19.10.1943
Sameinað þing: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (3600)

98. mál, neyzlumjólkurskortur

Flm. (Emil Jónsson) :

Mér þykir ýmislegt í þessu máli allundarlega snúast nú, þegar lýst er yfir því af hv. þm. V.-Sk., að fulltrúar hins erlenda setuliðs hafi látið á sér skilja, að viðskiptin væru óviss í framtíðinni, ef við hættum að selja þeim mjólk, á sama tíma og hæstv. atvmrh. lýsir yfir því, að ekki sé sótzt eftir mjólkurkaupum af setuliðinu nema því, sem afgangs sé af okkar þörf. Þetta fer í bága við sjónarmið hv. þm. G.-K., þegar hann telur, að okkar málum sé stofnað í voða og okkur ekki samboðið, ef takmörkuð sé sala til setuliðsins, þó að ráðh. hafi lýst yfir, að setuliðið vilji ekki nema afgangsmjólk. Það lítur því svo út sem mjólkursölun. sé að teygja sig eftir viðskiptum frá setuliðinu, en að hinu leytinu eins og við viljum reyna að draga mjólk af sjúkum mönnum. Það vakti ekki fyrir okkur flm., að takmörkuð yrði mjólk til sjúkra manna meira en handa borgurunum, en við vildum átelja, að sala til setuliðsins væri óbreytt á sama tíma og skortur yrði að vera hjá okkar sjúklingum og börnum og að við yrðum að borga verulegan hluta til bændanna af því, sem mjólk til setuliðsins kostar. Ríkissjóður greiðir 25 aura með hverjum lítra mjólkur, svo að hið erl. setulið afhendir a. m. k. 2000 kr. á dag til styrktar sínum mjólkurhagsmunum eða milli 7 og 800 þús. kr. á ári.

Það er aðallega þetta ósamræmi, sem við vildum bæta úr með þessari till. okkar, og það er einkum tvennt, sem ég vil sérstaklega taka fram. Í fyrsta lagi það, að setuliðið skuli vera látið sæta sömu kjörum og við, og í öðru lagi það, að það er æskilegt, að athugað verði, hvort við getum ekki sloppið við að greiða þessa meðgjöf, sem er bein afleiðing af okkar skipulagi. Ég get ekki fundið þrátt fyrir það, sem hv. þm. G.-K. sagði, að í þessu sé neitt ósamboðið okkur Íslendingum, að það sé nokkuð athugavert við það, þótt við gerum kröfu til þess að þurfa ekki að borga mat ofan í aðrar þjóðir, og að það séu ekki yfirleitt gerðar hlutfallslega hærri kröfur til okkar en annarra þjóða.

Mér þótti ýmislegt mjög fróðlegt í skýrslu hv. þm. V.-Sk. hér áðan. Hann upplýsti, að mjólkurmagnið hefði vaxið, síðan samsalan tók til starfa, úr 6,3 millj. lítra árið 1934 — upp í 15,5 millj. lítra á árinu 1942, og vill láta á sér skilja, að neyzlumjólkin hafi vaxið að sama skapi og að nú sé öll þessi mjólk til neyzlu hér og í Hafnarfirði. Mér dettur ekki í hug að álíta, að hann ætlist til þess í alvöru, að við trúum því, að allt þetta fari til neyzlu, heldur hlýtur verulegur hluti af því að fara til framleiðslu mjólkurafurða. Það er því alveg villandi að koma fram með þessar tölur.

Þá gat hann þess, að mjólkurmagnið í september hefði hækkað úr 15000 lítrum árið 1934 upp í 23300 lítra árið 1942. Þetta eru alveg furðulegar upplýsingar, og ég skil ekki, hvernig þetta getur verið rétt. Það er staðreynd, að margir fá nú miklu minni mjólk en á sama tíma í fyrra, og ég hef talað við marga, sem segjast nú fá þriðjungi til helmingi minni mjólk en á sama tíma í fyrra, og stundum líða margir dagar svo, að stór heimili fá alls ekkert. Svo á að halda því fram, að magnið hafi vaxið um 50% frá því 1934. Það mætti segja mér, að þarna væri eitthvað ósagt, en það er eins og aldrei sé hægt að komast fyrir endann á þessu. Það mætti segja mér, að í sambandi við sumar þessar tölur væri einhverju leynt, þar væri eitthvað, sem ekki er hægt að komast að.

