10.01.1945
Efri deild: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (3385)

240. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. — Eins og grg. frv. ber með sér, er þetta frv. flutt af fjhn. eftir ósk hæstv. fjmrh. En stjórn Lífeyrissjóðs Íslands hefur samþ. frv. og gengið frá því. Samkvæmt l. Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem gengu í gildi 1. júlí s.l., er upphæð lífeyris ákveðin á 12. gr. þannig, að hámark lífeyris skal vera 60% að meðallaunum 10 s.l. ára hlutaðeigandi starfsmanns, með þeim breytingum, sem geta orðið á launaupphæð að meðtalinni verðlagsuppbót. En við það er átt í þessari gr., að það sé hugsanlegt, að sveiflur verði á upphæð launanna á tiltölulega skömmum tíma, ef t.d. vísitalan lækkar og verðlag að sama skapi, að 60% af meðallaunum 10 næstkomandi ára geti orðið jafnhá og jafnvel hærri en laun starfsmanna eru í þeirri stöðu, þegar lífeyririnn verður greiddur. Þetta var aldrei tilætlun löggjafans, enda er ekki líklegt, að til þess komi, en það þótti rétt, úr því að breyt. á l. var flutt á annað borð, að girða fyrir, að slíkt geti komið fyrir. Og til þess er ætlazt, að það sé gert með 1. gr. þessa frv., að því er varðar mennina sjálfa, og á 2. gr., að því er varðar eftirlífandi maka. Að vísu er gert ráð fyrir því, að lífeyrir samkvæmt þessari gr. geti orðið nokkru hærri en samkvæmt 12. gr. að prósentum þess hundraðshluta, því að í 12. gr. er hámarkið 60% á meðallaun 10 s.l. ára. 1. og 2. gr. þessa frv. gera ráð fyrir því, að lífeyririnn verði 75% af þeim launum, sem greidd eru fyrir sams konar störf. En það þótti rétt að hafa þessa heimild rýmri með tilliti til þess, ef svo stendur á, að hlutaðeigandi starfsmaður greiðir iðgjöld, sem eru mjög miklu hærri en við er miðað, þegar lífeyrir verður greiddur, og talið eðlilegt, að þeir njóti þess að nokkru.

