24.03.1942
Neðri deild: 25. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Sveinbjörn Högnason:

Hv. þm. Ísaf. var að bera sig upp undan því, að ég og aðrir þm., sem um þetta mál hafa talað, hafi verið með mikinn geðofsa. En ég hef ekki heyrt neinn mann varpa fram í þessum umr. slíkum hótunum, sem líkjast nærri því sjónarmiði bófans, heldur en þessum hv. þm. Hann segir: „Það þarf enga baráttu eða ósamkomulag um þetta mál. Það getur farið fram í friði. Það er ykkur að kenna, framsóknarmönnum, ef um það verður ósamkomulag. Þið eigið bara að ganga orðalaust inn á allt, sem við viljum, og það er ykkur að kenna, ef þið reisið ófrið með því að vera á móti því.“ Þessi hv. þm. er alveg eins og maður, sem kemur að öðrum með skammbyssu og segir: „Ég er ekki að vekja neinn ófrið, og ég ætla ekki að taka líf þitt, nei, nei. Komdu bara með peningana, þá fer allt friðsamlega fram, og það er þér að kenna, ef þú ferð að vekja ófrið með því að búast til varnar.“ Það er hægt að velja um það fyrir hvern mann, hvort hann vill gefast upp sem heigull við það, sem hann álítur vera rétt, eða vill verja sig, eins og sannfæringin segir honum. En það er alveg rétt reiknað hjá honum,, að hann þekkir Framsfl. að því og hvern þm. hans, að honum er ekkert síður í hag en að gefast upp við fyrsta högg og þora ekki að verja það, sem hann álítur rétt vera. Meira held ég, að ég þurfi ekki að segja um þennan alveg sérstaka hugsunarhátt þessa þm., sem kom fram í þeim umr., sem hann talaði um, að væru með svo miklum friðarblæ og ró og spekt yfir sér.

Þá segir hann líka, og það hafa fleiri flm. þessa frv. sagt, að ekki sé verið að taka neinn rétt af sveitunum með þessu frv. Þær eigi að halda sínu, það eigi bara að jafna milli kjósendanna, flokkarnir eigi bara að fá þingmannafjölda eftir kjósendatölu. En ef ekki er verið að flytja til kosningaréttinn, til hvers er þá þetta frv.? Hvað eruð þið þá að fara fram á flm. góðir? Eruð þið ekki enn þá búnir að gera ykkur ljóst, hvað þið eruð að fara fram á? Ef ekki er verið að skerða rétt dreifbýlisins, þá skiljið þið alls ekki, hvað þið eruð að bera hér fram. Það er farið fram á að fjölga þm. upp í 54. Hvar á sú fjölgun að koma niður? Á hún að koma niður á dreifbýlinu? Ekki skilst mér það eftir till. ykkar. Hér er því um 5 þingsæti að ræða og von um 6, eins og nú standa sakir, því að kaupstaðaflokkur, sem keppti þar um fylgið, mundi í flestum tilfellum láta sig engu skipta, hvort frambjóðendur hans væru þar búsettir eða ekki, heldur bjóða þar fram sína þægustu flokksmenn og setja þá þar í tryggustu sætin. Þetta er ekki að rýra áhrifavald sveitanna? Ætli þetta frv. sé ekki allt misskilningur frá upphafi til enda? A.m.k. virðast hv. flm. eftir málflutningnum ekkert skilja, hvað þeir eru að fara fram á.

