10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (4469)

72. mál, læknishéruð

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vildi heldur ráða hv. þm. frá því að samþ. till. hv. 2. þm. Reykv., ekki af því, að eigi geti verið ástæða til þess að endurskoða skipun heilbrigðismála í landinu, heldur af því, að slík endurskoðun hlyti að taka mjög langan tíma og verða ákaflega umfangsmikil og engar líkur til þess, að niðurstöður hennar gætu legið fyrir í haust. Á hinn bóginn er bráðlætið svo mikið að breyta skipun læknishéraða, að ætla má, að breyt. kunni að verða gerðar síðar á árinu, án þess að heildarathugun hafi farið fram. N., sem athugaði heilbrigðismál yfirleitt, yrði að rannsaka allt aðra hluti fyrst og fremst. Hún mundi t. d. athuga sjúkrahús og hæli, farsóttir jafnt og varanlega heilsubilun, íhuga, hvern hlut ríkið eigi að bera af sjúkrakostnaði og hvernig afstaða þess og samlaganna verði í framtíð. Endurskoðun á þessu og mörgu því líku kemur lítið við því máli, sem hér liggur fyrir. Þess vegna á ekki að heimta það allt af n. Hv. flm. brtt. má ekki skilja orð mín svo, sem ég sé að mæla móti því, að ýtarleg rannsókn verði framkvæmd, þegar tök verða á.