25.03.1946
Efri deild: 91. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (5082)

102. mál, iðnskóli í sveitum

Herman Jónasson:

Það er nú tilgangslítið að tala fyrir þessu máli, þar sem fáir eru við til að dæma um rökin í málinu. Því miður vill oft svo verða hér á Alþingi. — Allir virðast sammála um það, að þörf sé fyrir iðnaðarmenn í sveitum landsins. Um það er enginn ágreiningur. Ég bjóst helzt við fjörtjóni af hendi faglærðu iðnaðarmannanna, en svo hefur viljað til, að þeir viðurkenna allir, að þessi nauðsyn sé svo sterk, að fá iðnaðarmenn í sveitir, og í þessum bæ hefur málinu verið mætt af skilningi. Landssamband iðnaðarmanna og Teiknistofa landbúnaðarins hafa mælt með frv. með nokkrum breyt. Frv. hefur komizt í gegnum þessar torfærur á vegi þess, en svo þegar við tekur afgreiðsla í þessari hv. d., þá duga ekki meðmæli Teiknistofu landbúnaðarins og Landssambands iðnaðarmanna, og gengið er gegn áliti þessara manna.

Mótrökin eru allýtarlega rakin af minni hl. nefndarinnar. Ég endurtek þau ekki. Frv. er nýsmíði á sínu sviði og stendur til bóta. Ég mæli með því, að frv. verði lögfest, og er þá stuðzt við álit þeirra manna, sem með þessi mál hafa farið. Ég er ekki á móti því, að frumvarpið verði lagfært. Ýmislegt er á talið á móti, svo sem það, að landbrh. eigi að hafa yfirumsjón með skólanum, en ekki iðnmrh. Ég viðurkenni, að rennt er blint í sjóinn með tímann, en þó eru miklar líkur til þess, að tími sá, er segir í frv., sé nægur. Þar eru færð nokkur rök fyrir því, að þessi tími sé nægur, eða tvö ár. Þm. Barð. kom með þær upplýsingar, að gripið væri til þess í Englandi að kenna þessi fög á stuttum tíma. Ég kannaðist ekki við þessar upplýsingar, það er sitt hvað að smíða hús eða húsgögn. Það vill svo vel til, að ríkið hefur styrkt slíka starfsemi að Hólmi í Austur-Skaftafellssýslu. Vinna þar nú 6 menn við húsgagnasmíði og ennfremur við glugga- og hurðasmíði. Fórum við fram á við skólastjórann, að hann færi með menn í nágrennið og byggði fyrir bændur, en skólastjórinn telur það í ósamræmi við reglur skólans og styrkveitingu. Þessir menn hafa orðið leiknir á skömmum tíma. Það er vitað, að menn geta orðið leiknir í húsbyggingum á tiltölulega stuttum tíma. Það er nauðsynlegt, að sami maður geti slegið upp, steypt, málað og betrekt. Til þessa þarf nú 5 sérfróða menn, og ekki er gott að sækja þá alla til kaupstaðanna. Og ef þessi vinna verður ekki unnin af mönnum, sem hafa verið við nám í þessum skóla, þá verður hún unnin af ólærðum mönnum. Ég get upplýst það, að ég hef útvegað miðstöðvar í sveitabæi, og á tveimur stöðum hafa þær verið settar niður af lagtækum sonum viðkomandi bænda. Þetta er engin undantekning, heldur regla. Því mun svo fara, að ef þetta frv. verður afgr. eins og hér er fyrirhugað, þá mun það verða til mikils tjóns fyrir sveitirnar og þjóðfélagið í heild og þá, sem vilja læra þessa iðn, og verða til þess að örva fólksstrauminn úr sveitunum, því að léleg húsakynni eiga ekki hvað minnstan þátt í því, og vil ég í þessu, sambandi benda á rök hv. þm. Barð. um reynsluna á Englandi, að sumar iðngreinar hefur verið hægt að kenna á 6 mánuðum, t. d. að mála, smíða glugga, leggja pípur, leggja járn í steypu, steypa, betrekkja o. fl., og var þetta allt áður unnið af sama manni og naut leyfis löggjafans sem ein iðngrein, en hefu síðar verið skipt niður í fleiri iðngreinar. Og stór hluti iðnaðarmanna í þessum iðngreinum hefur lært af sjálfum sér, lagtækir menn, sem unnið hafa við þetta í mörg ár.

Ég þarf ekki að endurtaka neitt af því, sem hv. frsm. minni hl. tók fram. Hann minntist á, hvort deildirnar ættu að vera tvær. En ég er ekki í nokkrum vafa um það, að húsgagnagerð og húsasmíði er það skylt, að hægt er að sameina það.

Ég vil svo að lokum mælast til þess við hv. meiri hl. n., í og þá einkum hv. þm. Barð., hvort ekki væri hægt að bíða með dagskrána til 3. umr. og vita, hvort ekki væri unnt að koma frv. í það form, að hægt væri að koma því fram nú. Ég hygg, að aldrei hafi verið borið fram ópólitískara mál á Alþ. en þetta. Og ekki skal standa á mér að reyna að ná samkomulagi. Það er meiri eftirvænting í sveitum landsins eftir þessu máli en flestum öðrum. Það er óhemju mikið af hæfileikum, sem eru grafnir vegna þess, að þeir menn, sem hyggja á iðnnám, fá ekki að læra það. — Það þarf ekki að færa fleiri rök fyrir þessu, og ég er alveg viss um það, að þó að ég yrði ekki til þess að flytja þetta mál á næstu árum, þá á það eftir að koma þing eftir þing, því að þetta er lausnin.

Ég vil fara fram á, að atkvgr. verði frestað, og vænti þess, því að þetta hefur verið rætt af jafnvægi frá öllum hliðum til þessa, og reynt verði að ná samkomulagi um þetta, svo að d. sjái sér fært að afgr. frv. Á þennan hátt mun þetta mál verða leyst, og það verður flutt hér aftur, því að fyrir því er almennur og sterkur vilji. Þess vegna settum við að greiða fyrir því nú, svo að iðnaðarmennirnir séu fyrir hendi, þegar hafizt verður handa um húsbyggingar og rýmkast um byggingarefni og vinnukost. — Ég vil svo mælast til þess við hæstv. forseta, að hann fresti atkvgr. til morguns, því að nú verð ég að hverfa af fundi sökum mikilla forfalla.