Hv. þm. V.-Sk. sagði, að það væri ekkert einsdæmi, þótt hér væri mjólkurskortur, það væri mjólkurskortur um allt land, og það getur verið satt. En mér sýnist, að ástæðurnar til þess, að hér er mjólkurskortur, séu minni en nokkurs staðar annars staðar á landinu, þar sem svo víðlend og góð mjólkurframleiðsluhéruð eru hér í nágrenni bæjarins, að það ætti að vera hægt að sjá til þess, að bærinn fengi alltaf næga mjólk.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að brtt. þeirri, sem hv. þm. V.-Sk. flytur. — Hann sagði, að ætti að skerða rétt samsölunnar til þess að skipta við setuliðið, fá yrðu fleiri að fylgja með, og hann nefndi í þessu sambandi rafmagnið og vatnið. En þetta er alveg ósambærilegt. Mjólkursamsalan starfar undir lögvernduðu skipulagi, sem bannar öllum öðrum að selja mjólk til bæjarins. En þeir, sem njóta slíkra hlunninda, verða einnig að hafa einhverjum skyldum að gegna. En þeir, sem framleiða og selja mjólkina, hafa ekki gert sér ljóst, að skyldurnar verða að vera ræktar, ef þeir eiga að njóta hlunnindanna. Þeir hafa viljað njóta hlunnindanna án þess að taka á sig skyldurnar, og ef að hefur verið fundið við þá, þá hafa þeir svarað illu einu til . En það, sem hefur valdið mestri óánægju, er það, að aldrei hefur verið reynt að bæta úr þeim ágöllum, sem kvartanir hafa verið gerðar um, heldur hefur verið reynt að telja úr þessum kvörtunum og vefengja það, að ágallarnir væru nokkrir. En það, sem gerir þetta sérstakt, er, að þetta er lögverndað skipulag, sem á að standa undir skyldum, um leið og það nýtur hlunninda. Og það getur ekki hjá því komizt.

Það er auðvitað sagt, eins og vant er, að hér sé um að ræða ofsóknir á hendur einni stétt, að hér eigi að beita þrælatökum og að það sé verið að hneppa bændur í fjötra. Þetta er auðvitað haft að yfirvarpi til þess að leyna því. hvernig ástandið er í raun og veru. En það á sér engan stað, að hér sé um ofsóknir að ræða. Hvernig má það líka vera, þegar búið er að tryggja bændum lögboðið verð á öllum sínum afurðum? (JörB: Hafa allir ætlað að standa við það?) Það kemur málinu ekkert við. Verðið hefur illu heilli verið ákveðið, þó að margir hafi verið á móti því, en hitt er satt, að þetta getur ekki staðið til lengdar, svo ósanngjarnt sem það er, en það stendur a. m. k. nú. (JörB: Ég veit, að hér eru menn reiðubúnir til þess að svíkja það). Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um þetta. Það er vitað, að þessi skortur er fyrir hendi og hann er mjög tilfinnanlegur. En það er ekkert gert til þess að kippa þessu í lag. Það er líka staðreynd, að umkvartanirnar eru lítilsvirtar, allar óskir neytenda hundsaðar og gerðar tortryggilegar og það er reynt með hálfkveðnum tölum að láta líta svo út sem allt sé í bezta lagi. Ég sé, að hv. þm. V.-Sk. brosir að þessu og þykist ekki skilja, hvað við er átt. Mér þykir leitt, ef hann skilur ekki þá þörf, sem hér er fyrir hendi. (SvbH: Ég skil ekki hv. þm.). Nei, hann skilur mig ekki, en ef hann ætti að búa við það skipulag, sem ég og aðrir neytendur þessara bæja eigum við að búa, þá mundi hann ef til vill skilja það.

Það, sem hér er farið fram á, er ekki annað en það, að setuliðið fái ekki þá mjólk, sem sjúkir menn og smábörn þurfa að fá. Það er aðeins farið fram á það, að Íslendingar þurfi ekki að búa við lakari kjör en hið erlenda setulið, sem hér dvelst. Ég vænti því, að þessu fáist kippt í lag, og mér þykir líklegt, að það megi treysta því samkvæmt því, sem hæstv. atvmrh. hefur sagt.

Með 5000 lítra aukningu á dag, sem ætla má, að hægt sé að fá með takmörkun á sölu mjólkur til setuliðsins, þá er áreiðanlegt, að hægt er að bæta úr þörf Íslendinga að miklu leyti og þá mun um leið létta af ríkissjóði þeirri byrði að þurfa að verðbæta mjólk ofan í hið erlenda setulið.

Það hefur verið stungið upp á því að vísa þessari þáltill. til allshn., og ég mun ekki verða á móti því, en ég vil vænta þess, að afgreiðslu málsins verði hraðað sem unnt er, því að þörfin er mjög brýn.