28.02.1945
Neðri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (4978)

257. mál, veltuskattur

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Út af tveim brtt., sem fyrir liggja, vildi ég segja nokkur orð. Það er rétt, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að ég mælti með brtt. um þetta efni við 2. umr. málsins. Nú hefur hann ásamt 7. þm. Reykv. flutt aðra brtt., sem að efni til er ákaflega lík og sú till., sem þá lá fyrir. Það er náttúrlega á valdi hæstv. forseta að skera úr því, hvort brtt. getur komið til atkvgr. Það getur orkað tvímælis. En ég lýsi yfir því, enda orðið var við, að það var ástæðan til þess, að ýmsir greiddu atkv. móti brtt. við 2. umr., að ef þessi brtt. nær ekki fram að ganga, tel ég mér heimilt að beita undanþáguákvæði 10. gr. frv., svo framarlega sem það kemur í ljós, að skatturinn hefur áhrif á verðið, sem ákveðið er að greiða til bænda. Ég tel það ekki vera í ósamræmi við þingvilja, þótt ég geri það.

Um brtt. á þskj. 1221, sem flutt er af hv. þm. V.-Húnv., er aftur það að segja, að ef hún verður samþ., hefur það veruleg áhrif á þá fjárhæð, sem skatturinn á að gefa. Og ég get ekki lagt til. að hún verði samþ.

Um athugasemdir, sem komið hafa fram varðandi þetta frv. við þessa umr., þarf ég ekki að vera langorður, enda hefur frsm. meiri hl. n. svarað ýmsum athugasemdum. Nokkur atriði eru þó þess eðlis, að ekki er hægt að komast hjá að drepa á þau. Hv. 2. þm. S.–M. talaði hér alllangt mál um frv. og sagði, að það væri árangur af fjármálastefnu núv. ríkisstj. Ég verð að segja það, að mér fannst þessi kafli ræðunnar furðulegur. Það mætti freistast til að halda það, að hann hefði í þrjú undanfarin ár verið eins og Robinson Crusoe í gamla daga, dvalizt á eyðiey og ekki haft samband við umheiminn og ekki fylgzt neitt með því, hvað gerzt hefur hér á Alþ. eða á fjármálasviðinu. Ég held nú samt. að hv. þm. hljóti að vera það ljóst, að þessi skattal. eru ekki árangur af stefnu núv. stj. Eða treystir hv. þm. sér til að halda því fram, að það sé núv. stj., sem hafi komið því til leiðar, að farið hefur verið út á þessa stórkostlegu uppbótaleið, sem við erum nú að súpa seyðið af? Treystir hv. þm. sér til að halda því fram?

