16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í D-deild Alþingistíðinda. (5771)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Það liggur hér fyrir til samþykktar samningur sá, er háttv. alþm. er kunnugt um, að gerður hefur verið um leigu á færeyskum skipum. Ég sé ekki ástæðu til að fara út í þennan samning í einstökum atriðum, þar sem hann liggur hér fyrir. En ég vil lítillega rekja aðdraganda þessa máls.

Eins og kunnugt er, vildu Bretar ekki framlengja þá samninga, sem við höfum haft við þá, eða ekki þann hluta þeirra, sem lagði þeim skyldur á herðar um að flytja fiskinn. Þeir töldu sig ekki hafa til þess nægilegan kost hentugra skipa. En flutningar þeir, sem þeir hafa annazt, hafa verið verulegur þáttur í fiskútflutningi okkar síðasta ár, eða um 1/3.

Samkvæmt skýrslum frá í fyrra nam útflutningur því, sem hér segir:

Í jan. rúm 2000 tonn, í febr. rúm 7000 tonn, í marz tæp 16000 tonn, í apríl rúm 16000 tonn og hálfan maí tæp 9000 tonn.

Nú er áætlað, að bresk skip muni ekki geta flutt nema um 1500 tonn á mán., þar sem þau taka fisk aðeins eftir hentugleikum. Samningar hafa verið gerðir við Eimskipafélagið um að flytja um 800 tonn á mán. Með þessu móti verður flutningsgeta okkar, að frádregnum færeysku skipunum, ekki nema 8–9 þús. tonn á mánuði, en sé það borið saman við tölurnar frá í fyrra, þá er það alls kostar ónóg. Það mun því hafa verið álit allra, að við yrðum að fá færeysku skipin leigð, þótt það geti að visu komið fyrir, þegar gæftaleysi er, að skipin verði að liggja. Talið er, að færeysku skipin geti flutt um 6 þús. tonn, og er það, að viðbættum þeim skipum, sem áður eru talin, ekki meira en það, sem telja verður nauðsynlegt að hafa til að anna fiskflutningunum. Þegar í nóv. voru einstaklingar og félög farin að tryggja sér skip á leigu fyrir vertíðina frá Færeyjum. En fyrir áramótin kom það í ljós, að Lögþingið færeyska vildi ekki samþykkja þetta, og þá varð að ráði, að nefnd yrði send hingað til að semja um leigu á skipunum.

Sjónarmið Færeyinga var þetta: Það er auðvelt að leigja beztu skipin, en þau lakari eru skilin eftir og ekki tryggð nein atvinna við þau.

Þetta vildi Lögþingið fyrirbyggja, og er það vel skiljanlegt.

Meðal sjómanna og verkamanna voru háværar kröfur um að leigja skipin alls ekki, heldur gera þau út til fiskjar frá Færeyjum. Þó varð það að samkomulagi, að ef Íslendingar vildu taka megnið af skipunum yfir vertíðina, þá skyldu þau leigð.

Áð öllu þessu athuguðu var talið rétt að taka upp samninga, og liggur nú hér fyrir hin endanlega niðurstaða. Alþingi hefur ekki aðstöðu til að breyta samningunum. Það getur aðeins sagt já eða nei. Kjör sjómanna á færeyskum skipum eru að því leyti frábrugðin ráðningu manna á íslenzku skipunum, að prósentan er miðuð við nettóágóða eða sölu, þar sem hnn er miðuð við brúttósölu á íslenzku skipunum.

Þetta er að því leyti kostur, að þarna eru skipshafnirnar sjálfar mjög áhugasamar fyrir því að skila fljótt og vel þeim farmi, sem þeim hefur verið fengínn. Ég býst ekki við, að hægt sé að koma því við, nema einhver slys beri að höndum, en þetta er sem sagt mikill kostur.

Ég hef orðið þess var, að sumir halda því fram, að þegar búið er að gera svona lagasamþ., hafi engir aðilar neinn áhuga fyrir því, að flutningarnir gangi vel. En ég held, að þannig sé frá samningnum gengið, að engin hætta sé á því, að skipseigendur eða sjómenn á skipunum séu í þannig aðstöðu, að þeim sé sama, hvernig flutningarnir ganga, þvert á móti eiga þeir mikið undir því, að þeir gangi vel.

Ég vil svo leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta, að mál þetta verði afgreitt endanlega í dag, þannig að hann haldi þegar að loknum þessum fundi eða síðar í dag fund um það, svo að það geti fengið endanlega afgreiðslu á þessum degi. Ég sé ekki ástæðu til, að málið verði sett í n., því að það liggur ekki þannig fyrir, að um neinar breyt. sé að ræða, heldur aðeins um samþykkt eða synjan.