11.09.1944
Neðri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (2961)

89. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar o.fl.

Emil Jónsson:

Þessar umr. hér í kvöld hafa verið með nokkuð öðrum blæ en oft áður á Alþ. Það hefur ekki gætt eins mikið og áður átaka milli flokkanna, og get ég ímyndað mér, að það spái einhverju góðu um árangur af því samstarfi, sem talað hefur verið um, að verið hafi milli flokkanna. — Ég skal aðeins með örfáum orðum minna á nokkur atriði þó, sem komið hafa fram í umr. og mér finnst ástæða til að fara nokkrum orðum um.

Hæstv. fjmrh. sagði í fyrstu ræðu sinni, að svo væri nú komið verðlagi á innlendum iðnaðarvörum, að þær væru hvergi nærri samkeppnisfærar við þær erlendu, og undir það tók hv. 2. þm. S-M. Ráðh. sagði, að verðlag á fiskibátum væri 10–11 þús. kr. á smálest, og væri það heldur hærra en hæst þekktist annars staðar. Þessa tölu hæstv. ráðh. tel ég vægast sagt mjög vafasama. Ég þekki dæmi um það og alveg nýtt, frá því nú fyrir nokkrum mánuðum, þar sem íslenzkur fiskibátur hefur verið smíðaður fyrir mjög miklu lægra verð en 10–11 þús. kr. á smálest. Ég veit ekki nákvæmlega, hvað mikið, en áreiðanlega lægra en þetta og miklu lægra. — Skipasmiðir, sem voru hér samankomnir á fundi ekki alls fyrir löngu, töldu, að verðlag á íslenzkum fiskibátum lægi í kr. 9–10 þús. smálestin, en þó var reiknað með farmgjöldum á efnið í skipin, sem voru talsvert hærri en nú gerist, svo að frá því verði, sem þá var reiknað, mun hægt að draga eitt þúsund krónur á smálest, og verður smálestin þá 8–9 þús. kr.

Mér skilst á því tilboði, sem hæstv. ríkisstj. útvegaði í fiskibáta frá Svíþjóð, að þá sé verðlag hátt á 8. þús. kr. smálestin, ef allt er reiknað, svo að ekki mun mismunurinn á innlendu og erlendu verði vera eins mikill og hæstv. ráðh. vill vera láta. Nefndi hæstv. ráðh. ýmis dæmi þessu til sönnunar, svo sem húsgögn o. fl. Það er rétt, að sumt af þessu er dýrara hér en vörur, sem keyptar eru erlendis undir sama nafni, en það kemur margt til greina, áður en samanburð er hægt að gera, t. d. hvort það eru sams konar vörur og vinna erlendis og hér og ýmsir erfiðleikar, sem þessi starfsgrein á við að búa hér á landi. En þrátt fyrir það er mismunurinn á erlendum og innlendum vörum, hvað skipasmíði snertir, ekki meiri.

Hvað mætti þá, vildi ég spyrja, hv. 2. þm. S-M. segja um smjörið, um kartöflurnar og landbúnaðarvörur yfirleitt? Það er verið að framleiða þær á þessu landi fyrir tvöfalt, þrefalt og margfalt hærra verð en maður fær þær erlendis frá. Það er erfitt að geta ekki fengið smjörkílóið fyrir minna en kr. 21.50, þegar maður veit, að það kostar ekki meira en 7 kr. frá útlöndum og hve áríðandi það er fyrir allan almenning að þurfa að fá betri vöru en smjörlíkið, sem boðið er upp á, — og ekki miðar þetta verðlag að því að halda dýrtíðinni niðri.

Hæstv. fjmrh. sagði, að samningsumleitanir væru tiltölulega þýðingarlitlar; þær hefðu verið reyndar milli verkamanna og bænda, en mistekizt, — verkamenn vildu ekki offra broti af því, sem félagar þeirra í Svíþjóð offruðu. — Þessar samningsumleitanir miðuðu að niðurfærslu á hvoru tveggja, kaupgjaldi og vörum, sem ég efast um, að þeir hafi talið æskilega og eðlilega, eins og sakir stóðu þá. Og þó að ekki hafi náðst samkomulag, þegar þetta var reynt, þá er ekki sannað, að það næðist ekki nú, því að það eru aðrir möguleikar og meiri að ná samkomulagi nú en var aðeins fyrir stuttum tíma.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væru aðeins tvær áttir á áttavita þm. Önnur, sem hann tilnefndi, var átt kjósendanna og hin átt þingsætanna. Ég held, að þetta sé og eigi að vera sama áttin, eða svo bezt geta þm. gengið að starfi sínu eins og vera ber, að þeir vinni eins og kjósendurnir hafa falið þeim, og flestir þm. vilja áreiðanlega fara í sem flestu eftir vilja kjósenda sinna.

