16.11.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (3418)

127. mál, fyrningar fiskiskipa o.fl.

Flm. ( Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Mál þetta mun eftir eðli sínu fara til athugunar í fjvn. á milli umr., og skal ég þess vegna nú við þessa umr. ekki eyða miklum tíma til grg. fyrir því.

Þáltill. þessi er borin fram samkv. talsvert almennum óskum þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, og hafa þeir yfirleitt fært þau rök fyrir því máli, að þeim hafi ekki tekizt að leggja það fé til hliðar, sem þurfi til þess að umbæta og endurnýja fiskiflotann. En hins vegar er reglugerðin um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fyrningar miðuð við miklu lægra verðlag en nú er, og þar af leiðandi mundu skip- og önnur þau tæki, sem vinna að hagnýtingu sjávaraflans, verða afar lengi að komast í eðlilegt verðlag með þeim fyrningarfrádrætti, sem heimilaður er í reglugerð þeirri, sem hér er ætlazt til, að breytt verði, en það er reglugerð nr. 219 frá 21. des. 1939, um fyrningu. Það hagar svo til, sem kunnugt er, að allnærri er gengið með skattálögum gróða þeim, sem til getur fallið, og til þess að tryggja það að einhverju leyti, að nokkuð af stríðsgróða sjávarútvegsmanna gæti gengið til þess að endurnýja fiskiflotann, voru sett ákvæðin um nýbyggingarsjóði.

En nú hefur reynslan orðið sú, með nýbyggingarsjóðina, að það hefur safnazt heldur lítið í þá og nærri því ekkert vegna bátaflotans. Eftir skýrslu nýbyggingarsjóðsn. þá eru nú í nýbyggingarsjóði um 18,9 millj. kr., en það er nærri því allt eign togaraeigenda. Aðeins 1 millj. 889 þús. kr. eru í nýbyggingarsjóðum fyrir önnur skip en togara, og eigendur þeirra eru aðeins 62 talsins, og það er vitað, að þetta eru eigendur línuveiðaskipa og annarra þeirra skipa, sem hafa getað siglt með afla sinn til Englands, en bátaflotinn á ekkert í nýbyggingarsjóði.

Nú blasir það við, að eigendur þessara skipa komi frá stríðinu án þess að hafa nokkuð til þess að endurnýja flotann með, hvorki fé til þess að bæta með þau skörð, sem orðin eru í útgerðarflotann vegna þeirra skipa, sem farizt hafa, né heldur til þess að endurbæta hinn hrörnandi flota. Nú getur hver maður séð það, hvað það væri illa farið og hættulegt fyrir atvinnulíf þjóðarinnar, ef svo færi, að eigendur aðalframleiðslufyrirtækjanna kæmu þannig frá stríðinu, að ekki væri unnt að endurnýja eða bæta þau á eðlilegan hátt. — Okkur flm. er það alveg ljóst, að sá frádráttur frá skattskyldum tekjum, sem gert er ráð fyrir samkvæmt þessari þáltill. fram yfir það, sem heimilt er nú, mundi hrökkva skammt, en það er þó nokkuð í áttina, til þess að eitthvert fé geti safnazt í eigu þeirra manna, sem nú reka bátaútveg á Íslandi, en þeir eru fjöldamargir.

Það hefur verið minnzt á það af einstaka manni, að yrði till. þessi að þál., þá mundi hún valda því, að sveitarfélögin gætu ekki lagt útsvar á bátaútveginn á eðlilegan hátt. En þetta er á misskilningi byggt, því að útsvarslögin heimila niðurjöfnunarn. að fyrirskipa og leggja útsvör á eftir efnum og ástæðum, og niðurjöfnunarn. eru ekkert bundnar við þær reglur, sem settar eru í hinum almennu skattal. og reglugerð í sambandi við þau. Þar af leiðandi mundu þessi hlunnindi aðeins ná til skattgjalda, sem renna til ríkisins, en að engu leyti til þeirra, sem renna til sveitarsjóðanna. Okkur flm. sýndist heppilegt, að fyrningarfrádrættinum væri skipt á nokkur ár, og höfum gert ráð fyrir fimm árum, en þó slegið þann varnagla, að aldrei mætti afskriftin fara fram úr 30% af þeim vörum eða verðhækkun á þessum eignum, sem er fram yfir það verðlag, sem var 1939. Ég þarf ekki að taka það fram, sem í þáltill. stendur, að afskriftir þessar eiga aðeins að ná til þess dýrtíðarverðs, sem er fram yfir verðlag það, sem var 1939, og þegar eignirnar væru komnar niður í það verð, þá er auðvitað þessum sérstaka frádrætti lokið, hvort sem það yrði að þessu fimm ára tímabili liðnu eða einhvern tíma fyrr. Eftir till. er ætlazt til, að þessi frádráttarheimild vegna fyrningar nái ekki aðeins til skipastólsins, heldur einnig til véla til eldri skipa og til fasteigna, þ. e. a. s. bygginga, sem gerðar eru til þess að hagnýta eða vinna verðmæti úr sjávarafla, og er þá sérstaklega átt við frystihúsin, sem mjög hafa verið byggð nú, meðan á styrjöldinni hefur staðið, og þess vegna geipiháu verði. Það má gera ráð fyrir því, að það verði svo með frystihúsin, ef ekki verður unnt að afskrifa þau niður í nokkurn veginn hæfilegt verð, að rekstur þeirra verði ákaflega erfiður eftir stríðið. En Íslendingar gera sér miklar vonir um, að einmitt hraðfrystihúsin skapi mjög mikil skilyrði til þess að geta komið fiskafurðum á erlendan markað, og sérstaklega þó, að þær fiskafurðir verði verðmeiri en fiskur, sem fluttur er út með haus og hala, eins og nú tíðkast.

Ég hef alls staðar fengið mjög góðar undirtektir undir þessa till., þar sem ég hef rætt um hana við hv. alþm., og vænti ég þess því, að hún fái vinsamlega meðferð í þinginu. — Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að þessari till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn. og síðari umr.