04.11.1943
Sameinað þing: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

27. mál, fjárlög 1944

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa till. Þessi maður, Sigurður Níelsson, sem farið er fram á, að sé veitt nokkur upphæð í fjárlögum, er kominn fast að áttræðu. Hann hefur lengst af unnið hjá Eimskipafélaginu síðan hann kom til bæjarins um aldamótin. Hann hefur átt 8 börn, sem öll eru uppkomin. Þess má geta, að þegar svipazt var um meðal verkamanna eftir því, hver væri verðugastur að vera sæmdur fálkaorðunni, þá varð Sigurður Níelsson fyrir valinu. Þess vegna vona ég, að hv. þm. sjái sér fært að láta þennan mann fá þessa litlu viðurkenningu fyrir þetta, þegar hann hafði áður á sínum starfsárum fengið þá viðurkenningu, sem ég gat um. Og í fyllsta trausti þess, að hv. fjvn. taki þetta til greina á milli umr., mun ég taka þessa brtt. aftur til 3. umr.