12.04.1943
Neðri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (3851)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Sveinbjörn Högnason:

Vitanlegt er, að þetta getur verið síðasti dagur þingsins. Að fara að vísa málinu til n. er sama og að vísa því frá. Ég vil því algerlega mótmæla, að því sé vísað til n. — Einhver þm. greip fram í áðan, að það væri búið að ræða þetta mál nóg, og ég er honum sammála, það er búið að gera þingi, stjórn og þjóð nóga smán. Ég segi fyrir mitt leyti, að mig furðar mjög á afstöðu þessarar ríkisstj. á ýmsa lund til mála, sem snert hafa þingið, en ekki það aðalverkefni, sem þingið ætlaði að leysa. Maður skyldi ætla, að hún vilji sem minnsta árekstra hafa við Alþ. í öðrum málum. En það er eins og sumir ráðh. hafi alveg sérstaka löngun til að egna þm. í viðkvæmum málum, sem þó eru ekki aðalmál eða stórmál, heldur skipta í raun og veru litlu, samanborið við aðalverkefnið. Ég get t.d. ekki séð, hver nauðsyn rekur hæstv. dómsmrh. með hans reynslu og þekkingu í stjórnmálum og menntamálum til að reyna nú að ýfa hér upp ágreiningsmál, sem þingi og þjóð er viðkvæmt, aðeins til að þjóna lund eins manns, sem hefur brotið mikið af sér. Varla skil ég, að þetta sé af ásettu ráði gert til að egna upp þá krafta, sem ráðh. þarf að hafa með sér til að leysa stórmálin.

Hæstv. ráðh. segist ekki vilja leggja bann á menn, þó að þeim hafi áður mistekizt. Hér er um annað að ræða. Hér er um að ræða að leyfa mönnum ekki að eyðileggja góð verk eftir aðra höfunda. Hvaða leirskáldi mundi leyft að gefa út og „lagfæra“ ljóð Matthíasar, Hannesar, Jónasar? — Hæstv. ráðh. sagði, að heilög ritning hefði staðið af sér stafsetningarbreyt. Það er rétt, en ég veit um eina útgáfu af heilagri ritningu, sem er ekki til fyrirmyndar og ríkisbiskup Hitlers hefur leyft að gefa út, svo að fjallræðunni er alveg snúið við. Það er mannskemmdarverk og guðlast. Eins má fara með bókmennta perlur okkar. Því er ekki að neita, að nútímarithöfundar gera það af ásetningi að hneyksla lesendur. Menn, sem eru færir um að skrifa ljómandi fallega kafla, setja inn á milli ýmislegt til skemmda, til að reyna að halda mönnum vakandi og auka söluna. Það er þekkt fyrirbrigði um allan heim og sérstök tækni í útgáfustarfsemi. Ég er sannfærður um, að þessi nýja útgáfustarfsemi, hvað snertir Íslendingasögurnar, er rekin viljandi til að hneyksla og auglýsa. Og sannið til, Halldór Kiljan Laxness heldur þessu áfram. Það kemur eitthvað til smekkbætis í Njálu..

Hv. 5, landsk. þm. (BG) sagði, að fornritaútgáfan biði hnekki við samþykkt þáltill. Það er mikill misskilningur, því að þessi vandaða alþýðuútgáfa er gerð í samkeppni við Halldór Kiljan Laxness, en ekki fornritaútgáfuna, enda færu rit fornritafélagsins ekki inn á hvert heimili, svo að alltaf yrði þörf á heimilisútgáfu. Það skiptir ekki heldur neinu máli, hvor útgáfan kemur á undan. Ef fólk veit, að fornritaútgáfan kemur í haust, er það ekki að flýta sér að kaupa hina, þegar það á von á að fá Njálu senda til sín með haustinu.

Ég vona, að hv. þdm. sjái, að það er sama og að vísa málinu frá að vísa því til n., enda er málið þrautrætt.