28.02.1945
Efri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2480)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Ég held, að hv. 6. þm. Reykv. hafi ekki athugað þetta alveg nógu vel. Hann viðurkennir náttúrlega gildi aths. fyrir frv., og að hans dómi eru þær algerlega ótvíræðar, því að það er ekki dregið neitt í efa um það, enda hafa allir þessir kunnáttumenn, Geir Zoëga, Guðjón Samúelsson, vitamálastjórinn og Hörður Bjarnason komizt að sömu niðurstöðu, en þar sem hv. þm. talaði nú síðast um það, að höfuðflm. frv., sem ef ég man rétt, er 2. þm. kommúnista, sé ekki að níða starfsmenn ríkisins, þegar þeir tala um dómgreindarleysi. Eftir að þeir eru búnir að tala um, að opinberir starfsmenn eigi að taka þátt í samkeppni, og svo komast þeir þannig að orði um það, að náttúrlega ættu þeir að standa betur að vígi en aðrir, vegna langrar reynslu, en svo bæta þeir við, með leyfi hæstv. forseta:

„Þrátt fyrir það er sú hætta fyrir hendi, að úrlausnir þeirra, sem árum saman hafa unnið að sams konar mannvirkjum, geti orðið vanabundnar og einhæfar, ef um enga samkeppni við þá er að ræða.“

Það er þess vegna ekki neinum blöðum um það að fletta, en svo bæta þeir bara við, að þetta hafi spillandi áhrif á allan almenning. Nú stendur málið þannig, að búið er að sanna, að frv. er alveg óhæft fyrir Reykjavíkurbæ, og hv. þm. Barð. hefur einnig fundið að því, að það væri ekki æskilegt fyrir ýmsa aðra aðila, og allir þeir verkfræðingar, sem heyra undir ríkið, hafa mótmælt því með rökum. Ég vil því minna á það, að dagskrártill. mín byggist á því sama og bæjarráð Reykjavíkur heldur fram, reyna að fyrirbyggja, að starfsmenn ríkisins búi við óréttlæti, sem starfsmenn Reykjavíkurbæjar vilja ekki á sig leggja.