02.04.1943
Neðri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Mér finnst, að það væri mjög æskilegt, ef hæstv. forseti gæti orðið við ósk hv. þm. Mýr. Sumir hv. þm. eru nú veikir, og aðrir eru fjarverandi af öðrum ástæðum. En færi nú svo, að hæstv. forseti með engu móti sæi sér fært að verða við þeirri ósk, væri þá mjög æskilegt, — vegna þess að þá gæti komið fram rétt mynd af því, hvaða afstöðu þm. hafa til dagskrártill., því að hún verður ekki borin upp við 3. umr. —, að hæstv. forseti sæi svo um, að úrslitaumr., 3. umr. málsins, færi ekki fram fyrr heldur en þeir hv. þm., sem hafa fengið brottfararleyfi, eru komnir aftur og hv. þm. almennt eru viðstaddir. Mér finnst þetta vera lágmarkskrafa, sem sanngjarnt sé að gera til hæstv. forseta, og mér finnst, að það ætti ekki að vera nein hætta í því fólgin fyrir málið, þó að afgreiðslu þess verði frestað nú, því að hæstv. forseti hefur alla möguleika til að sjá svo um, að þetta mál dagi ekki uppi.