02.05.1938
Efri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (2770)

123. mál, talstöðvar í fiskiskipum o. fl.

*Flm. (Ingvar Pálmason):

Ég geri ráð fyrir, að meðal manna sé enginn ágreiningur um það, að talstöðvar í fiskiskipum séu ein af þeim þörfustu tilraunum til slysavarna, sem hægt er að gera hér á smærri fiskiskipum, og má telja þær hliðstæð öryggistæki við loftskeytastöðvar í stærri skipum.

Landssíminn hefir tekið upp þann góða möguleika að leggja til stöðvarnar í fiskiskipin gegn árlegri leigu, sem mun nema 120 kr. á ári. Þetta virðist í alla staði eðlilegt, því að starfræksla slíkra stöðva fellur alveg inn í starfrækslu landssímans. Það er ekki heldur heimilt að reisa neinar stöðvar án leyfis landssímans. Þó að allir viðurkenni nauðsyn talstöðvanna, hefir reyndin orðið sú, vegna afkomu útgerðarinnar síðustu árin, að það hefir reynzt mjög torvelt að fá menn til að ráðast í að setja talstöðvar í báta og skip. Þótt ekki þurfi að leggja út peninga fyrir talstöðvarnar sjálfar, þarf að kaupa móttökutæki og eyða nokkru í uppsetningarkostnað. Þegar 30 króna afnotagjald til ríkisútvarpsins fyrir móttökutækið leggst við 120 kr. leigu, vex mörgum í augum þessi nýi útgjaldaliður. Víðsvegar að hafa borizt beiðnir um, að létt yrði undir með mönnum að komast yfir talstöðvar í bátana og létt að einhverju leyti leiga og rekstrarkostnaður stöðvanna. Þessi mótmæli og áskoranir hafa komið frá einstökum félögum, frá fundum fjórðungsdeilda Fiskifélagsins, frá fiskiþingi, frá aukafundi S.Í.F., og síðast, en ekki sízt, frá Slysavarnafélagi Íslands. Það hefir verið farið fram á tvennt, styrk til að koma stöðvunum í skipin eða ívilnun á leigu og útvarpsgjaldi.

Sjútvn. hefir athugað málið gaumgæfilega. Hún álítur, að kröfurnar, sem taka beri til greina, séu hinar síðarnefndu, en ekki að borga með talstöðvunum, þegar þær eru settar í skipin. Til þess að greiða fyrir uppsetning þeirra eru ýmsir möguleikar til og ekki fullnotaðir enn, og þótti n. sjálfsagt að reyna þá, áður en flúið er til þess opinbera um hreinan stofnunarstyrk.

Í sambandi við þetta vil ég benda á það, sem grg. segir, að í Vestmannaeyjum hefir þetta verið framkvæmt þannig, að bátatryggingarfélagið hefir hlaupið undir bagga með útgerðarmönnum með að fá stöðvarnar og að nokkru leyti með að tryggja tækin fyrir útgerðarmenn. Það virðist mér vera fordæmi fyrir því, hvernig hægt er í mörgum tilfellum að létta mönnum stofnkostnað. Þær slysavarnarfélagsdeildir, sem til eru víðsvegar um land, eiga að gangast fyrir því, að talstöðvar komist í sem allra flest skip.

Ég hefi þá skýrt tilefni og tilgang þessarar þáltill. og sný mér að einstökum liðum hennar. Ég ætla fyrst að minnast á 2. lið. Með honum er skorað á ríkisstj. að hlutast til um, að leiga talstöðva lækki niður í 50 kr. á ári.

