25.09.1944
Neðri deild: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (3083)

136. mál, sláturfjárafurðir

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Í l. þeim, er nú gilda um sláturfjárafurðir, er svo ákveðið, að kjötverðlagsn. sé heimilt að leggja verðjöfnunargjald á kjöt innanlands, hæst 10 aura á kílógramm. Eins og hv. þm. er ljóst, er þessi upphæð svo lítil, að hún hefur næsta litla þýðingu eins og kjötverð er nú í landinu. Þykir því nauðsyn bera til að gera breyt. á því. Frv. það, sem hér liggur fyrir, leggur til, að þessu sé breytt þannig, að kjötverðlagsn. geti lagt verðjöfnunargjald á kjötið, en ekkert hámark sett í l., heldur þurfi n. að fá samþykki landbrh. fyrir, hvað gjaldið skuli vera hátt. Kjötverðlagsn. er samþ. þessari till., sem hér er gerð til breyt. á l., og er þetta frv. að nokkru leyti fram borið vegna óska frá n.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og landbn.