02.12.1944
Neðri deild: 85. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í D-deild Alþingistíðinda. (5345)

195. mál, framleiðsla kindakjöts fyrir innlendan markað

Flm. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til þess að fylgja þessari till. á þskj. 537 úr hlaði. Það virðist vera orðin nauðsyn að fara að hugsa um skipulag á landbúnaðarframleiðslunni meira en verið hefur. Að vísu er mér ljóst, að þessi till. er ekki fær um að leysa þetta mál að fullu. Hins vegar er sú leið, sem þarna er bent á, heppileg til þess að beina þróun landbúnaðarframleiðslunnar á þann veg, sem vera þarf. Eins og nú standa sakir, eru greiddar allháar uppbætur á það kindakjöt, sem flutt er úr landinu, svo sem kunnugt er. Hins vegar ættu hv. þm. að vera sammála um það, að slíkar uppbætur muni ekki koma til greina eftir stríð. Hins vegar liggur það beint við að reyna að beina þróun þessarar framleiðslu í þá átt, að sem mest verði framleitt fyrir innlendan markað, en eins og sakir standa, virðist stefna í gagnstæða átt, að minnka mjólkurframleiðsluna í kringum Reykjavík, en taka í þess stað upp kjötframleiðslu. Slíkt er óheppilegt og getur ekki gengið til lengdar. En eins og sakir standa, er vissum héruðum lögheimilaður einkaréttur til þess að selja mjólkurafurðir á vissum markaðsstöðum. Hér er farið fram á, að þau héruð, sem ekki hafa aðstöðu til að koma framleiðslu sinni á þennan markað, fái aðstöðu til þess að framleiða kjöt fyrir innlendan markað og tilraunir verði gerðar til þess að dreifa framleiðslunni á innanlandsmarkaðinn á heppilegri hátt en verið hefur. Auk þess má benda á það, að það er mjög líklegt, að þegar á næsta ári falli verð á kjöti erlendis, og hefur heyrzt, að kjötverð í Englandi hafi fallið um 2/3 vegna þess, að mikið hafi borizt að af kjöti frá Bandaríkjunum. Þess vegna má fullyrða, að bændur í þeim héruðum, sem ekki geta framleitt annað en sauðakjöt, verði í mjög mikilli hættu eftir stríð, ef þeir fá ekki aðstöðu til þess að koma vöru sinni að miklu leyti á innanlandsmarkað. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta meira nú, vegna þess að ég vildi gera það að till. minni, að umr. yrði frestað, og till. vísað til landbn.