06.12.1944
Efri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. — Eins og tekið hefur verið fram, skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. Ég er á móti því að selja nema eina af þeim jörðum, sem hér er um að ræða, en það er eyðijörðin Gröf í Staðarsveit. Hún hefur nú lengi verið í eyði, og auk þess stendur svo á, að bóndinn á Ölkeldu fékk fyrir nokkru heimild til að kaupa hana, en gat það þá ekki vegna fjárskorts. Ég hef stundum verið með því, að ríkið seldi jarðir, þegar þær hafa ekki verið seldar til einstakra manna. En svo stendur á um hinar jarðirnar, sem frv. þetta fjallar um, að það eru ábúendur þeirra, sem vilja fá þær keyptar. Ég tel, að með þessu sé farið inn á ranga braut. Ég álít, að ríkið eigi ekki að selja jarðir sínar, ekki sízt fyrir þá sök, að ekki er um að ræða neitt verð fyrir þær, heldur eru þær seldar á gjafverði. Menn eru farnir að heimta jarðir af ríkinu, og álít ég, að Alþ. verði að spyrna við fótum og hætta að selja jarðir sínar.

Ég flyt hér brtt. á þá leið, að þrír fyrstu liðirnir falli niður og eftir standi aðeins fjórði liður, að ríkisstj. verði aðeins heimilað að selja eyðijörðina Gröf í Staðarsveit.