17.04.1942
Efri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

45. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta er flutt í Nd. að tilhlutun félmrh. Þær breyt., sem frv. ráðgerir á gildandi lögum um sveitarstjórnarkosningar, eru tvenns konar og hníga báðar í sömu átt. Önnur breyt. er sú, að varamenn aðalmanna í hreppsnefnd skuli aldrei vera færri en 3. Stafar þessi breyting af því, að reynslan hefur sýnt, að þegar einn maður hlýtur kosningu á lista, hefur komið fyrir, að þessi listi hefur orðið fulltrúalaus, vegna þess að bæði aðalmaður og varamaður hafa forfallazt. Það hefur komið fyrir oftar en einu sinni, að þó að listi hefði 2 fulltrúa í hreppsnefnd, hafi bæði aðalfulltrúarnir og varafulltrúarnir forfallazt um lengri tíma. Eins og mönnum er kunnugt, eru atvinnuhættir hér á landi þannig, að t.d. sjómenn eru svo mánuðum skiptir fjarverandi heimilum sínum, og slíkt hefur oft komið fyrir í sjávarþorpum. Þessar breyt. eru fram komnar til þess að tryggja svo sem sanngjarnt þykir, að listi verði ekki fulltrúalaus í hreppsnefnd. Hitt atriðið er þessu mjög skylt. Það er þess efnis, að í gildandi lögum taka varamenn sæti á listunum eftir því, sem þeim er raðað á listann, og er undir flestum kringumstæðum ekki mikið við það að athuga. En það getur leitt af þessu fyrirkomulagi, að nokkur breyting verði á skipun hreppsnefndarinnar eftir flokkum. Er í frv. gerð tilraun til að bæta úr þessu, og ég hygg, að það náist að nokkru leyti eftir þessu frv. En við nána athugun virtist allshn., að hér væri ekki fyllilega náð þeim tilgangi, sem þörf er á að ná í þessu efni. Þess vegna hefur n. borið fram brtt. á þskj. 187, og er hún viðauki við ákvæði greinarinnar og snertir aðallega það fyrirbrigði, sem, tíðkast hefur nú upp á síðkastið, að tveir eða fleiri stjórnmálaflokkar standa saman um lista, og ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir, getur vel svo farið, að hlutföllin milli pólitískra flokka í hreppsnefndum, sem hafa náðst í síðustu kosningum, raskist. Er því nauðsynlegt að ganga betur frá þessu ákvæði heldur en gert er í l. og frv. Það hefur komið fyrir, að fulltrúar, sem í kjöri voru, hafa á kjörtímabilinu farið milli flokkanna, og það hefur orsakað röskun á hinum upphaflegu hlutföllum milli flokkanna. N. hefur því borið fram brtt. við 1. gr. frv. Ég held, úr því að það er einu sinni fyrirlagt að heimila hlutfallskosningar við hreppskosningar og á þann hátt öllum unnað jafnréttis, þá sé nauðsynlegt að setja tryggingu fyrir því, að þessi hlutföll raskist ekki, að svo miklu leyti sem hægt er að ráða við það. Ég held, að þetta sé öllum hv. þdm. svo ljóst, að ekki orki tvímælis, að rétt sé að setja þessa málsgrein inn í frv.- gr. Ég skil ekki í, að mikill ágreiningur rísi af þessu máli, þar sem það er mjög einfalt, og tilefni gefist til andsvara.