15.11.1944
Neðri deild: 74. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

149. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — Þetta frv., sem hér liggur fyrir og heilbr.- og félmn. hefur haft til meðferðar, er komið frá hv. Ed. og undirbúið af landlækni.

Það hefur farið vaxandi, að erfitt er að fá ljósmæður út í sveitir landsins, sérstaklega hin minni umdæmi. Með þessu frv. er reynt að bæta nokkuð úr því á þann hátt, að heimilað verði landlækni, þar sem svo stendur á, að fela einni ljósmóður að annast tvö umdæmi og veita henni þá full laun fyrir þau bæði, þau sömu laun, sem tveimur hefðu annars verið veitt, ef ljósmóðir hefði verið í hvoru þeirra fyrir sig. Breyt., sem í þessu frv. felst, er ekki önnur. Og ef ein ljósmóðir getur annað slíku starfi, þá er álitið, að í bili megi bjargast við þetta.

Heilbr.- og félmn. er sammála um að mæla með frv. og telur, að það geti í mörgum tilfellum hjálpað og ekki sé nema sanngjarnt, að ljósmóðir, sem þarf að annast tvö umdæmi, hafi laun eins og tvær ljósmæður hefðu annars haft, sem hefðu verið sín í hvoru. N. leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt.