24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í D-deild Alþingistíðinda. (5370)

222. mál, virkjun Andakílsár

Jón Pálmason:

Herra forseti. — Eins og hv. þm. hafa veitt athygli, þá flyt ég á þskj. 837 brtt. ásamt 3 þm. öðrum, hv. þm. V.-Húnv., hv. 2. þm. Rang. og hv. fyrri þm. Árn.

Í þessari brtt., sem nokkuð hefur verið rædd af hv. frsm. fjvn., er farið inn á, hvaða stefnu skuli fylgja í raforkumálum okkar og að ákveðið sé nú þegar, að þessi stóra virkjun, sem þarna er áformað að hefja við Andakílsá, verði framkvæmd af ríkinu með það fyrir augum, að stefnunni verði slegið fastri í þá átt.

Raforkumálin hafa meiri þýðingu fyrir sveitirnar en frá þurfi að segja. Það, að raforka hefur verið leidd til hinna stærstu bæja og fólkinu gefinn kostur á að njóta þeirra miklu þæginda, sem hún hefur í för með sér, hefur orðið til þess að draga fólkið meira og meira til hinna stærri bæja frá sveitum landsins og hinum smærri þorpum. Ef þessu heldur áfram og gengið er inn á það að skilja sveitirnar eftir, en virkja fyrir kaupstaðina, er tvímælalaust, að það þýðir áframhaldandi auðn í sveitum landsins, — áframhaldandi auðn segi ég, því að hún er þegar byrjuð, fyrst og fremst af því, að þægindin eru svo ólík og í hinum stærri bæjum. Við, sem höfum starfað undanfarið í mþn. í raforkumálum, höfum gert okkur það fyrir löngu ljóst, að í þessu stórmáli, sem ég hygg, að sé stærsta málið, er liggur fyrir þessu þingi, er aðeins um tvær leiðir að velja. Annars vegar að halda áfram að tína úr bæina, stærstu kauptúnin og þorpin, og virkja með smávirkjunum fyrir þessa staði, þar sem aðstaða er þægileg, en skilja sveitirnar í kring alveg eftir og halda þannig áfram þeirri stefnu, sem tekin hefur verið upp á undanförnum árum í sambandi við hinar stærri virkjanir, sem þegar er búið að koma upp. Hin leiðin er sú, sem við meiri hl. þessarar n. höfum ákveðið að velja, að hér verði farið svipað að og með aðrar stórar framkvæmdir í landinu, að ríkið sjálft framkvæmi þetta, eigi virkjanirnar, leiðslurnar og selji rafmagnið svipuðu eða sama verði um land allt.

Það eru þessar tvær leiðir, sem um er að ræða, og við höfum ekki verið í neinum vafa um, hvora leiðina bæri fremur að fara, því að undir því, hvort sú síðarnefnda verður valin, er það komið, hvort hægt er að vænta þess, að sveitir landsins fái rafmagn á næstu árum. Bezta sönnunin fyrir þessu fæst með því að gera samanburð á þessum málum annars vegar og símamálum, vegamálum og brúargerðum hins vegar. Við höfum reynslu fyrir því, að þótt ekki sé annað en að koma síma út um sveitir landsins, gengur það mjög treglega, þegar framkvæmdirnar eru í höndum einstaklinga eða héraða, og vantar mjög mikið á, að það hafi tekizt. En að svo miklu leyti sem það hefur tekizt, er það fyrir atbeina ríkisins að mestu leyti og nú síðustu ár alveg á ríkiskostnað. Alveg sama er að segja um vegina. Hvað halda menn, bæði hv. þm. Borgf. og aðrir, að væri langt komið vegalagningu hér á landi, ef einstakar sveitir ættu að gera það af eigin rammleik? Ég held, að allir hljóti að vera sammála um, að það væri næsta skammt komið okkar samgöngubótum. — Sama gildir um brýrnar.

Nú er það öllum mönnum kunnugt, að rafmagnsvirkjanir eru margfalt dýrari framkvæmdir en vega- og símalagning, og þeim mun minni líkur eru til þess, að þeim verði hrundið í framkvæmd af einstaklingum og héruðum, þar sem svo miklu munar á kostnaði.

