07.09.1942
Efri deild: 24. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Hermann Jónasson:

Það er aðeins stutt aths., enda hefur málið tekið nokkuð mikinn tíma, og svo er ráð fyrir gert, að deildarslit og þinglausnir fari fram í kvöld.

Ég vil segja það um ræðu hv. 5. þm. Reykv., að þegar hann talar um sundurlyndi, þá veit hann vel, hverjir það voru, sem slitu samstarfinu í vor. Það er vitanlegt, að það, sem samstarfinu sleit, var það, að það mál var upp tekið, sem aldrei gat leitt til annars en að friðurinn rofnaði, og um það lágu yfirlýsingar fyrir. Það er því ekki nema eðlilegt, að þessir 3/5 hl. þings fari með málin fram yfir þær kosningar, sem þeir hafa stofnað til, og við getum ekkert að því gert, þótt ástandið sé þannig, að þeir kvíði fyrir, að það komi í ljós, þegar að kosningum kemur, ef það þá þarf að koma betur í ljós en nú er. Það hefur sýnt sig, að þetta skref, sem Sjálfstfl. steig, hefur ekki verið sérstaklega heillavænlegt, og þjóðin er byrjuð að vakna við það, að stjórn þess flokks er ekki sérstaklega gæfurík, og mér finnst ekki nema eðlilegt, að þjóðin fái reynsluna af því að geta ekki afstýrt því, að lagt var út í þetta, ævintýri.

Viðvíkjandi sjálfstæðismálinu vil ég segja það, að eftir að forsrh. hafði lýst yfir því, að hann ætlaði að leysa málið, kom fram sú afstaða Framsfl., að hann mundi ekki skerast úr leik, ef hinir flokkarnir vildu standa við loforð sín, svo að það kemur úr hörðustu átt, þegar Alþfl. vill halda því fram, að Framsfl. hafi verið eins konar dragbítur í málinu. En annað mál er það, að þegar málið er komið á það stig, að það á að telja þjóðinni trú um, að ekkert undanhald sé í því, en hv. þm. Borgf. orðaði öðruvísi í Nd. í gær, þegar hann sagði, að í raun réttri væri búið að leggja málið til hliðar, þegar á að telja þjóðinni trú um það með fánum og bumbuslætti, að þetta sé ekkert undanhald, þá tekur Framsfl. ekki þátt í slíkri skrautsýningu í sjálfstæðismálinu.

Að blanda sjálfstæðismálinu inn í kjördæmamálið, hverjir gerðu það í síðustu kosningum? Ég þarf ekki að svara því. Það er á allra vitorði, að það voru sjálfstæðismenn, sem það gerðu.

Það, sem við viljum, er að lýsa yfir lýðveldi og síðan ganga frá stjórnarskrármálinu á eftir. Það er sú leið, sem fyrri þm. Eyf. benti á.

Að ég vilji, að forsetinn sé kosinn með einveldi, er rangt. Ég ræddi um, að hann væri kosinn eins og í Bandaríkjunum eða eins og tíðkaðist í Frakklandi og víðar.

Ég ætla ekki að eyða tíma í að svara því, sem sagt var um það, að Framsfl. hafi brugðizt í málinu. Það hefur fyrri þm. Eyf. gert. En það er eitt atriði, sem ég vil ekki láta ósvarað. Það kom fram í ræðu hv. 6. þm. Reykv. Hann sagði, að ég hefði stungið upp á þeirri till., sem hér liggur fyrir. Ég vil ekki bera á hv. þm., að hann segi þetta vísvitandi ósatt, en ég bendi aðeins á ummæli tveggja þm., þar á meðal hæstv. forseti. Hann segir, að það hafi verið eins og að klappa á stein, ef það hafi átt að fá frá mér einhverja till. í málinu, enda hafi ég enga till gert þar, frekar en í öðrum málum. Ég sæti yfirleitt hjá, og svo endaði með því, að ég féllist á það, sem aðrir styngju upp á, því að ég væri svo lítið frumlegur. Þetta væru vinnubrögð mín. Ég ætla ekki að fara inn á vinnubrögð mín, en eitt af því, sem ég lærði, þar sem ég tók áhrifin frá í æsku, í sveitinni, var það, að það væri hygginna manna háttur að hlusta og spyrja, og ég held, að betur hefði farið, að hæstv. forsrh. hefði að einhverju leyti kynnt sér þau vinnubrögð, áður en hann gaf yfirlýsingarnar. Ráðh. sagði, að ég hefði enga till. gert. Það er rétt. Það komu engar till. frá Framsfl. aðrar en þær, sem ég hef lýst, og hv. þm. S.-Þ. lýsti jafnframt yfir því, að þessar till. væru lagðar fram til álita, en það var sízt ætlunin, að þær ættu að útlistast á þann hátt, sem hér hefur verið gert. Hún gat komið til álita eða önnur leið, sem nefnd var og svipað mátti segja um. Hann gat þess, að merkur maður úr öðrum flokki hefði komið með hana. Það er vitað mál, að hún var alltaf við þann þm. kennd, og ég held, að einn af hv. þm. þessarar deildar sé lítið þakklátur fyrir að eigna mér það, sem alltaf var við hann kennt. Eitt fæst þó út úr þessari umsögn. Það vill enginn kannast við þessa till., og vilja allir koma henni á aðra. Stjórnarflokkarnir vilja sérstaklega koma henni á Framsfl. Þetta er kannske betri sönnun þess en margt annað, hvernig mál þetta er.