14.04.1939
Efri deild: 39. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

29. mál, hegningarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það hefir verið farið svo skilmerkilega í gegnum efni frv., að ég sé ekki ástæðu til að rekja það frekar hér. Þá hefir og sömuleiðis verið gerð grein. fyrir helztu nýmælunum.

Fyrir 7 árum voru hegningarl. tekin til endurskoðunar, og hefir verið unnið að þeirri endurskoðun síðan.

Ég tek hér til máls aðallega út af ummælum hv. frsm., að fresta beri þessu máli. Ég held, að þetta sé það mál af þeim, sem nú liggja fyrir Alþingi, er fengið hefir beztan undirbúning. Því er ekki hægt að neita, enda þótt ekki liggi mikið á að fá sumar af þessum breytingum samþ., að margt í okkar refsilöggjöf er orðið mjög úrelt, svo að mörgu væri búið að breyta á undanförnum árum, ef þessi endurskoðun hefði ekki staðið yfir. Hafa margar breytingar verið gerðar á þeirri hegningarlöggjöf, er okkar löggjöf hefir verið sniðin eftir, en við höfum hinsvegar gert litlar breytingar á okkar löggjöf. Ég held því, að Alþingi geti vel gengið frá málinu nú, þar sem það hefir verið undirbúið eins og hv. frsm. lýsti. Hæstaréttardómari Þórður Eyjólfsson sá fyrst um undirbúning málsins og skilaði frv. um það til síðasta þings. Ég taldi þó rétt að láta endurskoða verk hans og fekk því hæstaréttardómarana Einar Arnórsson og Gissur Bergsteinsson til að fara yfir frv. Þeir hafa unnið að þessu síðastl. ár, ásamt Þórði Eyjólfssyni, og lagt í það mikið verk, eins og þeir geta séð, sem kynnt hafa sér fyrsta og annað uppkast Þórðar Eyjólfssonar og endurskoðun hinna á því, sem þeir framkvæmdu í samvinnu við hann. Einar Arnórsson hefir í mörg ár kennt refsirétt við háskólann, og Þórður Eyjólfsson hefir í utanför fyrir nokkrum árum og svo aftur á síðastl. ári kynnt sér sérstaklega nýjungar, er gerðar hafa verið í þessu efni í nágrannalöndunum. Um Gissur Bergsteinsson er það að segja, að 2 ár eru síðan ég óskaði eftir því að hann tæki að sér þetta verk með Einari Arnórssyni, og fór hann þá þegar að búa sig undir það og kynna sér breytingar, er nýlega hafa verið gerðar í refsilöggjöf á Norðurlöndum.

Ég geri mér því ekki miklar vonir um, þó að þetta mál yrði nú afhent nýrri n. lögfræðinga, að það tæki miklum umbótum frá því, sem nú er. Ef endurskoða á hegningarlöggjöf sem þessa og breyta einhverju, þá vitum við það báðir jafnvel, hv. frsm. og ég, að það kostar algera endurskoðun á lagabálkinum í heild, því að breytingar á einu atriði geta leitt af sér ósamræmi, nema frv. sé gagnskoðað í heild og aðrar breytingar gerðar í samræmi við þá fyrstu.

Það var sérstaklega eitt atriði, sem hv. frsm. taldi orka tvímælis í frv., a. m. k. nefndi hann aðeins það atriði. Ég er ekki í vafa um, að hann er sem lögfræðingur vanur dómari og hann hefir notað tímann, meðan málið var í n., til að lesa frv. Hann hefði því vafalaust hnotið um það, ef í frv. væru fleiri atriði, sem telja mætti varhugaverð. En þessi ákvæði, sem hann minntist á, eru í 236. gr. frv. Því er ekki hægt að neita, að þessi ákvæði eru allströng, en þau eru í samræmi við löggjöf Dana og Norðmanna um þetta efni.

Vitanlega er það ekki tilgangur frv. að höggva á nokkurn hátt nærri málfrelsi manna eða skoðanafrelsi eða frelsi manna til að láta í ljós skoðanir sínar í riti. En ég er þó þeirrar skoðunar, að sá réttur hafi stundum hér á landi verið allmjög misnotaður. Tilgangurinn með réttinum til að láta í ljós skoðanir sínar í ræðu og riti er fyrst og fremst og eingöngu bundinn við það, að menn láti í ljós skoðanir, sem þeir hafa sjálfir ástæðu til að ætla, að séu réttar. Það hefir aldrei verið tilgangur prentfrelsis eða málfrelsis, að menn hafi leyfi til að láta í ljós skoðanir, sem þeir telja sjálfir ósannar. En það getur ekki verið ástæða til að vernda með löggjöf þær athafnir að bera á aðra menn sakarefni, sem menn hafa ekki einu sinni sennilega ástæðu til að álíta satt. Því er ég á þeirri skoðun, að þessi frvgr. sé í fullu samræmi við íslenzka réttlætismeðvitund, en eftir henni verður alltaf að fara, þegar setja skal hegningarlöggjöf. Hinsvegar er því ekki að neita, að dómstólunum er gefið allmikið vald með þessu, því að þeir eiga að ákvarða, hvort maður eigi að teljast hafa ástæðu til að álíta, að hann fari með rétt mál eða ekki. En íslenzkir dómstólar hafa alltaf síðan hegningarl. voru sett 1869 verið varfærnir í því að dæma strangar refsingar fyrir meiðyrði, svo að telja verður jafnvel vafasamt, að þeir hafi fylgt l., er gilt hafa hér á landi. Má fullyrða, að hjá dómstólunum hefir myndazt venja um að fylgja tæplega l., vægast sagt. Ég held því, að ekki sé ástæða til að óttast, að dómstólarnir myndi ekki einnig hér eftir fylgja l. af varfærni.

Þar sem hv. frsm. er vanur dómari og hefir fengizt við það starf lengst af síðan hann lauk lögfræðiprófi, og þar sem hann hefir farið gegnum frv. og ekki fundið þar nema eitt atriði vafasamt, vona ég, að hann fallist á það, að óhætt muni að afgr. málið, þó að ég setji ekki út á það, að fullri varfærni sé fylgt við afgreiðslu á svona stórum lagabálki. En þar sem málið var fullbúið um mitt síðasta þing og þá fengið í hendur þeim manni, sem upphaflega hafði undirbúið það, og tveim mönnum öðrum, til að vinna það verk, sem hv. frsm. stingur nú upp á, að ný n. verði skipuð til að vinna, þá geri ég ekki ráð fyrir, að hér sé miklu við að bæta. Ég tel vafasamt, að þrír menn aðrir myndu gera betur, svo hæfir voru þessir. Ég efast ekki um, að hægt væri að fá aðra þrjá menn vel hæfa til að endurskoða frv., en ég efast um, að hægt væri að fá þrjá menn jafnhæfa, svo að litlar líkur eru til, að verkið myndi batna við nýja endurskoðun. Ég mæli því með því, að frv. verði nú afgr. hér í hv. deild, og ætlunin er, að það fái afgreiðslu á Alþingi að þessu sinni, áður en því verður slitið eða það hættir störfum á annan hátt.