Hins vegar er n. alveg ljóst, að þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið í þessu víðtæka máli, eru enn þá ekki svo langt komnar, að hægt sé um það að segja fyrir víst, hvort virkja eigi alls staðar, hvernig bezt sé að leggja leiðslurnar, hve víðtækt kerfið eigi að vera o. s. frv. Þó má geta þess, að í sambandi við þær rannsóknir, sem fyrir liggja, telur n. hentugt að hafa samband milli hinna stærri virkjana.

Og þá kem ég að því atriði, sem við nefndarmenn leggjum mjög mikla áherzlu á. Við höfum ekki séð okkur fært að leggja til í till. okkar, enda þótt ýmsir okkar hefðu til þess mikla tilhneigingu, að ríkið tæki nú þegar í byrjun eignarnámi þær virkjanir, sem fyrr segir, og tæki þær inn í það kerfi, sem ætlazt er til, að ríkið hafi um rafmagnsleiðslur um land allt. Er það af því, að við höfðum enga von um, eins og stendur um hug manna á hæstv. Alþ., að það næði fram að ganga. Eftir því sem fleira er fært inn á sömu leiðina af nýjum rafmagnsvirkjunum, er minni von um að koma því í löggjöf, sem stefnir í þá átt, er við teljum hina einu réttu. Það var því síður en svo á misskilningi byggt, sem fram kom hjá hv. þm. Barð., að verið væri að marka fasta stefnu um það mál, hvora leiðina ætti að fara.

Hitt er rétt hjá hv. þm. Borgf., að samkv. þessari till. er gert ráð fyrir, að ríkið geti síðar tekið þessar virkjanir í sínar hendur. En það er líka gert ráð fyrir því í Sogsvirkjunarlögunum og fleiri lögum, að ríkið geti tekið þessar rafmagnsvirkjanir í sínar hendur, ef lög verða um það sett.

Það er rétt að gera sér þess ljósa grein, hvað farið er fram á í þessari tillögu. Hugmyndin er að virkja 5000 hö. af 12000 hö., sem talið er, að virkja megi í Andakílsfossum. Er ætlunin að virkja aðeins fyrir kauptúnin, Akranes og Borgarnes, og svo nokkra bæi á þeirri leið, sem línan liggur um, en skilja eftir sveitirnar. Við flm. brtt. teljum mjög óheppilegt, að Borgfirðingar og Mýramenn, sem búa í sveitum, þurfi, þegar til þeirra kasta kemur að koma raforku heim til sín, að byrja á því að semja við kauptúnin í nánd við þeirra héruð. Það er allt annað, ef ákveðið væri með heildarlöggjöf fyrir landið allt, að tryggt sé, að rafmagn á þessum svæðum sé leitt út um öll þessi héruð, að svo miklu leyti sem hugsanlegt er, að það borgi sig að fara vítt í það. Því verður fyrir fram eðlilega ekki slegið föstu, að ekki þurfi kannske af illri nauðsyn að skera af raforkuframkvæmdunum einhverja afskekktustu bæi, þegar farið verður að leiða rafmagnið út um sveitirnar. Það er rannsóknarefni, sem reynslan verður að skera úr um í framtíðinni. En aðalatriðið er, að ekki verði haldið áfram á þeirri braut að virkja eingöngu fyrir þá staði, sem bezta aðstöðu hafa til þess, en skera sveitirnar vegna strjálbýlis frá þeim framkvæmdum, þar sem erfiðleikarnir eru mestir á að geta fengið að njóta þeirra miklu þæginda, sem raforkan veitir. Það, sem líka veldur því, að við erum vondaufir með, að þessi stefna sé heillavænleg, að taka upp hin stærri raforkukerfi nú þegar, er, að við vitum, að margir menn, innan þings og utan, blátt áfram trúa því, að útilokað sé, að það geti borgað sig að koma rafmagninu út um sveitir landsins, og þeir trúa því ekki, að það verði nokkurn tíma hugsanlegt. En ef við eigum að byggja á slíkum hugsunarhætti, er eins gott að segja: Við viljum smátt og smátt leggja sveitirnar í eyði. Því að eftir því sem rafmagn kemst víðar í kauptún og þorp á landinu við sjóinn, en sveitirnar eru afskiptar í því efni, eftir því eru meiri líkur til þess, að sveitirnar leggist í eyði, vegna þess að fólkið getur ekki unað við það til lengdar, að svo gífurlega mikill þægindamismunur sé á milli manna, eftir því hvar þeir búa.