Ég viðurkenni fyllilega þann stuðning, sem landssíminn hefir veitt. En vegna þess, að ársleigan er of há fyrir útgerðina, eins og hún er stæð, nægir sá stuðningur ekki. Það má vel vera, að 120 kr. á ári sé ekki of há leiga, miðað við rekstrarkostnað landssímans vegna stöðvanna á hverju ári. En ég vil minna á, að sú stofnun er þannig byggð upp, að þeir þættir hennar, sem arðvænlegastir eru, bera kostnað af hinum, sem aldrei geta borið sig. Þessu fyrirkomulagi er það að þakka, að sími er kominn í flestar sveitir landsins, og ég vil vona, að ekki líði mjög mörg ár, þangað til síminn er kominn inn á svo að segja hvert einasta heimili í landinu. Það er eingöngu því að þakka, að látið er nægja, að starfræksla landssímann beri sig sem heild, þó að fjöldamargar tinur, sem hv. þm. hljóta að kannast við, hver í sínu byggðarlagi, geti ekki borið sig sérstakar. því hefir aldrei verið hreyft, að þessu fyrirkomulagi þyrfti að breyta og láta hverja símalínu bera sig út af fyrir sig. Nei, þetta er gott skipulag. Það hefir heppnazt vel og síminn sem heild borið sig ágætlega. — Þegar litið er á þáltill. frá þessu sjónarmiði, fellur hún alveg inn í þær meginreglur, sem fylgt hefir verið við uppbygging landssímans. Það má kannske sýna fram á, að þessi starfrækslugrein hans muni ekki bera sig með 50 kr. ársleigu. En ég tel fyllilega réttmætt fyrir því að setja leiguna ekki hærri og hafa sama fyrirkomulag á þessu og á simalinum víðsvegar um byggðir landsins. Þegar till. er skoðuð í þessu ljósi, er hún fyllilega sanngjörn.

Um þriðja lið till. er svipað að segja. Þar er farið fram á, að strandargjald fyrir skeyti, sem send eru frá fiskiskipum, verði fært niður í 3 aura orðið. Þetta er í samræmi við aðra starfrækslu landssímans. Það er ekki ástæða til að leggja sérstaka áherzlu á, að móttaka þessara skeyta sé borguð sérstaklega.

Þá er fyrsti liður till., um það, að afnotagjald af viðtækjum í fiskiskipum falli niður. Hér er um aðra stofnun að ræða en landssímann, nefnilega útvarpið, sem selur tækin í fiskiskipin og hefir hingað til tekið sama afnotagjald af slíkum tækjum eins og af tækjum í landi. Mér virðist þetta vera óeðlilegt á tvennan hátt. Fyrst og fremst vegna þess, að í mörgum af þessum skipum eru þessi tæki ekki notuð á sama hátt og tækin í landi. Tækin í landi eru notuð og eru viðurkennd að eiga að notast sem menningartæki þannig lagað, að menn fá í gegnum útvarpið ýmiskonar fræðslu og jafnvel kennslu. En tækin í fiskiskipunum eru notuð í allt öðru augnamiði, nefnilega í sambandi við bjargráðastarfsemi. Því virðist eðlilegt, að afnotagjald þeirra sé nokkuð annað heldur en af viðtækjum í landi. Í öðru lagi má geta þess, að fjöldamargir af þeim, sem nota viðtækin í skipum, hafa viðtæki í sínum bústöðum í landi og greiða þá afnotagjald fyrir þau. Væri ekki nema sanngjarnt, að tillit væri einnig tekið til þessa, þegar um afnotagjald af viðtækjum í fiskiskipum er að ræða. Og í þriðja lagi tel ég, að útvarpið sem menningartæki ætti að styðja að slíkum ráðstöfunum, eins og við viðurkennum allir, að talstöðvarnar í fiskiskipum séu. Enn má benda á það, að það eru útvarpsnotendur úti um land, sem bera uppi allan kostnað af rekstri útvarpsins. Og ég er þess fullviss, að undantekningarlítið munu þeir flestir, ef ekki allir, taka undir það með mér, að þeir séu fúsir til, að á þeirra afnotagjöld yrði bætt, beinlínis eða óbeinlínis, afnotagjöldunum af talstöðvunum í fiskiskipum. Ég hygg, að nú standi fyrir dyrum stækkun útvarpsstöðvarinnar, þannig að útvarpsnotendum verður gert miklu hægra fyrir að notfæra sér útvarpið, eftir því sem gera má ráð fyrir. Við það mun þá útvarpsnotendum fjölga mjög mikið hér á landi, og þar af leiðandi verður hægra að færa niður afnotagjöld fyrir alla útvarpsnotendur, og það jafnt, hvort sem þessi afnotagjöld yrðu reiknuð nokkuð eða ekki neitt.

