30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Þessara útvarpsumræðna hefir verið óskað af hálfu Alþfl. til þess, að því er mér hefir skilizt, að þeir fái nú tækifæri til að talast við í áheyrn alþjóðar, þeir hálfbræðurnir Alþfl., eða flokkur Haralds Guðmundssonar, og Kommúnistarnir og Héðinn Valdimarsson.

Ég hefi enga löngun til þess, að blanda mér inn í einkamál þeirrar fjölskyldu. Mun ég því ekki taka þátt í þessum útvarpsumræðum, heldur aðeins lýsa afstöðu Bændafl. til frv., og ekki taka til máls aftur, nema eitthvert sérstakt tilefni gefist til.

Bændafl. hefir greitt og mun greiða atkv. með frv. Frv. er að vísu langt frá því að vera fullkomið, að ýmsu leyti ófullkomnara en reglur þær, er um þetta efni gilda annarsstaðar á Norðurlöndum. Þurfti þó til slíks frv. að vanda, þar sem því er ætlað að ráða nokkra bót á einn hinu mesta meini atvinnulífsins, en það eru vinnustöðvanirnar, einkum er þær skella skyndilega á og fyrirvaralaust. Verður ekki í tölum talið það beina og óbeina tjón fyrir þjóðarheildina, er af þeim leiðir, því að venjulega hafa báðir aðiljar miður. Atvinnureksturinn stöðvast, venjulega þegar verst gegnir, og þjóðarheildin missir þann gjaldeyri, sem ella hefði verið aflað. Hver getur t. d. vitað, hve miklu þjóðfélagið tapar á stýrimannaverkfallinu, sem nú stendur yfir, ef það yrði langt? Vér sjáum útlendu fragtskipin vera að snöltra hér við landið, og þau eru auðvitað viðbúin að ná flutningunum af Íslendingum, ef verkfallið helzt. En á meðan eru ríkisskipin stöðvuð og allur siglingafloti landsmanna, til þess eins að knýja fram launahækkun fyrir nokkra menn, sem hafa 6000–9000 kr. árslaun fyrir, að fríðindum meðtöldum.

Þjóðfélagið hefir gert þá nauðsynlegu sjálfsvörn, að banna með l. verkföll embættismanna og opinberra starfsmanna þjóðfélagsins. Þetta verkfall stýrimannanna, sem hafa laun eins og flestir hinir hæstlaunuðu embættismenn, það sýnir, að að því getur rekið, að það verði óumflýjanleg, nauðsynleg sjálfsvörn þjóðfélagsins, að lögbanna verkföll af hendi þeirra manna, sem eru á föstu árskaupi og hafa hærri árslaun en meðal embættismenn. Þeir, sem búa við beztu embættismannakjör að launum til, og jafnvel eftirlaunum, verða og að þessu leyti að sætta sig við embættismannakjör. Þjóðfélagið verður ætíð að ætlast til meira af þeim, sem búa við beri kjör en almenningur. Þjóðfélagið á ekki aðeins sjálft mikið undir, að vinnustöðvunum verði frestað eða afstýrt. Þess eru eigi fá dæmi, að verkamennirnir missi svo mikils í af atvinnu sinni í langvinnum vinnustöðvunum, að það þurfi mörg ár, og jafnvel áratugi, til að vinna það upp, móts við það, ef sáttatillögum hefði verið tekið í tíma. Glöggt dæmi þess er togaraverkfallið árið 1929. Það stóð í tvo mánuði. En eftir tveggja mánaða verkfall komust loks sættir á upp á 50 aura hækkun á fatið í lifrarpremiu, 6 kr. hækkun á mánuði á ísfisksveiðum og 2 kr. mánaðarkaupshækkun á saltfisksveiðum, að mig minnir, frá þeim till., sem sáttasemjari hafði borið fram eftir 11/2 mánaðar verkfall, en verið hafnað.