Hv. þm. Borgf. hélt því fram, og las upp úr nál. fjvn. því til sönnunar, að það væri villa ein, að þessi þáltill., þótt samþ. yrði eins og hún liggur fyrir, skæri úr um það, hvaða stefna væri farin í þessu efni. En þetta er bara fyrir það, að hlutaðeigandi maður vill ekki láta það koma fram í sambandi við þetta mál, hvað hér er að gerast. Hér er á ferðinni fjöldi af till. um það, að ríkið gangi í ábyrgðir fyrir hin og þessi þorp út um landið vegna raforkuframkvæmda. Það var nýlega verið að samþ. slíka ábyrgð fyrir Sauðárkrók, þar sem á að skilja það kauptún frá í þessu efni, en sjá ekki hinum blómlegu byggðum í Skagafirði kringum Sauðárkrók fyrir þeirra þörfum um að fá rafmagn, aðeins af því, að í bili var hægt að virkja fyrir þetta kauptún, ef ekki var hugsað um þessar blómlegu sveitir jafnframt í því efni. Svona er þetta víðar á landinu, að það liggja fyrir um ýmsa staði slíkar till., og það á dagskrá í dag, sem hv. fjvn. mælir með, um ábyrgðir fyrir þorp til þess að taka sig á þennan hátt út úr um raforkuframkvæmdir, án þess að sveitir njóti þar af. Sumar þessar ábyrgðarbeiðnir er hv. fjvn. búin að samþ. og sumar lítur út fyrir, að n. ætli að samþykkja. Og það er augljóst mál, að ef þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, gengur fram eins og hún er nú frá hálfu hv. fjvn., þá er stefnan mörkuð í raforkumálunum um það, hvort á að skera sveitir landsins frá því um ófyrirsjáanlegan tíma að verða raforkuþægindanna aðnjótandi og gera þeim erfiðara fyrir um að verða það síðar en vera þyrfti. Því að verði þessi þáltill. samþ., verður ekki í veg fyrir það komið á yfirstandandi þingi, að fleiri eða færri ábyrgðir sams konar vegna annarra staða á landinu verði samþykktar. Og þá er eyðilagður sá grundvöllur, sem við í meiri hl. í raforkumálan. viljum byggja á.

Það hefur dregizt undarlega mikið, að frv. frá okkur í meiri hl. í raforkumálanefnd væri lagt hér fyrir hæstv. Alþ. Það er víst komið mikið á aðra viku síðan við, sem að því stöndum, settum það í prent. Hins vegar, þó að við sýnum það frv. á Alþ. nú, gerum við okkur ekki neina von um, að það nái afgreiðslu á þessu þingi. En við teljum, að það sé miklu hagstæðara, að menn fái að sjá það, ekki aðeins innan þings, heldur líka utan, hvaða stefna það er, sem við viljum marka á þessu þingi, til þess að koma í veg fyrir það æði, sem virðist hafa gripið menn um það að koma fram raforkuvirkjunum víðs vegar um landið, þar sem aðstaðan er skást.

Þá er það að athuga í sambandi við þessa þáltill., eins og hv. þm. Borgf. tók réttilega fram, að þessi Andakílsárvirkjun er að allra áliti æskilegur liður í þessu raforkukerfi, sem ætlazt er til, að raforkuframleiðsla landsins byggist á. Hér væri þess vegna ekki verið að brjóta neitt á bak aftur að neinu leyti, þótt brtt. okkar yrði samþykkt. Við viljum bara, að stefnan sé mörkuð nú þegar í þessum málum og komið í veg fyrir, að gengið verði í ábyrgðir vegna raforkuframkvæmda víðs vegar um landið, þar sem enginn undirbúningur hefur fram farið. Ég lít svo á, að þeir, sem standa að þessari þáltill., fulltrúar fyrir Borgarfjarðar- og Mýrasýslu, ættu að geta verið mjög vel ánægðir með það, að brtt. okkar yrði samþ., því að þeir mega tejast gæfunnar börn, og mega þakka það sínum dugnaði, þótt till. okkar verði samþ., því þar með er ákveðið, að þeir verði fyrstir til þess að verða aðnjótandi þeirra þæginda, sem hér er um að ræða og við ætlumst til, að ríkið kosti.

