02.04.1940
Efri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

100. mál, talstöðvar í fiskiskip o. fl.

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eins og frv. á þskj. 286 ber með sér, er það flutt af sjútvn. þessarar deildar í samráði við ríkisstj., fjvn. og sjútvn. Nd. Samstarf hefir verið nú um nokkurt skeið með sjútvn. beggja deilda til að fá hrundið í framkvæmd mikilli fjölgun talstöðva í fiskiflota landsmanna. Ég þarf ekki að fjölyrða um undirbúning þessa máls, um hann má vísa í grg. frv. og fylgiskjöl hennar, en það eru tillögur verkfræðingadeildar landssímans ásamt grg. póst- og símamálastjóra fyrir þeim og ýmsum upplýsingum um talstöðvaþjónustu landssímans eins og hún var um síðustu áramót. Póst- og símamálastjórn og sjútvn. höfðu í upphafi hug á annari fjáröflunarleið en hér er lagt til. En eftir það, að við áttum tal við hæstv. ríkisstjórn og fjvn., þótti það ekki fært að taka upp á fjárl. hærri framlög til þessa en nú eru þar. Varð því að fara þá leiðina að veita ríkisstj. heimild til lántöku í þessu skyni, eins og hér er ráðgert. Með öðru móti næðist ekki innan ársloka 1942 það mark, sem hér er sett, að hægt verði að koma upp talstöðvum í öllum þeim bátum fiskiflotans, sem eru 10 tonn eða stærri. Það eru samtals um 170 farkostir, sem hér ræðir um, flestir að stærð 10–15 tonn. Sjútvn. var það ljóst, eins og raunar öllum hv. þdm., að taltæki í fiskibátum eru nú viðurkennd sem eitthvað það bezta, sem hægt er að gera þeim til öryggis, hvað sem út af ber. Ennfremur eru þau oft til ákaflega mikilla þæginda, sérstaklega við síldveiðar, til þess að skipin geti bæði haldið sambandi við land og talazt við sín á milli. Vegna sambands þeirra við land þykir nauðsynlegt að gera, eins og póst- og símamálastjóri ræðir um og lagt er til í frv., svonefnda talbrú á Siglufirði. Þar hefir eins og annarstaðar, svo sem í Vestmannaeyjum, verið bjargazt við þá afgreiðslu, sem hægt var að fá á landssímastöðinni í bænum. En það er ekki talið æskilegt, og þörf á að breyta til batnaðar sem fyrst. Enginn vafi þykir á, að rétt sé að setja upp slíka talbrú fyrir Siglufjörð fyrst, síldveiða vegna, leggja símalínu út til Sauðaness og flytja þangað viðtæki talstöðvanna. Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum, því að ég vona, að vegna nauðsynjar sinnar sigli málið hraðbyri gegnum hv. deild og fái afgreiðslu á þinginu, þótt liðið sé á þingtíma.