22.03.1943
Sameinað þing: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (4010)

156. mál, Þormóðsslysið

Flm. (Einar Olgeirsson):

Ég flyt hér till. þess efnis, að skipuð sé sérstök rannsóknarn. til að rannsaka eftir því sem auðið er orsakirnar til Þormóðsslyssins, sem öllum er í fersku minni, og yrði þessi n. skipuð með þeim sérstaka hætti, að sjómönnum gæfist tækifæri til að rannsaka tildrög slyssins, þannig að Sjómannafélag Rvíkur skipi tvo menn, en Fiskifélag Íslands þriðja manninn. Hugmyndin er sú, að gefa þeim samtökum, sem sérstaklega starfa í sambandi við flota okkar, tækifæri til að rannsaka eitt hræðilegasta slys, sem hér hefur orðið, ef það mætti verða til þess, að slík rannsókn leiddi nokkuð í ljós, hvernig væri í framtíðinni hægt að koma í veg fyrir slík slys. Þetta slys verður auðvitað rannsakað af sjódómi, en hér á að vera um sérstaka rannsókn að ræða, ýtarlegri en venjulega. Ég tel sjálfsagt, að sjómannasamtökunum sjálfum sé gefið tækifæri til að rannsaka þetta frá sínu sjónarmiði.

Ég tel eðlilegt, að tillaga eins og þessi fari til n. milli umr. og þá helzt allshn., og mun ég ekki, af því að langt er liðið á fundartímann, orðlengja frekar um till., þar sem ég geng út frá því, að allir hv. þm. séu því fylgjandi, að orsakir þessa slyss séu rannsakaðar sem bezt auðið er, ef hægt yrði með því móti af hálfu þess opinbera að finna, hvers konar ráðstafanir þyrfti að gera til þess að draga úr slíkum slysum í framtiðinni og sem mest að koma í veg fyrir þau.

Ég óska því, að till. verði að umr. lokinni vísað til síðari umr. og allshn.