09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. — Ég hafði hugsað mér að láta þessar umr. fara fram hjá mér og taka ekki þátt í þeim. En vegna þess, hversu þær hafa einhliða snúizt um kaupgjald og afurðaverð, vil ég segja nokkur orð. Okkur, sem yfirleitt höfum alltaf unnið, en aldrei lifað af því að reikna út þessi viðskipti, koma undarlega fyrir sjónir þeir útreikningar, sem koma hér fram viðvíkjandi kaupgjaldi og hækkun á því.

Á síðasta sumri, þegar við vorum búnir að gera samninga fyrir verkamannafélagið Dagsbrún, þá voru margir menn hér, sem höfðu fasta vinnu, sem við áttum að semja um fyrir þá, og um þá fórum við fram á, að þeir fengju „prósentvís“ hækkun á sínu kaupi samkv. því, sem verkamenn hefðu fengið. Og allir töldu þá, að við hefðum fengið, verkamenn, 38% hækkun. Þá reiknuðum við fasta kaupið eftir því, að hækkunin hjá verkamönnum hefði verið 38%. Nú koma aðrir, sem reikna með því, að hún sé 51%.

Það verður þannig hjá okkur, sem ekki höfum beitt fyrir okkur reikningslistinni, að við erum ekki með á nótunum, þegar þeir töluvísu menn fara að reikna, því að þá virðast þeir geta fengið hvaða útkomu sem þeir vilja. Ef þeir þurfa að fá lága útkomu, þá geta þeir það, og ef þeir þurfa að fá háa útkomu, þá geta þeir það einnig.

Þá er kaupgjaldið fyrir verkamannavinnu úti á landi. Hv. þm. V.- Húnv. hefur borið mönnum það á brýn, að þeir hefðu ekki mikið vit á að dæma um það. Og hann sagði réttilega„ að kaup hér í Rvík, í Dagsbrún, hefði hækkað hlutfallslega minnst. En ég held, að það væri gott fyrir fulltrúa sveitakjördæmanna að fá að heyra rök þeirra manna, sem vinna verkamannavinnu úti á landi. Þegar þeir koma til okkar, þá segja þeir: „Hvernig eigum við að vinna hjá því opinbera fyrir langtum minna kaup heldur en það greiðir annars staðar, þegar við verðum að hafa þessa vinnu til þess að bæta upp okkar tekjur, þar sem framleiðsla okkar er svo litil, að við getum ekki lifað af henni einungis? Af því að framleiðsla okkar er svo lítil, að við getum ekki lifað af henni, þá verðum við að fá hærra kaup.“ Og við höfum álitið, að þetta væri rökrétt hjá þessum mönnum. En svo er farið að reikna fyrir þessa menn, og talað um, hvað þeir fái „prósentvís“ miklu hærra kaup heldur en áður, og þá er farið að telja það þeim til góðs, eins og þeir lifi eingöngu á vinnu sinni.

Árið 1941 unnu 6 þús. manns við vegagerð hjá ríkinu. Ætli það hafi ekki verið fullur helmingur af því sveitamenn? Á s.l. hausti voru menn við þessa vinnu ráðnir fyrir Dagsbrúnarkaup. Þeir höfðu ekki verkalýðsfélög eða neitt þess háttar, margir hverjir, að styðjast við. Þetta voru m. a. bændur í sveit. Svo leita þeir til verkalýðsfélaganna, bændurnir, til þess að geta haldið rétti sínum, hver fyrir öðrum, þannig að það hefur komið fram, þar sem vegagerðir hafa verið framkvæmdar í sveitum, að menn úr næstu sveit hafa verið útilokaðir frá þessari vinnu. Þeir telja þetta orðið lífeyri sinn, og á þeim forsendum á svo að halda því fram, að kaupið hafi hækkað hjá verkamönnum. Þetta finnst mér dálítið athugandi. Nú er alveg víst, að þessir menn, m.a. bændur, hafa leitað til þessarar atvinnu til þess að geta lifað. Hvers vegna halda þá ekki þessir hv. þm., að þeir eigi, sem þannig vinna, ekki að hafa sama kaup fyrir vegavinnu, hvar sem er í landinu? Svo er þetta, að bændur og aðrir sveitamenn verða að bæta sér upp atvinnu sína með þessari vinnu, sem er orðin þeirra atvinna, notað til þess að reyna að ganga á rétt þeirra, sem lifa á vinnu sinni eingöngu. Mér finnst þetta ekki rétt.

Svo eru það útreikningarnir eftir skýrslum alþýðusambandsins. Ég er viss um, að þessar skýrslur eru hárréttar. En það eru bara á annað hundrað félög í alþýðusambandinu. Hvers vegna taka þessir hv. þm. þau þá ekki öll með í reikninginn, úr því að þeir tóku 30–40 félög? Það er af því, að kaupið hjá þeim hefur ekki komizt nógu hátt, til þess að þeim finnist borga sig að taka þau með í reikninginn. Þess vegna er þeim sleppt.

Á öllum tímum hafa menn úr sveitinni leitað til sjávarins á vertíðinni, og ég veit, að þegar ég var unglingur, var oft ekki heima nema kvenfólkið til að gegna búverkum. Bændurnir fara til að geta framfleytt lífinu, og svona er þetta enn í dag.