Hv. þm. A.- Húnv. sagði í gær, að ekki þyrfti miklu að breyta, allt væri gott, ef hlutfallskosning fengist í tvímenningskjördæmunum. Það fannst honum nægilegt. Ég get ekki séð, eins og ég sýndi fram á með rökum í gær, að það tryggi á neinn hátt þá reglu, sem talið er, að sé verið að berjast fyrir með þessu frv. Ég held, að engin leið væri vissari til þess að koma upp flokkum í landinu með örfá atkv. bak við þm. en að taka upp hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum, því að það er gefið, að hver sá flokkur, sem ætti von á að fá þm. í kjördæmi, þar sem hann væri í minni hl., mundi gera hann að sérstökum flokk, sem hefði áreiðanlega langminnsta magn á bak við þm. Sá flokkur, sem nú er í minni hl. í tvímenningskjördæmunum, mundi fara þessa leið. Hann er ekki heilsteyptari en það, eða a.m.k. hefur hann ekki sýnt sig í því, og sennilegt er, að færi fyrir honum eins og gamla Sjálfstfl., að hann mundi rifna þvers og langs. Það er sýnilegt, að ekki yrði hugsað um annað en það, sem væri hagsmunamál flokksins í svipinn. Þetta gerir því ekkert til þess að tryggja þá meginreglu, að þingflokkar hafi þm. í sem nánustu samræmi við atkvæðamagn, heldur getur orðið til þess, að ósamræmið verði meira en nokkru sinni fyrr.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það hefði verið rétt hjá mér, að til væru margs konar réttindi önnur en kosningarrétturinn, en taldi, að kosningarrétturinn væri undirstaða allra annarra mannlegra réttinda, og þá, að því er mér skildist, kosningarrétturinn þannig út færður, að alltaf væri sama atvæðamagn bak við hvern þm. En hvernig hefur það farið þar, sem átti að taka upp slíkt fyrirkomulag? Hvernig eru mannréttindin þar? Hvernig er það í Þýzkalandi, á Ítalíu, á Spáni? Við getum rakið endalaust. Þessi lönd fóru að ganga inn á þá réttlætisreglu, sem er á bak við þetta frv. Þeir héldu, að þeir væru að tryggja mannréttindin með því. En hvað er orðið af mannréttindum þessara þjóða? Þær hafa ekki aðeins glatað skoðanafrelsi, fundafrelsi og prentfrelsi, heldur líka kosningarréttinum. Og það er (það, sem liggur bak við hjá þessum hv. þm. Við vitum, að kommúnistar og nazistar eru ekki að hugsa um að byggja upp lýðræðið, heldur að koma á einræði. Hér er því um alvarlegan hlut að ræða fyrir alla, sem vilja hugsa frjálst og vinna frjálst, ef á að fara út þá leið, sem menn sjá, hvernig hefur gefizt hjá þeim þjóðum, sem hafa gengið hana.

Sami hv. þm. talaði um, að samvinna væri milli okkar, sem hann kallaði frjálslyndari mennina í Framsfl., — ég hygg, að við séum það allir jafnt, — og íhaldsins um það að láta auðmennina og auðfélögin halda sem mestu af stríðsgróðanum. Ég veit ekki betur en fyrir löngu sé hafin barátta af okkur framsóknarmönnum gegn dýrtíðinni og fyrir því að láta stríðsgróðann koma þjóðinni að gagni, en hvar eru till. frá honum um að láta þetta koma þjóðinni til góða? Og hvar eru þær frá jafnaðarmönnum? Ég veit ekki til, að þeir hafi gert neitt til að kippa því í lag. Hitt er rétt hjá honum, að samvinna er, eins og nú standa sakir, milli Framsfl. og Sjálfstfl. um að leysa þessi mál. Við framsóknarmenn erum alltaf reiðubúnir til að vinna að málum, sem miða að því að byggja upp og halda við heilbrigðu lífi, en kommúnistar eru aftur á móti tilbúnir til að vinna með veikari helmingnum af þessum flokki, sem er talsvert stór, til þess að rífa niður, hvar sem því verður við komið. Sá er munur á samvinnu okkar og kommúnista við sjálfstæðimenn.