Meginefni þessa frv. og það, sem veldur því, að það er flutt, er að finna í 3. gr. Eftir l. um Lífeyrissjóð embættismanna eru þeir menn tryggingarskyldir í þeim sjóði, sem taka laun samkvæmt launal. En það er mikill fjöldi starfsmanna, sem er í þjónustu ríkisins beint eða óbeint án þess að taka laun samkvæmt launalögunum. Nægir að benda á skrifstofufólk lögreglustjóra, vitamálastjóra, vegamálastjóra, starfsfólk í einkasölunum, yfirmenn á skipum ríkisins og fleiri. Allt þetta fólk varð tryggingarskylt samkvæmt hinum nýju l., sem Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tók í gildi 1. júlí s.l. Nokkuð af þessu fólki hefur starfað lengi í þjónustu ríkisins, nokkrir hinna elztu allt frá því 1920 eða jafnvel fyrr. Rétt samkv. lögum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fá þeir ekki að l. óbreyttum, nema frá þeim tíma, sem sjóðurinn tók þau l. í gildi, 1. júlí s.l. Það liggur í augum uppi, að fyrir þá menn, sem hafa starfað í þjónustu ríkisins og komnir eru á fullorðinsár, skortir mikið á, að þessi trygging sé fullnægjandi og með þessa starfsmenn sé farið eins og undanfarið, að þeir séu teknir upp á 18. gr. fjárl. með fullum eftirlaunum eða að Lífeyrissjóður greiði full eftirlaun. Í 3. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að tryggja þessum mönnum fullan eftirlaunarétt, sambærilegan við það, sem þeir nutu, er voru í Lífeyrissjóði embættismanna, að því tilsettu, að þeir greiði iðjöld til jafns á við og eftir sömu reglum sem starfsmenn hafa greitt eftir 10 s.l. ár, ásamt vöxtum og vaxtavöxtum. Það þótti ekki fært að fara lengra aftur í tímann. Það þóttu ekki líkindi til þess, að þessum starfsmönnum væri fært að greiða iðgjöld, sem jafngiltu þeim, sem ég hef nefnt. Af þessu leiðir, að gera verður ráð fyrir því, að sjóðurinn hafi halla af greiðslum til þessara manna. Er því gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði það, sem til vantar, að iðgjöld þessara manna hrökkvi til að standast kostnað við sjóðinn. Hversu mikla fúlgu hér er um að ræða, er ekki hægt að segja um, það fer að miklu leyti eftir því, hver verðlagstala verður gildandi í landinu. Auk þess er aldrei hægt að segja um það með vissu, hve margt af starfsfólki ílengist og nýtur lífeyris. En ætla má, að langflestu af þessu fólki, þar sem verulega skortir á, að lífeyririnn verði fullnægjandi, mundi verða veitt eftirlaun samkv. 18. gr. fjárl. Þannig er í raun og veru að mestu leyti um að ræða, hvort heppilegra sé að styrkja sjóðinn eða ætlazt sé til þess, að greitt sé af fjárl. til jafns við aðra. Mér þykir rétt að geta þess í þessu sambandi, að það starfsfólk, sem hér er um að ræða, hefur ekki fyrr en 1. júlí s.l. greitt iðgjöld til Lífeyrissjóðs Íslands. Komið hefur til mála, og ég verð að segja, að ýmislegt mælir með því, að Lífeyrissjóði Íslands verði heimilað að endurgreiða iðgjöld frá þessu fólki, sem til hans hafa gengið, þannig að fólkið mundi nota það fé til þess að greiða þá fúlgu, sem þarf að greiða til Lífeyrissjóðs Íslands. Mér þykir trúlegt, að það komi fram till. um þetta hér í deildinni. Mér þykir rétt að taka það fram, að fjmrh. og fjvn. eru sömu skoðunar um þá meginreglu þessa frv., að hið opinbera greiði ekki fyrir liðinn tíma, heldur taki á sig að bæta sjóðnum, þegar fram kemur halli af þessum greiðslum. Hæstv. fjmrh. er sömu skoðunar, að það sé ekkert því til fyrirstöðu, að ríkisstofnunum og öðrum, sem falla undir 3. og 4. gr., verði heimilað vegna starfsmanna sinna að greiða í eitt skipti fyrir öll, til þess að kaupa tilsvarandi rétt, eins og segir í 3. gr., að starfsmenn njóti. Það er erfitt með stofnanir eins og einkasölurnar að ákveða svona langt fram í tímann.

Að því er 4. gr. snertir, þá skýrir hún sig sjálf. Svo er ástatt um nokkra flokka starfsmanna, sem eru tryggðir í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, að þeir njóta einnig annarra trygginga samkv. l. slysatryggingarinnar. Á það við um lækna, sem eru slysatryggðir á öllum ferðalögum, svo og ljósmæður, sem ekki eru í þessum sjóði, og skipverja á skipum ríkissjóðs, hafnsögumenn og nokkrir fleiri. Samkv. alþýðutryggingalögunum, kaflanum um slysatryggingar, eru greiddar ákveðnar bætur vegna slysa og dauðsfalla þessara manna. Þykir eðlilegt, að þær komi til frádráttar við lífeyri, sem Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins greiðir. Þar sem þessi störf eru talin áhættusamari en önnur, þykir eðlilegt, að slysatryggingin greiði til lækna og slysatryggðra starfsmanna.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem þarf að taka fram um frv. á þessu stigi málsins. Það er flutt af n., en hefur þó ekki verið athugað á nefndarfundi, heldur hjá einstökum nm. Ég veit ekki. hvort ástæða er að vísa því til n. Ég geri ráð fyrir því, að það muni vera, óþarft, a.m.k. fyrr en ef brtt. koma fram við það.