Þá skal ég víkja að því í þessu sambandi, að þótt við viljum ekki að neinu leyti setja fót fyrir þessa framkvæmd og viljum láta ríkið nú þegar taka þetta að sér og marka þar með stefnu í þessum málum, þá teljum við, að eins og sakir standa sé ákaflega hæpið að ganga eins mikið áfram í því að slá föstu um rafvirkjanir annars staðar á landinu og lagt er til í þeim till., sem fram hafa komið. Á þessum stað, við Andakílsfossa, virðist ekki vafi á því, að aðstaðan sé góð og að hægt sé að virkja sameiginlega fyrir kaupstað, kauptún og sveitirnar í kring, og að ekki aðeins þessi svæði geti haft not rafvirkjana við þetta vatnsfall, heldur miklu fleiri svæði. En allt öðru máli er að gegna um það, að setja upp rafvirkjanir í öðrum kauptúnum, þar sem rannsókn hefur ekki farið fram að neinu marki til undirbúnings. Og eins og nú standa sakir er ákaflega hæpið, frá hvaða sjónarmiði sem það er skoðað, að vera með mjög mikið æði á þessu sviði, vegna þess fyrst og fremst, að við erum nú á hátindi dýrtíðar, þegar líkur eru til, að þessar framkvæmdir verði dýrari en nokkru sinni fyrr eða síðar. Annað atriði er svo það í þessu sambandi, að það standa vonir til þess einmitt nú að stríði loknu, að upp komi mjög merkar, nýjar uppgötvanir á sviði rafmagnstækni, því að sú tækni er í örri framþróun, og hluturinn er sá, að við vitum ákaflega lítið um það, hve vítt hin nýja tækni á þessu sviði kemst. Hitt er nokkurn veginn víst, að einmitt nú á stríðstímanum hefur fengizt svo mikil reynsla á þessu sviði, að við getum vonazt eftir mjög miklum nýjungum á þessu sviði um það leyti er stríðinu lýkur. Til sönnunar því, að ég tali hér ekki út í bláinn, vil ég geta þess, að mér var nýlega sagt frá því af manni, sem segist hafa það úr amerísku riti, að það er ekki lengra síðan en frá 26. des. s. l., að stærsta raforkufirma í New York bauð 200 byggingamönnum til þess að skoða nýjung á sviði rafmagnstækni, sem voru í því fólgnar, að þeir töldu nauðsynlegt að hafa allt aðra innréttingu á öllum nýjum húsum með tilliti til rafleiðslna en verið hefur. Og þetta byggja þessir menn allt á því, að raforkan verði á komandi árum send þráðlaust, í loftinu. Það er byggt á sama grundvelli og með útvarpið. Hve langt er hægt að komast á þessu sviði, er náttúrlega fyrir okkur ekki hægt að segja um. En þetta bendir til þess, að fyrir hendi geti orðið á komandi tímum hægstæðari og auðveldari aðstaða um raforkuframkvæmdir, sem leitt gæti til þess, að þær yrðu ódýrari en við höfum haft af að segja til þessa.

Þrátt fyrir allt þetta viljum við að engu leyti setja fót fyrir það, að þessar raforkuframkvæmdir geti orðið bráðlega, sem þáltill. þessi er um, heldur viljum við beina þeim inn á rétta leið, svo að ekki verði spillt fyrir því, að unnt verði að koma á heildarlöggjöf um raforkumál landsins, sem tryggi það, að hinar strjálu byggðir geti fengið til sín rafmagn svo fljótt sem nokkur kostur er á. Raforkulagafrv., sem mþn. hefur samið, er væntanlegt inn í þingið á morgun eða næstu daga, og þá fá menn tækifæri til þess að ræða það og sjá, hverjar þær till. eru, sem við leggjum til, að samþ. verði sem heildarlöggjöf í raforkumálum. Og ég verð að segja, að mér þykir það mjög undarlegt, ef svo mikið bráðlæti er hjá einstökum hv. þm. vegna sinna umbjóðenda, að þeir geti ekki sætt sig við það að bíða eftir því, að úr því verði skorið, hvort á að halda áfram sú ringulreið, sem verið hefur í þessum málum, eða ekki. En ég tel, að það brjóti á í þessu Andakílsármáli um það, hver stefna verði tekin í raforkumálum landsins yfirleitt.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þessa brtt. eða málið í heild sinni. Það verður að skeika að sköpuðu um það, hvað ofan á verður á hæstv. Alþ. í þessum málum. En við þessir þm., sem að brtt. stöndum, teljum það skyldu okkar að reyna að stýra málinu inn á þá leið, sem við teljum heillavænlega og heppilegasta fyrir landið í heild á komandi árum.