Hv. þm. veit það vel, að ástæðan fyrir því, að nú er verið að leggja þungar skattaálögur á þjóðina, er sú, að þ. hefur skuldbundið sig til þess að greiða ekki minna en 20 millj. kr. og allt upp í 30 millj. kr. fyrir verðuppbætur á landbúnaðarafurðir á þessu ári. Þýðir ekki að deila um, hvort þessar greiðslur eru vegna neytenda eða framleiðenda. Hitt er staðreynd, að svo framarlega sem Alþ. vill ekki verða svikari, verða uppbæturnar að greiðast. Hv. 2. þm. S.-M. verður því að játa, að þessar skattaálögur eru brýn nauðsyn, ef þ. á ekki að svíkja loforð, sem gefin hafa verið um uppbótagreiðslur landbúnaðarafurða. Hv. þm. veit einnig, að það er algerlega rangt að ásaka núv. ríkisstj. um, hvernig komið er í þessum málum, þar eð ekki er hægt að ásaka hana fyrir frumástæðurnar, sem sé það kapphlaup, sem átt hefur sér stað í atvinnumálum þjóðarinnar. Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, var málum komið eins og hv. þm. veit, og stj. varð því að horfast í augu við staðreyndirnar. Hún varð annaðhvort að standa við gerðar samþ. og leggja á skatta eða að svíkja gefnar skuldbindingar. Og hræddur er ég um, að ekki hefði kveðið lægra í hv. þm., ef stj. hefði lagt hitt til að hlaupa frá öllu saman og að svíkjast skyldi undan skuldbindingum þeim, sem Alþ. hefur undirgengizt gagnvart bændastétt landsins. Í þessu sambandi er rétt að minnast á þær véfengingar, sem hv. þm. hefur borið hér fram um það, að staðið yrði við gefin loforð um það, að þessi skattur verði ekki framlengdur. En af hverju stafar það, að hv. þm. telur ómögulegt, að þetta loforð verði haldið? Það er af því, að hann telur það óhugsanlegt, að hætt verði við þetta uppbótafyrirkomulag. Maður getur hugsað sér, hvernig framhaldið yrði, ef þessi hv. þm. ætti að hafa fjármálin á hendi eftirleiðis. — En ég get endurtekið það, sem ég hef sagt hér áður, að ég tel með öllu óhugsandi að halda áfram á sömu braut og farin hefur verið að undanförnu. Hins vegar er ég ekki við því búinn að svara því, hvernig verði fundin fær leið til þess að hverfa frá þeirri tilhögun, sem hér hefur ríkt að undanförnu, en ég veit, að hana verður að finna, ef allt á ekki að lenda í ófæru hér á landi.

Þá hefur verið lögð á það mikil áherzla, hversu ranglátur þessi skattur væri, og er verið að skipa honum sér í flokk hvað það snertir. Í nál. hv. þm. V.-Húnv. á þskj. 1197 kemst hann svo að orði:

„Hingað til hefur verið miðað við eignir og tekjur, en hér er vikið frá þeirri reglu.“

Það er eins og þetta sé fyrsta dæmið í íslenzkri skattalöggjöf fyrir því, að skattur komi ekki jafnt niður á öllum. Ég vil minna hv. þm. á stærsta tekjustofn ríkissjóðs og þann skattinn, sem ef til vill hefur sætt minnstu gagnrýninni, en það er verðtollurinn. En hversu réttlátlega kemur hann niður! Það hefur verið athugað, að t.d. á vefnaðarvöru, sem að jafnaði er talin nauðsynjavara, hvílir yfirleitt 30–70% verðtollur, og er verðtollurinn í ýmsum vöruflokkum, sem eru þýðingarmiklir fyrir afkomu manna, um 50–60%. Álítur hv. þm., að þessi tollur komi nákvæmlega eins niður á einhleypum manni eða hjónum, sem ekkert barn eiga, eða hjónum með 5–10 börn? Vill hv. þm. ekki svara þessu og sýna fram á, að hverju leyti þessi skattur, sem hér um ræðir, er frábrugðinn t.d. verðtollinum? Þannig mætti telja upp flesta tekjustofna ríkissjóðs, að undanteknum þeim tolli, sem lagður er á hreina munaðarvöru, því að jafnvel tekjuskatturinn kemur misjafnt niður á skattþegnunum. Það er ekki jafnauðvelt fyrir alla að borga tekjuskattinn, þótt hann sé hlutfallslega lagður á eftir tekjum, en ég mun ekki færa frekari rök fyrir því, því að þetta þekkja allir. — Mér er það fullljóst, að þetta verður eins með þennan skatt —veltuskattinn — og svo marga aðra, að menn finna misjafnlega til hans. Sumum veitist létt að greiða hann, en aðrir verða að taka það mjög nærri sér.

