16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (2846)

104. mál, atvinna við siglingar

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason) :

Efni frv. þess, er hér liggur fyrir, er að auka nokkuð réttindi vélstjóra og vélgæzlumanna, þannig að vélastærð sú verði aukin, sem þeir mega fara með. Ég sé ekki ástæðu til að rekja þá aukningu lið fyrir lið. Orsök þess, að frv. þetta er flutt, er sem þm. vita m. a. hin hraða aukning vélbátaflotans og stækkun véla. Ef að líkum fer eftir núverandi horfum, þá eykst mótorvélbátaflotinn um allt að 100 skip, ef ekki meira. Þessu mun verða samfara stækkun véla, bæði í stærri og minni fleytum. Við þetta bætist svo aukin vélavinna þeirra, sem starfa að vinnslu sjávarafurða. — Þetta frv. er flutt í Nd. Fjallaði það í öndverðu aðeins um aukin réttindi til handa vélstjórum við mótorvélar. En í Nd. var því bætt við, að þau skyldu líka ná til vélgæzlumanna við gufuvélar.

Rétt er að benda á, að mikil brögð hafa að því orðið, að vélgæzlumenn við mótorvélar, þeir sem stundað hafa atvinnu á sjónum, hafa flúið í land, og aukning á framboði vélstjóra hefur ekki svarað eftirspurninni vegna flotaaukningar og vélastækkunar. Þessi flótti manna af sjónum á einkum rætur sínar að rekja til þess, hversu mjög frystihúsum á landi hefur fjölgað á seinni árum. Þess má og geta, að um mörg undanfarin ár hefur orðið að veita mönnum undanþágur til þess að fleyta skipum. Horfir til stórvandræða, ef eigi verður úr bætt. Þessar undanþágur eru mjög óheppilegar, og tel ég, að ekki sé ævinlega tryggt, að viðkomandi hafi þá verklegu æfingu, sem nauðsynleg verður að teljast. En hér er aukningin bundin því skilyrði, að hlutaðeigandi hafi stundað vinnu við vélar í 4 ár. Ég játa, að æskilegt væri, að menn hefðu notið skólakennslu. En á hinn bóginn. verður á að líta, að langur starfstími við meðferð véla er sá skóli, sem hver vélgæzlumaður verður að ganga í gegnum. Hin verklega æfing við vélgæzlu verður ávallt hin örugga og nauðsynlega undirstaða og mesta tryggingin. — Á eitt vildi ég líka minnast að auki : Bæði vélstjóraskólinn og námskeið Fiskifélags Íslands hafa hingað til búið við mjög ónógt húsnæði. Þess verður að vænta, að úr þessu megi rætast og betri aðstaða fáist í framtíðinni. Ber að leggja á þetta kapp. Þessar stofnanir munu þó eigi bæta úr aðkallandi þörf vegna flotaaukningarinnar og vélastækkunarinnar.

Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en játar þó, að þessi l. verði algerlega ófullnægjandi. Það er fyllsta þörf gagngerðrar endurskoðunar á öllum lagabálkinum. — Minni hl. n. hefur gaumgæfilega athugað, hvort mögulegt væri að bæta úr ástandinu, þannig að hæstv. ríkisstj. sé veitt rúm heimild til að láta í té undanþágur. En eftir atvikum gat meiri hl. n. ekki fallizt á þá leið. Hann vildi fremur þræða þá braut að mæla með frv., enda þótt verði að viðurkenna, að æskilegra hefði verið, að til þessarar skipunar málanna hefði eigi þurft að koma. En tryggt er, eins og gengið er frá frv., að ekki öðlist þessi réttindi aðrir en þeir, sem hafa aflað sér verulegrar æfingar í meðferð véla vegna alllangs reynslutíma. En hins vegar er sú trygging ekki fyrir því, að undanþáguleiðin verði farin. Það er margt, sem kemur til greina. Og það er ekki hægt að setja þar nein skilyrði, sem komi að jafnmiklu gagni og þau ákvæði, sem eru í l. Ég veit, að minni hl. sjútvn. er mótfallinn því, að frv. gangi fram, og hefur skilað sérstöku nál., þar sem hann leggur til, að undanþáguleiðin verði farin. Og ég verð að segja það, að ég ber fulla virðingu fyrir og viðurkenni sérþekkingu minni hl. í þessu efni. En fleira verður þó að líta á. Það, sem á milli ber meiri og minni hl., er ekki það, að ástandið í þessum málum sé ekki slæmt, heldur ber það á milli, hvaða leið eigi að fara til þess að bæta úr því. Og ég tel, að málinu sé bezt borgið með því, að hv. þm, geri það upp við sig, hvora leiðina þeir telja heppilegra að fara. Ég held því, að það hafi ekki mikla þýðingu að halda langar ræður um þetta mál hér. Ég hef reynt að skýra efni frv. og tildrögin að því í sem fæstum orðum sem ég hef getað, og ég vænti þess, að það geti legið nægilega ljóst fyrir hv. dm. til þess að þeir geti ,tekið ákvörðun um málið.