07.01.1943
Efri deild: 26. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (3484)

88. mál, útflutningsgjald

Flm. (Gísli Jónsson):

Ég vil gefa skýringu á því, að ég held, að hv. 3. landsk. þm. (HG) hafi misskilið það, að ég sagði, að það hefði ekki minnstu áhrif, þó að þetta frv. væri samþ. þannig lagað, að það yrði samt farið í mál út af þessu 10% gjaldi til þess að fá úr því skorið, hvernig fara skuli eftir l. frá 1941 í þessu efni. En það getur hins vegar haft áhrif á siglingar nú, hvernig álit Alþ. er um það, hvernig skilja og framkvæma beri l. þessi frá 1941 eða hvort eigi að beita þeim með tilvísun til einhverra annarra l., og það er þörf á að fá úr þessu skorið strax, og vil ég því vona, að hv. fjhn. hraði þessu máli. Það er stórt mál fyrir útgerðina hvernig þetta útflutningsgjald verður innheimt, hvort það verður gert eftir l. frá 1941 eða eftir l. frá 1935. Ef útflutningsgjaldið er innheimt eftir l. frá 1935, og þó að það sé gert eftir þeirri reglu, sem verið hefur, þá er það smáatriði, fyrir sjávarútveginn, enda þótt það hafi verið ranglega tekið að nokkru leyti. En nokkuð af því hefur runnið í Fiskveiðasjóð, sem útgerðarmenn hafa ekki séð eftir að leggja á sig nokkrar byrðar fyrir.