23.04.1946
Neðri deild: 117. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (3221)

139. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Ég mun ekki að svo stöddu ræða þetta mál almennt. En ég flyt á þskj. 910 brtt. við 34. gr. frv. varðandi fæðingarstyrk til mæðra. Samkv. frv. er gerður allmikill munur á þessum styrk, eftir því hvort konur vinna utan heimilis eða heima. Þær, sem vinna úti, fá samtals 500 kr., miðað við núgildandi vísitölu, en hinar fá ekki nema um 200 kr. Ég get ekki skilið, hvernig á þessum mismun stendur. Mér finnst ástæðulaust að veita þeim konum sérstök hlunnindi, sem vinna utan heimilis, en það kvað vera orðið nokkuð algengt í stærstu kaupstöðunum, að konur koma börnunum í fóstur á barnaheimilum og vinna svo utan heimila sinna. Ég tel, að það sé ekki ástæða til að gera þennan mun. Ég lít svo á, að starf þeirra kvenna, sem vinna eingöngu að heimilinu og að uppeldi barnanna, sé í engu þýðingarminna en starf hinna. Ég tel, ef mun ætti að gera, þá ætti fremur að hlynna að þeim, sem helguðu krafta sína óskipta heimilinu og barnauppeldinu. Ég lít svo á, að það muni vera þjóðfélaginu heppilegast, að sem flestar mæður annist sjálfar uppeldi barna sinna. Ég vil því leyfa mér að leggja til, að breyt. verði gerð á þessari gr., þannig að gr. orðist svo: Við hverja barnsfæðingu á móðirin rétt á að fá greiddar kr. 300.00. — Eins og ég sagði áðan, gerir frv. ráð fyrir, að þær, sem stunda vinnu utan heimilis, fái 500 kr., en hinar 200 kr. Ég legg til að fara þarna meðalveginn og þær allar fái 300 kr. Ef einhver rök eru gegn þessu, þá þætti mér vænt um að fá að heyra þau frá hv. frsm. n. En ég hef ekki getað komið auga á, á hverju þessi mismunur, sem þarna er um að ræða, er byggður. Hins vegar er þetta ekki eina dæmið, sem finna má í þessu frv., þar sem gert er upp á milli þjóðfélagsþegnanna. Í ákvæði frv. um sjúkrabætur, sem er að finna í 39.–44. gr., er á svipaðan hátt gert upp á milli manna eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu og hvaða atvinnu þeir stunda sér til framfærslu. Samkv. 42. gr. frv. eiga þeir, sem starfa í annarra þjónustu, að fá sjúkrabætur frá og með 11. veikindadegi, en þeir, sem starfa sjálfstætt eða hafa launþega í þjónustu sinni, fá sjúkrabætur frá og með 6. sjúkraviku. Mér er ómögulegt að sjá réttlæti eða sanngirni í þessu, en þar sem hv. 2. þm. N.-M. og 2. þm. S.-M. hafa lagt fram brtt. við þessi ákvæði, þá get ég látið hjá líða að tala um það frekar.