Árið 1929 var ágætis aflaár. Það er því varla vafi á, að hásetarnir eru ekki búnir að vinna enn upp tjónið af því. að til verkfallsins kom, í stað þess ef gengið hefði verið í upphafi að svipuðum kjörum og fólust í till. sáttasemjara. Þannig er um fjölda af verkföllum. Báðir deiluaðiljar tapa, en þjóðfélagið þó mest. Þess hefir því þótt brýn nauðsyn með öllum menningarþjóðum, að setja lög og reglur til þess að girða eftir því sem auðið er, fyrir vinnustöðvanir og það tjón, sem af þeim hlýzt. Og í sumum löndum hafa aðiljarnir fyrir alllöngu náð þeim þroska, að þeir hafa sjálfir komið sér saman um reglur, sem fylgja skuli, til þess að draga úr vinnustöðvunarhættunni. Sá þjóðarþroski er ekki enn fyrir hendi hér á Íslandi. Þess vegna verður ekki hjá því komizt, að löggjafarvaldið láti sjálft þetta mái til sín taka og setji löggjöf um vinnudeilur.

Fyrsti vísir þeirrar löggjafar hér á landi eru l. um sáttasemjara, er hafa gert stórmikið gagn. Reynslan hefir þó sýnt, að þau l. eru ekki einhlít. og því hafa komið fram hér á þingi frv. til ýtarlegri l. um þessi mál. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, um félagsdóm, er að mestu samhljóða frv., sem Framsfl. lagði fram á þinginu í fyrra og Alþýðublaðið kallaði þá þrælalög. Nú eru þm. Alþfl. samþykkir þessu frv. Þetta sýnir hraðan skilningsþroska á þessu máli. Þetta frv. er til stór bóta, ef að l. verður, en þó vantar í það ýms ákvæði, sem gilda hjá öðrum þjóðum, eins og t. d. um verksvið sáttasemjara og rétt hans til að fresta vinnustöðvun, meðan sáttatilraunir standa yfir. Skyndiverkföllin eru skaðlegust og mest um deild. Oft er það, að verkamenn eru ekki á eitt sáttir um þau, og oft er, að almenningur, sem utan við þau stendur, getur ekki litið á slík skyndiverkföll öðruvísi en sem uppreisn gegn þjóðfélaginu. Þess vegna er það mikið atriði að tryggja sem lengstan frest til sáttatilrauna, áður en til vinnustöðvunar kemur. Í Danmörku er það skylt að tilkynna till. um vinnustöðvun 14 dögum áður en vinnustöðvun á að hefjast. Á sama hátt skal tilkynna sáttasemjara vinnustöðvun með 7 daga fyrirvara. Í Danmörku er því hægt að fresta vinnustöðvun í 3 vikur, eftir að till. er komin fram um hana, en hér er það aðeins hægt í 7 daga. Og þegar á það er lítið, hvað sá tími er stuttur, sem við Íslendingar höfum til að stunda aðalatvinnuveg okkar, fiskveiðarnar, þá er þetta allt of stuttur frestur. Ég tel af þessum ástæðum nauðsynlegt, að fresturinn sé a. m. k. ekki styttri hjá okkur en hann er í Danmörku. Það má segja um ýms fleiri atriði í þessu frv., að það hefði þurft að sníðast meira eftir íslenskum landsháttum.

Það er vitað, að þetta frv. á að ganga fram og að allar brtt. við það eru gagnslausar. Það er því ekki nema um tvennt að velja, að fylgja frv. óbreyttu eða að vera á móti því. Ég tek hiklaust fyrri kostinn. Ég hefði að vísu óskað ýmissa breyt. á því, einkum í þá átt, að styrkja áhrifarétt sáttasemjara til að fresta vinnustöðvun, meðan hann telur möguleika á að jafna deiluna á friðsamlegan hátt. Með öðrum þjóðum hafa slík ákvæði þótt svo nauðsynleg, að fyllsta samkomulag hefir náðst um þau. En samt sem áður tel ég frv. mikla framför, og munum við bændaflokksmennirnir því greiða því atkv. út úr þessari hv. d.

Með því að ég mun ekki taka aftur til máls í þessum umr., vil ég ljúka máli mínu með því að óska hlustendum árs og friðar.