10.02.1944
Sameinað þing: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í D-deild Alþingistíðinda. (6122)

19. mál, tollar á nauðsynjavörur

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Ég ætla ekki að ræða neitt um þá breyt., sem hér er farið inn á með þessari ályktun, en ég get ekki annað en leiðrétt missögn, sem kom fram í grg. till., þar sem því er haldið fram, að ríkissjóður hafi notað 15 millj. króna til þess að lækka vísitöluna um 14–15 stig. Þetta er ekki rétt, því að eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, þá hefur kostnaður ríkissjóðs við dýrtíðarráðstafanir á s. l. ári verið um 10 millj. kr., og þó að við vitum ekki, hversu áfram verður haldið á þessu ári, má vel vera, að um svipaða upphæð verði að ræða. Hér er því vafalaust af vangá tekið fram, að um 15 millj. kr. sé að ræða og að ríkissjóður kaupi þar niður dýrtíðina um 14–15 stig. Ef hætt væri þessum niðurgreiðslum nú, mundi vísitalan hækka um 15 stig, en auk þess verður niðurgreiðslan til þess að lækka dýrtíðina enn um 5–6 stig, ef tekin eru með þau óbeinu áhrif sem slíkar niðurgreiðslur hafa, svo að þar er um 20–21 stig að ræða. Það er líka tekið fram í nál. sex manna n., að það mundi kosta 8½ millj. kr. í niðurfærslu á tollum að ná svipuðum árangri. Eftir nákvæmum útreikningum þess hagfræðings, sem við þetta átti, er um 13,7 stig að ræða, en þar er ekki um nein óbein áhrif að ræða í þessu sambandi, því að óbein áhrif eru þegar komin í ljós með þeirri niðurfærslu, sem nú er. Til þess að óbein áhrif kæmu í ljós, þyrfti að hækka vísitöluna um 20 stig og lækka hana svo aftur, til þess að þessi áhrif kæmu í ljós.

Því er þetta mjög vandasamt, sem hér er sótt fram. Það er líka tekið fram og mun tekið eftir nál., að þetta sé um 8½ millj., en hagfræðingurinn, sem áætlunina gerði, segir, að þar sé nánast um ágizkun að ræða.

Ég vildi bara vekja athygli á þessu. Hins vegar skal ég geta þess í sambandi við 1. lið till., að það sé látin fara fram endurskoðun á lögum tollskrárinnar og þá sér í lagi með það fyrir augum, hvaða breyt. beri að gera í ljósi þeirrar reynslu, sem fengizt hefur, síðan tollskráin var sett, og með þörf allra framleiðenda fyrir augum. Ég held, að niðurstaða þeirrar n. muni koma bráðlega, og er þá gert ráð fyrir, að slíkar till. verði lagðar fyrir Alþ.