30.01.1945
Neðri deild: 115. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (3926)

272. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það var ætlunin að fylgja þessu frv. úr hlaði við 1. umr., en það fórst fyrir, enda fylgir því svo ýtarleg grg. frá þeim manni, sem starfað hefur sem eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna, að ekki er þörf á að bæta þar neinu verulegu við.

Aðalbreyt., sem frv. gerir á gildandi l., er sú, að í stað þess, að nú er tekið tillit til útgjalda sveitarsjóðs til örorku, ellilauna og framfærslu, þá verði í framtíðinni aðeins tekið tillit til framfærslukostnaðar. Við þetta lækkar upphæðin, sem tillit er tekið til, þegar jöfnunin er framkvæmd. 1943 var hún nærri 8 millj., og þá þurfti 1,2 millj. til jöfnunar, en hefði verið tekið tillit til framfærslukostnaðarins eins, hefði hún, verið 3,2 millj. og þá þurft um 11 millj. til jöfnunar. Í l. nú eru ætlaðar kr. 700 þús. í jöfnunarsjóð. Þetta hefur aldrei reynzt nóg, alltaf þurft aukafjárveitingar. Væri hins vegar bara tekið tillit til framfærslukostnaðarins, mundu 700 þús. kr. yfirleitt nægja. Þá hafa líka aðstæður breytzt síðan l. voru sett og ríkið árlega tekið meiri og meiri þátt í greiðslu kennaralauna, örorku- og ellilauna, og því minni og minni ástæða til þess að taka tillit til þeirra útgjalda hreppssjóðanna, þegar jafnað er.

Þetta er sem sagt aðalbreyt., sem gerð er á hinum eldri l. Aðrar breyt. eru smávægilegar og breyta ekki efni né framkvæmd l. frá því, sem nú er.