04.03.1944
Efri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég vil fyrst lýsa yfir ánægju minni, að svo er nú komið, að fullt samkomulag verður bæði um þáltill. og stjskr. hér á Alþ. Ég tel — og segi það í tilefni af orðum frsm. —, að einmitt með því sé fengin sú mesta trygging, sem unnt er að fá fyrir fullri þjóðareiningu um málið, en það sé jafnframt mesta tryggingin fyrir því, að engum mótbárum verði hreyft á gerðir Alþ. og þjóðarinnar í þessum efnum. Ég vil segja það, að ég álít það hafa verið rétt og hyggilegt af þeim meiri hl., sem hér var að sveigja til samkomulags um málið. Hv. frsm. drap á það í ræðu sinni, að Sósfl. hefði eindregið verið þeirrar skoðunar í stjskrn., að rétt væri að hafa forsetann þjóðkjörinn. — Hér er ekki fyllilega rétt frá sagt, og vil ég leiðrétta það. Það var ætlunin í stjskrn. að taka þetta atriði til athugunar, en það varð nú ekki. En eins og hann tók fram, þá höfðu einstakir nm. óbundnar hendur um þetta atriði, svo sem síðar kom í ljós.

Ég er að nokkru leyti sammála hv. 8. landsk. um það, að ákvæðin um kjör forsetans séu ekki alls kostar heppileg, en ég er fullkomlega sammála honum um, að hann skuli vera þjóðkjörinn. Að vísu tel ég ekki rétt að setja kjörmenn, en mér finnst, að gera verði ráð fyrir því, að svo geti farið, að forseti verði kosinn með tiltölulega mjög litlum fjölda atkv. miðað við alla þá, sem þátt taka í atkvgr. En svo getur farið, eins og nú er frá þessu máli gengið í 5. gr. frv. Ég fyrir mitt leyti hefði talið rétt að athuga möguleika á því, að forsetinn skuli kjörinn með meiri hl. atkv., jafnvel þótt endurtaka yrði kosninguna. Að ég ber ekki fram neina brtt. í þessu efni, stafar af því, sem frsm. minntist á í ræðu sinni, að ráðgert er að endurskoða stjskr., og mun það væntanlega verða gert nú á næstu árum. Tel ég víst, að þetta atriði verði þá tekið til athugunar. Ég vildi aðeins láta þessa aths. í ljós hér.

Ég fellst algerlega á þau rök, sem frsm. bar fram fyrir því, að rétt er og eðlilegt, að forsetinn sé þjóðkjörinn, en ekki kjörinn af Alþ. Ef forsetinn væri kjörinn af Alþ. og hefði vald sitt frá því, þá mætti raunverulega eins láta forsrh. hafa með höndum framkvæmd þessa valds og óþarfi, að hann hefði sérstaka forsetanafnbót. Með því að forseti yrði kosinn beint af þjóðinni, yrði hann skoðaður sem fulltrúi þjóðarinnar á Alþ. Ég endurtek þessi rök, sem frsm. bar fram, af því að hér liggur fyrir brtt. frá stjskrn. Ég álít ekki rétt að samþ. þessa brtt. Ég var því sammála, að í stjskr. var sett það ákvæði, að forsetinn skyldi vera kjörinn af Alþ. En einmitt um leið og þessu er breytt og forseti þjóðkjörinn, en ekki þingkjörinn, finnst mér eðlilegt, að hann hafi þetta vald.

Nú skal ég játa, að það er fullkomlega rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að um þetta mætti sjálfsagt deila óendanlega, hver eigi að ráða þann tíma, þar til þjóðaratkvgr. fer fram og forseti er kjörinn af þjóðinni.

Ég tel, að rétt sé, að forsetinn hafi þetta synjunarvald í hendi sér, ef hann er þjóðkjörinn. Mér er ljóst, að það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að forseti gæti með þessu í vissum tilfellum gert l. að engu, vegna þess að l. geta verið tímabundin og ef til vill áhrifalaust að beita þeim, þegar atkvæðagreiðsla hefði farið fram að 6–7 vikum liðnum. En það má líka taka málið frá hinni hliðinni. L. gætu verið búin að hafa full áhrif, áður en atkvgr. hefði farið fram um þau meðal þjóðarinnar. Þannig má í báðum tilfellunum sýna fram á dæmi bæði með þessu og móti. En sem sagt, eftir þá breyt., sem gerð hefur verið á frv. af stjskrn., að forsetinn skuli vera þjóðkjörinn, þá tel ég eðlilegra, að frestunarvald þetta sé í höndum forsetans en að l. taki gildi án staðfestingar hans og hvað sem valdi hans líður, þar til þjóðaratkvgr. hefur farið fram og þjóðin sagt álit sitt.

Það eru ekki fleiri atriði, sem ég sé sérstaklega ástæðu til að benda á í sambandi við þetta. En ég læt í ljós ánægju mína yfir þeim málalokum, sem fengizt hafa í þessu efni. Og ég vona, að sú eining, sem hefur fengizt í málinu, haldist, þar til full afgreiðsla er fengin á málinu.