Þá sagði hv. þm., að það, sem við ynnum að, væri að koma kjördæmaskipuninni í það horf, að áhrif íhaldsins í landinu yrðu sem mest. En að hverju miða þessar breyt. fyrst og fremst? Ég held, að það ætti þó að vera hverjum manni ljóst, að enginn græðir á þessari breyt., sem hér er farið fram á, sem nokkru máli skiptir, nema Sjálfstfl. Hann fær annan manninn í flestum tvímenningskjördæmunum. Hver ætli fengi þm. á Akranesi t.d.? Og sennilegt er, að í hinum kaupstöðunum fengi Sjálfstfl. einnig þm. kosna. Ég get sagt hv. þm. það, að ég álit, að hér á Alþ. eigi ekki aðrir menn að eiga sæti en þeir, sem hafa meiri hluta atkv. þeirra kjósenda að baki sér, þar sem þeir buðu sig fram. Það á ekki að eiga sér stað, að maður, sem fær ekki nema sárafá atkv., þar sem hann er þekktur, geti komizt á þing atkv. þeirra manna, sem eru annars staðar en þar, sem hann bauð sig fram, og þekkja hann ekki. Þetta álít ég óheilbrigt, og þess vegna segi ég það af fullri sannfæringu, að ég álít það hafa verið fyrsta veikleikamerkið í stjórnarfari okkar, þegar tekin voru upp þessi uppbótarþingsæti með stjskrbreyt. 1933.

Hv. þm. V.- Ísf. sagði hér, að það væri alveg rétt hjá mér, að þessi till. væri miðuð við núverandi ástand. Þar með er full viðurkenning komin frá 1. flm. á því, að það sé ekki verið að hugsa um það, sem hann segir megintilgang frv., að tryggja flokkunum þingmannatölu í hlutfalli við atkvæðamagn. Hv.- þm. sagði, að það mundi vera meiri hl. kjósenda í Rangárþingi, sem væru með þessu, allir sjálfstæðismenn og hinir sanngjarnari framsóknarmenn, hvort sem hann telur þá nú sanngjarna, sem eru áákveðnir. En ég man nú það, og það er mér ekki sársaukalaust, að þessi hv. þm. mætti með mér á fundi í Rangárþingi, eftir að þing var rofið 1931. Og ég man ekki, að hann væri þá mjög deigur í því að berjast fyrir því, að hægt yrði að tryggja rétt sveitanna sem bezt í kjördæmamálinu. Hann taldi þá, ekkert háskalegra en það, að áhrifavald sveitanna yrði rýrt í því máli. En hv. þm. er búinn að hafa bústaðaskipti í flokkslegu tilliti síðan. En ég hef jafnan haldið því fram, að eitthvað eimdi eftir af fyrri sannfæringu, þó að óviðráðanlegar orsakir yllu því, að menn færu á milli flokka, og þannig held ég, að því sé einnig farið með þennan hv. þm. Ég er alveg sannfærður um það, að meiri hl. kjósenda hans mun ekkert verða honum þakklátur fyrir það mál, sem hann hefur nú gerzt hér málsvari fyrir. Ég horfi öruggur fram á að sjá það, hvort meiri hl. kjósenda í Rangárþingi og V.-Ísafjarðarsýslu vill fremur þetta frv. hans en mína afstöðu í málinu, svo mjög sem hv. þm. er ginnkeyptur fyrir þessu máli, sem hann er 1. flm. að.

Þá sagði hv. þm. V.- Ísf. eitt, sem er ákaflega athyglisvert í þessu máli. Hann sagði, að það væri rétt h já mér, að sumir hefðu viljað hafa 7 þm. í Rvík, en þeir hefðu orðið 6, þegar kjördæmaskipuninni var breytt 1933. En það, sem aðallega veldur því, að hann er með málinu, er það, að hætta geti verið á því, að fleiri gætu unnið á þennan hátt. Haldið þið ekki, jafnaðarmenn góðir, að það borgi sig að hafa slíkan flokksmann, ef það er meining hans, að þetta sé ástæðan?

Ef ekki á að fjölga þm. í Rvík, hvaða vit er þá í þessu frv.? Er hv. þm. V.-Ísf. líka orðinn klofinn í hugsun sinni langs og þvers, hvað þetta snertir?

Sannleikurinn er sá, að ef menn bera fram einhver þýðingarmikil mál, verða þeir, a.m.k. í sömu ræðunni, að vera sjálfum sér samkvæmir. Annars er ekki hægt fyrir nokkurn mann að álíta, að það sé annað en loddaraháttur, sem verið er að gera í alvarlegustu og þýðingarmestu málum þjóðarinnar. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira að þessu sinni, þó að það sé vitanlega af miklu að taka, ekki sízt, ef röksemdir hv. flm. halda áfram að breytast, eins og verið hefur hingað til.