14.09.1944
Sameinað þing: 41. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í D-deild Alþingistíðinda. (6130)

93. mál, bátasmíði innan lands

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Í sambandi við þá till., sem hér liggur fyrir til þál., vil ég lýsa yfir, að ég er tillögumönnum samdóma um, að þessi athugun, sem farið er fram á í till., er æskileg og sjálfsögð. Vil ég upplýsa, að fyrir alllöngu sendi ég uppdrátt að skipum til nokkurra helztu skipasmíðastöðva í landinu og bað um tilboð og áætlun skipasmiða um, hvað þeir gætu tekið að sér að smíða slík skip fyrir mikið, miðað við verðlag á efni, sem nú er völ á frá Vesturheimi.

Ráðuneytið símaði einnig til Svíþjóðar og bað um að afla tilboða um efnivið til smíði slíkra skipa, bæði þar í landi og nágrannalöndunum, svo að hægt væri jafnhliða að fá gerða áætlun hjá skipasmíðastöðvum um, hvað skipin mundu kosta smíðuð hér, þegar skandinavískt efni fengist að stríðinu loknu.

Það skiptir miklu máli að hafa þær upplýsingar líka, því að trjáviður hefur fram að þessu verið ódýrari þaðan en þar, sem við höfum keypt. Þess vegna vildi ég upplýsa, að meginatriðið, sem till. fer fram á, að athugað sé, er komið í athugun fyrir nokkru. Ég vildi aðeins láta hæstv. Alþ. téðar upplýsingar í té og hef ekki frekar um málið að segja að svo stöddu.