18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

143. mál, fjárlög 1945

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. — Við hv. þm. A.-Sk. tókum aftur við 2. umr. fjárl. brtt. okkar á þskj. 740, merkta IX, af því að við sáum, að lítið eða ekkert var að því gert þá að samþ. till. Hins vegar bjóst ég fastlega við, að hv. fjvn. sæi sér fært að taka þessa till. upp í till. sínar á þskj. 725, og ég varð mjög undrandi, þegar ég komst að raun um, hvaða afgreiðslu till. hafði fengið í nefndinni.

Til þess að skýra, með hvaða rökum við berum hana aftur fram, verður að minna ofurlítið á, hvernig samgöngum er háttað í Austur-Skaftafellssýslu. Það er flestum kunnugt, að Austur-Skaftafellssýsla er — flestum héruðum á Íslandi fremur — sundurskorin af stórvötnum. Ef Austur-Skaftfellingar ætla sér að komast til Vesturlands landveg, verður að fara yfir stórvötn, Jökulsá og Skeiðará. En ætli þeir til Austurlands, liggur fyrir Hornafjarðarfljót og Jökulsá í Lóni, og þessi litla brú, sem við förum fram á, að smíðuð verði yfir þessa á, er lítill áfangi á þeirri leið að koma héraðinu í vegasamband við Austurland. Það er sú samgöngubót, sem flestir Austur-Skaftfellingar munu telja heppilegustu lausnina.

Nú getur verið, að sumir hv. þm. líti svo á, að hérað, þar sem svona hagár til, ætti að láta sér nægja samgöngur á sjó. Út á það væri máske ekki mikið að setja, ef þær væru þá viðunandi. En því fer fjarri, að svo sé. Eins og kunnugt er, þá er Hornafjörður eina höfnin í öllu héraðinu, og eina skipið, sem gengur með ströndum fram við Austurland, er Esja. Til að sýna betur, hvernig ástandið er í þessum efnum, vil ég upplýsa hv. þm. um, hvernig gengið hefur með Esju þarna eystra á þessu ári, sem er að líða. Hún hefur á þessu ári farið tólf ferðir til Austur- og Norðurlands, en hefur komið níu sinnum inn á Hornafjörð. Í hin skiptin hefur hún farið fram hjá. Stundum hefur verið hægt að ná sambandi við hana, stundum ekki. Nú mætti halda, að ástæðan til þess, að hún hefur ekki komið þangað nema níu sinnum, væri sú, að þar hafi verið svo vondur sjór. Svo er þó ekki. Það sýnir bezt, að þessar níu ferðir, sem hún kom, eru frá fyrra helmingi ársins. Síðan í júní hefur hún ekki komið inn á Hornafjörð. Svona eru nú strandferðirnar við þetta land.

Þetta held ég, að nægi til að sýna, að það er ekki að ástæðulausu, að við berum hér fram till. um smábrú, sem mundi bæta aðeins ofurlítið úr samgöngum á landi; því að það er einu sinni svo, að fólk, sem býr við þessar samgöngur, hlýtur að verða óánægt með þær, en frekar getur það þó sætt sig við vondar samgöngur á einu sviði, ef bætt er úr ofurlítið á öðrum sviðum. Fyrir því berum við fram þessa brtt. í trausti þess, að hæstv. Alþ. sjái sér fært að samþ. hana.