Hæstv. forsrh. (BÞ) gaf hér áðan stórpólitíska yfirlýsingu, þar sem hann lýsti yfir, að ríkisstj. mundi sækja um lausn, ef ekki yrði ráðið fram úr þessu dýrtíðarmáli fyrir 15. þ. m. á þann hátt, sem ríkisstj. gæti fallizt á. Ég sé ekki, að þessi yfirlýsing hæstv. forsrh. hafi mikla þýðingu út af fyrir sig nema það, að hún getur sparað hv. 2. þm. Reykv. það ómak, sem hann sagðist ætla að taka á sig, að bera fram vantraust á ríkisstj. Hann sagði nefnilega, að sá möguleiki væri ekki til að láta ríkisstj. sitja lengur. Mér þótti þetta koma úr undarlegustu átt, því að raunverulega er hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, nokkurs konar faðir þessarar hæstv. ríkisstj., sem nú situr að völdum, svo að mér þykir það koma úr hörðustu átt, að boðun vantrauststill. skyldi einmitt koma frá honum. Hann sagði á fundi, sem ég var staddur á og haldinn var 3. des. 1942 í átta manna n. svokölluðu til að ræða möguleika til stjórnarmyndunar, að hann legði til, að ríkisstjóra yrði skýrt frá því, að flokkarnir hefðu ekki í bili komið sér saman um málefnagrundvöll til stjórnarmyndunar, og þess vegna legði hann til, að bráðabirgðaskipan yrði höfð á þessum málum, þannig að ríkisstjóri skipaði ópólitíska stjórn og flokkarnir reyndu síðan að koma sameiningu á. Hann taldi sig jafnfúsan þá að styðja þessa stj. og nú að bera fram vantraust á hana. Ég hafði aldrei fyrr heyrt getið um þennan möguleika, ekki fyrr en þessi hv. 2. þm. Reykv., sem nú boðar vantraust, bar það fram, og má því með sanni segja, að hugmyndin um hæstv. ríkisstj., sem nú situr, sé frá honum.

Alþfl. lýsti sig strax andvígan þessari till., taldi það ekki þingræðislega að farið. Það væri æskilegt og nauðsynlegt, ef þingræðislegt starf skyldi fást, að ríkisstj. hefði nauðsynlegan meiri hl. á Alþingi. Alþfl. neitaði að leggja inn á þessa braut, fyrr en fyrst væri reynt og sýnt, að annað gæti ekki tekizt. Ég held, að Sjálfstfl. hafi haft svipaða aðstöðu. Sósfl. vildi fá þessa stj., og Framsfl. var veikur fyrir þessum möguleika.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að Alþfl. hefði reynt að hafa áhrif á atkvgr. um verkfall verkamannafélagsins Hlífar í Hafnarfirði. Þessu vil ég algerlega mótmæla og fullyrði, að engin áhrif var reynt að hafa á verkamennina þar. Þeir greiddu atkv. af eigin hvötum og án nokkurrar íhlutunar annarra. Fulltrúi Alþfl. í samningan. beitti sér fyrir því, að kaupgjald það, sem atvinnurekendum var boðið að greiða, yrði sama og Dagsbrúnartaxti. Ég álít ekki heppilegt að fara út í deilur, eins og þar er gert, til þess að fá kaup hækkað upp fyrir Reykjavíkurtaxta í Dagsbrún, þó að það stemmi ekki vel við þann kjósendaáttavita, sem hæstv. ráðh. talaði um áðan og við á í mörgum tilfellum að fara eftir. Ég býst við, þegar verkamenn í Reykjavík og Hafnarfirði hafa athugað kostinn við það að geta haft fast og öruggt starf í eitt til tvö ár, að þá hafi mörgum getað snúizt hugur um afstöðu í þessu máli. Það er allt annað að eiga fyrir sér fasta og trygga atvinnu en óvissan, sem ríkt hefur í þessum málum, og það er verkamönnunum efst í huga, þegar þeir greiða atkv. Ég get búizt við við nánari athugun, að af þessum ástæðum hafi kannske ekki verið hleypt í atkvgr. því kappi, sem annars mundi hafa verið réttlætanlegt.

Ég skal ekki fara langt út í fleiri atriði, það er ekki tími til þess. En mig langar að minnast á eitt atriði í ræðu hv. 2. þm. S-M., þar sem hann segir, að bændur kvarti yfir því, að ekki fáist sama verð fyrir landbúnaðarvörur og eigi að vera samkv. áliti sex manna n. Mér er spurn: Hvar er mismunurinn, og hvað hafa bændur fengið? Og því er ekki hafður sami háttur um að gera grein fyrir þessu fé og öðru frá ríkissjóði? Því eru ekki teknar kvittanir frá bændunum? Frá því er gengið í kaupfélögunum og öðrum félögum, sem kvitta í heild til ríkissjóðs, og enginn veit, hver hefur tekið við. Hvar eru fylgiskjölin? Það mundi þykja einkennileg afgreiðsla í þeim rekstri, sem ég hef með höndum, ef ég afhenti verkstjóranum í einu lagi alla upphæðina og segði honum að borga þetta í vinnulaun, en fengi enga kvittun frá verkamönnunum. Þetta er nákvæmlega hliðstætt hátterni eins og um greidda uppbót til landbúnaðarins. Það hefur verið borin fram till. á Alþ. fyrir nokkru, þar sem lagt er til, að þessu yrði kippt í lag og kvittanir teknar upp, en ekki fengizt samþ.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Það líður vonandi bráðum að því, að styrjöldinni ljúki, a. m. k. í Evrópu. Styrjöldin hefur ekki komið neitt svipað við okkur eins og aðrar þjóðir, því að þessi ár hafa fært okkur fullt sjálfstæði og fullar hendur fjár. Fyrir styrjöldina skulduðum við öðrum þjóðum um 100 millj. kr. og áttum engar innstæður á móti, en nú eru innstæður bankanna erlendis á 6. hundrað millj. kr. Verður nú fé þetta notað sem eyðslueyrir eða til þess að byggja upp heilbrigt atvinnulíf þjóðarinnar? Lausn þessa máls, sem hér liggur fyrir, getur orðið afdrifarík, því að þau tækifæri, sem við höfum í dag, höfum við aldrei áður haft í sögu þjóðarinnar, og getur orðið langt að bíða, að þau berist. Þess vegna vil ég vænta þess, að um þessi mál náist samkomulag, fyrst og fremst um að festa hlutina eins og þeir eru, en í síðustu lög reynt að komast hjá að lögbinda lækkun, eins og gert er ráð fyrir í frv. því, sem hér liggur fyrir frá hæstv. ríkisstj.