19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (733)

58. mál, skipaafgreiðsla Eimskipafélags Íslands h/f

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Ég hef ekki getað verið viðstaddur umr. þessa frv. vegna þeirra vinnudeilna, sem mér skilst, að frv. eigi að ráða bót á.

Að sjálfsögðu mun þessi ríkisstjórn nú og ævinlega gera allt, sem í hennar valdi stendur til þess að forðast það, að ástæða eða átylla væri gefin erlendu valdi til íhlutunar í málefnum okkar. Og ég lýsi því nú, sem ég vona, að sérhver hv. alþm. lýsi yfir, ef um það er að ræða, hvort erlend íhlutun verði um mál okkar, þá eigi flokkastefnur að víkja fyrir því, að við verðum óháðir allri erlendri íhlutun um mál okkar. Hins vegar álít ég þetta frv. óheillavænlega fram komið. Allir þingfl. vilja taka saman höndum til þess að leysa á friðsamlegan hátt þetta mál. Ég held, að ef litið er til þeirra, sem mest hafa barizt í þessu efni, sem eru annars vegar stóratvinnurekendur og hins vegar verkalýðurinn í landinu, þá held ég, að segja megi, að á báða bóga sé fullur vilji á að leysa málið og ríkur skilningur á, að það verði að leysa það að íslenzkri íhlutun eingöngu. En þegar sá er vilji okkar allra að bægja þessari vá frá dyrum þjóðarinnar, þá tel ég verr farið, að Alþ. á þessu stigi málsins, einmitt þegar verið er að afnema gerðardóminn, með því að samþ. slíkt frv., sem hér liggur fyrir, hafi í hótunum um það, ef annar aðilinn sér sér ekki fært að láta undan kröfum hins aðilans þegar í stað, þá muni þing og stjórn taka fram fyrir hendurnar á þessum aðila og taka úr hans höndum þann starfa, sem hann, góðu heilli, hefur haft með höndum öllum til velfarnaðar. Og ég get tilkynnt, að ríkisstjórnin hefur haft svipaða aðstöðu og áhrif um allt, sem hún hefur talið sér rétt að bera fram í óskarformi við þetta félag, rétt eins og ríkið sjálft hefði átt fyrirtækið. Ég hygg, að samþ. þessa frv. mundi gera stirðara um vík heldur en þyrfti að vera á meðan á þessum samningum stendur. En ég hygg, að hv. alþm. geti verið sammála um það, að eins og það ríður á miklu, að samningar náist góðir í þessari deilu, þá sé heppilegast, að samkomulag náist gott á milli aðilanna. Ég er því þess vegna andvígur, að þetta frv. skuli hafa komið fram hér. Held ég þó, að allt þurfi ekki að fara í blossa út af því. Ég mun ekki eiga þátt í því, að þetta verði skoðað sem ógnun af hálfu Alþ., og ég mælist fastlega til þess, að undirtektir Alþ. við þetta frv. verði ekki þær, að þetta frv. verði skoðað af viðkomandi aðilum sem ögrun af hendi þingsins. Ég hygg, að forsvarar verkalýðsins muni skilja það, ef þingið á þessu stigi málsins færi að hóta verkamönnum, væri það til bölvunar einnar. En ég tel skylt, að ríkisstjórnin skoði sig sem umboðsmann beggja aðila. Og ég skoða mig sem boðbera friðar og sátta í þessari deilu. En það bætir ekki frið þann, sem þarf að skapa, að við förum að bítast og berjast um þetta frv. hér á hæstv. Alþ., enda á það engu síður að ná tilgangi þeirra, sem flytja þetta frv., að því verði vísað til n. og það verði þar athugað — eða þá sofni eftir ástæðum — og hv. nm. geti svo athugað málið með hliðsjón af rás viðburðanna.