Þá er það ákvæði frv. um slysabætur, sem eru í 45.–58. gr. frv. Sú fyrsta þessara gr. hljóðar svo : „Launþegar, sem taldir eru í 46. gr. og slasast við vinnu, eiga rétt til slysabóta“ o. s. frv. Þannig er það í þessum kafla, að það eru launþegar einir, sem eiga rétt til slysabóta, ef þeir slasast við vinnu. Mér er að vísu sagt, þótt ég hafi enn ekki komið auga á það, að allir menn eigi kost á að tryggja sig gegn slysum við vinnu, gegn sérstöku aukagjaldi. En launþegarnir, sem hér um ræðir, þurfa ekkert aukagjald að greiða til að fá þessa tryggingu. Mér þykir rétt að nefna dæmi um, hvernig þetta muni koma út í framkvæmd, ef frv. yrði samþ. óbreytt. Það er kunnugt um marga íbúa í kauptúnum hér á landi, að samhliða því, sem þeir stunda vinnu hjá öðrum, hafa þeir með höndum nokkra framleiðslustarfsemi. Víða í kauptúnum hafa menn nokkrar skepnur, bæði kýr og sauðfé, og vinna að þessari framleiðslustarfsemi, þegar ekki er aðra vinnu að hafa. Ef verkamaður, sem þannig er ástatt um, er t. d. í vinnu hjá öðrum og meiðir sig, þá á hann rétt til slysabóta. En ef hann meiðir sig í vinnu hjá sjálfum sér við að afla heyja, þá fær hann engar bætur. Það má nefna fleiri dæmi. Bóndi, sem hefur einn mann í vinnu, þarf að borga sérstakt aukagjald í slysatryggingu fyrir þennan vinnumann. Og ef þeir slasast við vinnu, fær vinnumaðurinn slysabætur, en bóndinn fær ekkert, nema hann kaupi tryggingu fyrir sig sérstaklega. Svona ákvæði tel ég ekki megi vera í þessum væntanlegu tryggingal. Og þetta er í fullu ósamræmi við það, sem sagt var að ætti að vera í frv. Í grg., sem fylgir frv. á þskj. 310, frá mþn., sem samdi frv., segir svo á bls. 30: „Þegar téðri undirbúningsvinnu var að verða lokið, barst n. bréf frá núverandi félmrh., Finni Jónssyni, dags. 31. okt. 1944, þar sem skýrt er frá því, að í málefnasamningi stjórnmálaflokkanna í sambandi við myndun ríkisstjórnar sé svo ákveðið, að komið verði á á næsta ári svo fullkomnu kerfi almannatrygginga, sem nái til allrar þjóðarinnar, án tillits til stétta og efnahags, að Ísland verði á því sviði í fremstu röð nágrannaþjóðanna.“ Og þetta er ítrekað á næstu bls. grg. Þar segir svo : „Alþýðutryggingum þeim, sem nú eru í lögum, skyldi steypt saman í eitt heildarkerfi, svið þeirra víkkað svo, að það næði til allrar þjóðarinnar án tillits til stétta og efnahags.“ Og á 3. staðnum, bls. 36, segir svo : „Frumv. gerir ráð fyrir, að rétturinn til bóta sé jafn fyrir alla án tillits til stétta eða efnahags, sbr. fyrrnefnt bréf ráðh. og þá stefnu, sem mjög ryður sér nú til rúms, að komast hjá vandasömu og hvimleiðu mati á ástæðum einstaklinganna, enda ávallt tiltölulega lítill hluti þjóðarinnar, sem hefur svo miklar tekjur, að ekki sé þörf fyrir bætur, ef eitthvað verulega bjátar á.“

Samkv. þessu, er ég las upp, virðist það hafa vakað fyrir þeim, sem stóðu að þessari lagasetningu, að tryggingarnar ættu að vera fyrir alla án tillits til stöðu eða efnahags. En þrátt fyrir það, þótt mþn. taki þetta þrisvar sinnum upp í sinni grg., þá virðist hún þó nokkuð hafa hvikað frá þessu, er hún samdi frv. sjálft, eins og ég hef sýnt fram á varðandi slysabæturnar, þar sem gert er ráð fyrir að taka nokkra þjóðfélagsþegna út úr og veita þeim bætur, en skilja aðra eftir. Mér finnst sjálfsagt að reyna að afnema þetta misrétti í frv., og geri ég tilraun til þess með 2.–6. brtt. minni á þskj. 910. Fyrsta brtt. er við 45. gr. Gr. hljóðar nú þannig: „Launþegar, sem taldir eru í 46. gr. og slasast við vinnu“ o. s. frv. Ég vil láta gr. vera orðaða þannig: Allir þeir, sem slasast við vinnu, eiga rétt til slysabóta samkv. því, er segir í 49.–58. gr., svo og vandamenn þeirra. — Hinar brtt., 3., 4., 5. og 6. brtt. á þskj., eru allar bein afleiðing af þeirri fyrstu. — Ég skal taka fram, að ég tel, að líka þurfi að taka til endurskoðunar ákvæði um aukagreiðslu vegna slysatrygginganna. En ég hef ekki lagt fram till. um breyt. á þeim ákvæðum samhliða þessu, því að ég vildi sjá, hvernig færi um þessar brtt., þessa tilraun til að færa frv. í nokkrum ákveðnum gr. í eðlilegt horf: Við 3. umr. er svo hægt að athuga hin atriðin, því að það getur farið nokkuð eftir því, hvernig fer með þessar brtt., hvernig ætti að koma þeim hlutum fyrir.