28.08.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (935)

62. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir

Pétur Ottesen:

Ég vil benda hv. þm. á, að nú fer að líða að þinglokum og hæpið, að málið nái fram að ganga, ef því verður vísað til n. Vil ég því skjóta því hér fram, hvort hv. alþm. sjái sér ekki fært að afgr. till. án þess að senda hana til n., sem ætti þá samkv. eðli málsins að vera fjvn. Ég skal til rökstuðnings þeim tilmælum mínum benda á, að á síðasta þingi var samþ. mjög samhljóða till., þar sem ákveðið var að borga uppbót á landbúnaðarafurðir fyrir árið 1941. Það mál var þá athugað allrækilega í n. Og þar sem ástæður virðast nú sízt minni en þá til að gera slíkar ráðstafanir, þá ætti að mega líta svo á, að þessi afbrigði væru ekki óeðlileg með tilliti til þess, hve tíminn er naumur orðinn. — Mér þótti vænt um að heyra hæstv. landbrh. grípa fram í fyrir mér og segja, að hann teldi þetta sjálfsagt. Ég vil því skjóta því til hæstv. forseta sem till. frá mér, að málið verði látið ganga fram án þess, að því sé vísað til nefndar.