Þá er að minnast á fjórða lið þáltill., þar sem óskað er eftir því. að ríkisstj. hlutist til um, að leigjendum talstöðva verði framvegis ekki gert skylt að tryggja tækin fyrir hærri upphæð en 300 krónum. Ég get ekki sagt fyrir víst, hvað er kostnaðarverð þessara tækja. En ég hefi þó séð á prenti haft eftir kunnugum mönnum við landssímann, að þessi tæki kosti ekki meira en kringum 300 kr. Ég þori ekki að segja um, hvort þetta er á rökum byggt, en mér þykir þó eðlilegt, að það láti nokkuð nærri. Og það virðist vera óþarfa kvöð á notendum þessara taltækja að krefjast þess, að þeir vátryggi tækin fyrir hærri upphæð heldur en þau kosta. Ég veit, að það er álit manna úti um land, að svo sé.

Að endingu vil ég minnast á fjárhagshlið þessa máls. Ég hefi reynt að gera mér grein fyrir, hvað þetta mundi kosta fyrir landssímann, ef leiga af talstöðvum er lækkuð niður í 50 kr. á ári. En ég hefi þar ekki fullnægjandi gögn á að byggja og vil því ekkert fullyrða um það. En ég hygg, að með rúmum tölum megi þó gera sér hugmynd um, að það verði eitthvað á milli 10 og 20 þús. kr. á ári, sem þetta mundi kosta landssímann, og eins og sakir standa nú þó miklu nær 10 þús. kr.

Að því er snertir útvarpið er sama að segja. Ég hefi ekki heldur gögn í höndum til þess að gera mér fulla grein fyrir því, hverju þetta mundi skipta fyrir útvarpið. Hygg ég þó, að það mundi ekki vera nema nokkur þús. kr.

Menn kunna nú máske að segja, að það, sem her er farið fram á að ívilna í sambandi við talstöðvar, séu ekki geigvænlegar upphæðir fyrir útgerðina að borga. Já, það er nú svo. Ég geri ráð fyrir, að þessar ívilnanir, sem í þáltill. er gert ráð fyrir, mundu muna hvern talstöðvarnotanda um eitt til tvö hundruð kr. á ári. Það má segja, að þetta sé ekki stór upphæð og að ekki geri hún mikið til né frá um það, að rétta við hag sjávarútvegsins. Satt er það, en við tökum þetta og höldum svo áfram og teljum upp, og þó við fáum ekki nema eitt til tvö hundr. kr. á hverjum lið, þá getur farið svo, að við fáum út allverulega upphæð, sem safnast saman á endanum, ef t. d. væri sparað á þessum lið eitt til tvö hundr. þús. kr., í hagnýtari notkun veiðarfæra nokkur hundruð þús. kr., með betri möguleikum til að afla beitu, þannig að hún gæti orðið ódýrari, um tvö hundr. þús. kr., og í salti, olíu og hirðingu véla og hirðingu skipa nokkra upphæð, og spara mætti á fleiri liðum. Ég hygg, að ef rétta á við sjávarútveginn — og sérstaklega tala ég um þann smærri, af því að á honum hefi ég nokkra þekkingu — þá hygg ég, að þetta verði leiðin, sem verði að fara (að spara á mörgum liðum) til þess að rétta við. sjávarútveginn, en ekki hitt, að ætla sér að gera það með einni stórri byltingu og láta svo þar við sitja, því miður hefir það komizt inn hjá ýmsum á seinni árum, sem reka sjávarútveg — og það hafa kannske gefið tilefni til þess ýms góðæri, sem komið hafa — að það megi reka smærri sjávarútveg sem nokkurskonar spekúlation. En það er hreinn og beinn misskilningur. Frá því fyrst við höfum sögur af, hefir aldrei verið hægt að reka smáútveg á Íslandi á annan hátt en þann — ef hann hefir átt að vera sæmilegur atvinnuvegur —, að menn hafi lagt fram alla sína krafta við hann. Þótt við könnumst við, að fiskimiðin kringum landið séu gullkistur, þá getur samt enginn ausið fé úr þeim gullkistum eftir vild og samt „haft góða daga“. Ég hefi nú stundað sjávarútveg í 35 ár, og mín reynsla er þessi, og ég hygg, að hún sé svo hjá mörgum.

Að endingu vil ég vænta þess, að þessi hógværa till. okkar verði samþ. hér í hv. þd. Og ég vil vænta þess, að hún geti orðið einn þáttur, þótt litill sé, í því að reisa við hinn illa stæða smáútveg okkar Íslendinga. Og ég hefi fulla trú á, að það megi takast, ef rétt er að farið.