16.11.1943
Sameinað þing: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (3424)

127. mál, fyrningar fiskiskipa o.fl.

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Ég heyri, að hv. þm. V.-Húnv. er ekki alls kostar ánægður. Og þó að hann segi nú, að hann sé ekki ánægður með mig, þá held ég, að hann sé óánægður með sjálfan sig. — Hann segir, að ég hafi annaðhvort ekki skilið fyrirspurnir hans eða ekki viljað skilja þær. Hann segist hafa spurt um það, hvort þessi frádráttur ætti ekki að ná til fleiri verðmæta en þeirra, sem talin eru í þáltill. Ég svaraði því, að samkvæmt till. ætti það ekki að ná til annarra, og það held ég, að hver maður ætti að skilja. Ég skil ekki í, að nokkurt svo ferkantað höfuð sé í þessari hv. d., að það skilji ekki, að ég meina það, sem stendur í þáltill. Hitt sagðist ég ekki synja fyrir, að þörf gæti á því verið, að þetta næði til einhverra fleiri tegunda verðmæta. Það væri bara mál, sem ég hefði ekki tök á að rannsaka.

Þá sagðist hv. þm. V.-Húnv. hafa spurt mig um það einnig, hvort það væri meiningin eftir þáltill., að endurgreiddir yrðu skattar síðustu ára að einhverju leyti til þessara aðila. Ég sagði, að það væri ætlazt til þess. Og ég skal gefa honum það skriflegt, ef hann vill.

Annars skal ég taka það fram út af þessum orðum hv. þm. V.-Húnv., að ég hafi annaðhvort ekki skilið eða ekki viljað skilja fyrirspurnir hans, að ég hef ævinlega skilið, hvað þessi hv. þm. meinar um sjávarútvegsmál, og það getur enginn maður misskilið það. Það er ekki hægt að læðast neitt í gegn með þá hluti, þeir eru orðnir það þjóðkunnir og vitanlegir.

Um það, að þessi hv. þm. segist ekki skilja, að það þurfi ekki eins að endurgreiða útsvörin eins og skattana samkv. till., þá er það að segja, að ég get ekki gert að því, þó að hann skilji það ekki, — ég held, að það skilji það allir aðrir, að útsvör eru lögð á eftir sérstökum l., og hér er ekki farið fram á að breyta þeim l. Hvers vegna skyldi þá eiga að endurgreiða útsvörin, þó að þessi þáltill. yrði samþ.?