Skilyrði fyrir miklum gróða er mikil umsetning, þótt vitanlega sé hægt að finna undantekningar, og ég verð að segja það. að mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar Framsfl. gagnrýnir jafnóvægilega og hann hefur gert ákvæði, sem miða að því að hækka skattaálagningu á þeirri stétt, sem hér um ræðir, — skattaálagningu, sem kemur mest niður á heildsölunni. Ég veit ekki betur en blað Framsfl. hafi látlaust gert háværar kröfur um, að hækkaðir skattar væru lagðir á þessa atvinnugrein. Þannig má í gær sjá í blaði Framsfl., Tímanum, komizt svo að orði, að heildsalastéttin sé mesta stórgróðastétt landsins. Skal ég ekki leggja neinn dóm á, hvort þetta séu sönn orð eða ekki. Þau þurfa vitanlega ekki að vera sannleikanum samkvæm, þótt þau standi í þessu blaði. En hitt efast enginn um, að þessi atvinnugrein hefur haft mjög góða afkomu síðustu árin, og ef framsóknarmönnum er á annað borð nokkur alvara um það að vilja leggja hækkaða skatta á þennan atvinnurekstur, hvernig ætla þeir þá að gera það á annan hátt en þann, sem hér er farið fram á? Ef þeir svara þessu ekki skýrt og skorinort, verða gagnrýni þeirra og kröfur þeirra um hækkaða skatta skoðaðar sem munnfleipur og marklaus áróður. Þeir geta kannske klórað sig út úr þessu með því að segja, að þetta mætti leggja á sem eignarskatt, en ef þeir ætla að gera það, er ég hræddur um, að þeir verði að taka nokkuð margt aftur, sem flokksbræður þeirra hafa sagt í þessum efnum.

Þá hefur því verið haldið mjög á loft, að hér sé um alveg nýja aðferð í skattaálagningu að ræða. Það hefur verið talið leyfilegt að taka sums staðar allmikinn hluta af útsvörum sem veltuskatt, og ég veit ekki til þess, að hv. þm. hafi hingað til haft neitt sérstakt við það að athuga. Mér er kunnugt um það, að í stjórnartíð hv. 2. þm. S.-M. komst þessi skattur í einum kaupstað landsins upp í 6% og það jafnvel á nauðsynjavöru, en hér er þó ekki talað um hærri skatt en sem nemi 1% fyrir utan það, að hann á ekki að lenda á vörunni. — Þá er og þess að gæta, að á þessu þ. hefur þessi hv. þm. beitt sér fyrir því, að veltuskattur yrði lagður á landbúnaðarvörur. Álítur hann, að sá skattur, sem lagður yrði á landbúnaðarafurðir, þótt hann væri lægri en þessi, að hann kæmi jafnlétt niður á alla bændur landsins, eða álítur hann, að allir bændur landsins finni jafnmikið fyrir að greiða þennan skatt? Ef hann treystir sér til þess að játa þessu, þá er hugsanagangur hans í þessum efnum næsta undarlegur. Ef svo væri, sé ég ekki annað en að þessa röksemdafærslu mætti eins færa yfir á veltuskattinn að því leyti, að maður með mikla umsetningu borgar mikinn skatt, en maður með litla umsetningu borgar lítinn skatt.

Þá er eitt einkennilegt ósamræmi, sem komið hefur fram hjá sumum hv. þm., sem um þetta mál hafa hér rætt — og raunar eins við umr. í hv. Ed. — Þeir segja í öðru orðinu, að þetta verði eignarskattur, — að þetta verði skattur. sem menn geti ekki borgað nema með því að skerða eignir sínar. Þetta er að því leyti rétt, að slíkt getur komið fyrir, að það verði að taka veltuskattinn af eignum, en það er hins vegar ekkert séreinkenni við þennan skatt, eins og lýst hefur verið yfir, því að það getur komið fyrir með alla skatta, að þá verði að taka af eignum. Út af fyrir sig er ég ekki að mæla þessu bót, en það má ekki blása það meira út í sambandi við þennan skatt en svo marga aðra. — En þótt sagt sé í öðru orðinu, að skatturinn verði eignarskattur, þá er hitt veifið sagt, að skatturinn lendi óhjákvæmilega á vörunni verði neyzluskattur. Hvernig er hægt að samræma þetta? Ekki getur skatturinn samtímis verið eignarskattur hjá kaupmanninum, en samt sem áður verið neytendaskattur. Sannleikurinn er sá, að þetta er skattur, sem miðaður er við umsetningu, til þess að finna einhvern frambærilegan grundvöll fyrir skattaálagningu, en hann er alger persónuskattur á þær stéttir, sem talið er, að hafi haft mestan gróða undanfarin ár, og getur ekki komið vöruverði neytenda við. Það á að mega treysta því, meðan verðlagseftirliti er haldið uppi hér á landi, að skatturinn geti ekki komið á vöruna. Er þá að þessu leyti einnig svarað þeirri gagnrýni, sem komið hefur fram frá hv. 8. þm. Reykv.

