14.04.1937
Efri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

113. mál, hvalveiðar

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það er út af starfrækslu þess fyrirtækis, sem þetta frv. hljóðar um — hvalveiðastöðvarinnar á Tálknafirði — að ég vildi beina fyrirspurn til hæstv. atvmrh. Og vildi sem sé fá upplýsingar um það, hvernig leyfishafa hefir tekizt að uppfylla þau skilyrði, er honum voru sett með leyfi því, er Alþ. veitti honum til hvalveiða. — Það hafa gengið mjög fáránlegar sögur um það, að ekki sé fylgt fyrirmælum l. um meðferð þess, sem ekki er hagnýtt af hvalnum. Menn þarna vestra álíta, að þeir bíði tjón af vanrækslu í þessum sökum, sérstaklega hvað snertir þær hvalleifar, sem ætlazt er til, að fluttar séu á haf út og sökkt þar niður, til þess að þær geti ekki orðið skepnum að grandi. Hefi ég orðið var við miklar kvartanir yfir því, að ekki sé fylgt þeim ákvæðum, sem felast í l., er sett voru þegar þessu fyrirtæki var veitt leyfi til hvalveiða, og vildi ég því gjarnan fá upplýsingar um þetta áður en málið fer í nefnd.