega frjálslegt, hv. 2. landsk. hefir farið eftir sinni sannfæringu, en hann verður bara að taka afleiðingunum. Þetta hefði e. t. v. ekki verið eins frjálslegt, ef hann hefði verið rekinn, en það atriði liggur ekki fyrir. Aðalatriðið í þessu máli er, að skilyrðið til þess að geta verið uppbótarþingmaður fyrir flokk gildir ekki aðeins meðan þm. er að ná því sæti, heldur meðan hann á að sitja í því. Hann verður á meðan að tilheyra þeim flokki, sem hann er uppbótarmaður fyrir, ekki aðeins í byrjun, heldur alltaf. Ef hann gengur úr flokknum, gerist „utan flokka“ eða gengur í“ annan flokk, hefir hann misst skilyrði til þess að vera uppbótarmaður þess flokks, sem hann er vikinn úr. M. ö. o., hv. 2. landsk., Magnús Torfason, hefir misst skilyrði til þess að vera landsk. þm. Bændafl., hann hefir misst þingsætið. Fyrir það leggur minni hl. n. til, að Alþingi úrskurði, að Magnús Torfason eigi að víkja sæti á Alþingi, en í stað hans komi Stefán Stefánsson 1. varamaður Bændaflokksins.