Hv. þm. V.-Húnv. lagði á það mikla áherzlu, er málið var til 2. umr., að þessi skattur kæmi sérstaklega niður á samvinnufélögunum. Á það hefur verið bent áður við umr. um þetta mál hér, að þessi skattur kæmi á engan hátt þyngra niður á samvinnufélögunum en öðrum þeim, sem eiga að greiða þennan skatt. Það er rétt, að svo miklu leyti sem félagar í samvinnufélögum eru atvinnurekendur, — að svo miklu leyti sem þeir reka verzlun, — að hagnaður þeirra af verzluninni verður minni eins og annarra þeirra, sem reka verzlun. En þetta á ekki að vera erfiðara fyrir samvinnufélögin en aðrar verzlanir. Hitt er annað mál, að samvinnufélögin hafa haft sérstöðu, og er ég hræddur um, að það sé það, sem hv. þm. og flokksbræður hans séu óánægðir með. Samvinnufélögin hafa fengið sérstöðu, og þeir eru orðnir vanir því fyrirkomulagi og kunna betur við það, en það getur vel verið, að þeir verði að venja sig við þá hugsun, að samvinnufélögunum verði gert eins undir höfði og öðrum, sem sambærilegan atvinnurekstur reka.

Ég álít, að ég hafi nú svarað þeim athugasemdum, sem fram hafa komið í sambandi við þetta mál og ég tel máli skipta, að svo miklu leyti sem því hefur ekki verið svarað áður. Ég hef að sjálfsögðu fullkomlega opin augu fyrir því, að þessi skattaálagning er ekki án ágalla fremur en ýmsar aðrar, og þykir mér rétt að taka það fram, áður en frv. fer héðan út úr hv. d., að sú gagnrýni, sem réttlátust væri gegn þessu frv., en hefur ekki komið fram áður, er sú, að ekki skuli vera leyft að telja þennan skatt með rekstrarútgjöldum, það er ekki gerlegt, því að vitanlega mundi slíkt hafa mikil áhrif á tekjuskattinn árið 1946, og svo er hitt atriðið, að það er litið á þennan skatt sem nokkurs konar viðbótarstríðsgróðaskatt, og er ætlazt til, að hann lendi á þeim stéttum einum, sem hafa búið við góð kjör undanfarin ár og eiga þess vegna að geta borið hann án þess að bíða við það hnekki.

Mér er ljóst, að ekki getur orðið framhald á slíkri skattaálagningu sem þessari, það er ekki hægt að taka viðbótarstríðsgróðaskatt ár eftir ár. — Að lokum vil ég svo taka það fram, sem komið hefur fram í gagnrýni ýmissa stjórnarandstæðinga, að það verður að gerast breyting á þeirri fjármálastefnu, sem fylgt hefur verið á undanförnum árum, og er mér fullkomlega ljóst, að á því, hvernig tekst að breyta um stefnu í þessum málum, veltur mjög, hvort núv. ríkisstj. tekst að ná því markmiði, sem hún hefur sett sér.