14.05.1947
Neðri deild: 128. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

240. mál, félagsheimili

Jónas Jónsson:

Ég vil fyrst víkja að því, sem hv. þm. A-Sk. talaði um. að eins og honum er kunnugt, hefur Alþ. hvað eftir annað tekið allan skattinn af þjóðleikhúsinu. Þess vegna getur Alþ. alveg eins gert það nú, og ætlast ég til, að svo verði. Það er nú búið að byggja þjóðleikhúsið í Reykjavík, og nú förum við að byggja önnur hús. En þetta hefur staðið síðan 1923, þegar talað var um það. að þegar húsið væri komið upp, þá yrði það ekki lengur styrkt. Ég hef fært rök að því, að sú aðferð, sem ríkisstj. tekur nú upp. er nýstárleg. Það eru ekki til á öllum Norðurlöndum nema tvö leikhús, sem eru með ríkisrekstri. og eru þau rekin með stórkostlegum halla. En þeir menn, sem nú hafa beitt sér fyrir þessu máli, vissu ekki þetta — hvorki n.hæstv. ráðh.

Þá vil ég aðeins víkja að því, sem hv. þm. N-Ísf. var að tala um. stefnubreytingu í málum. Sá hv. þm. ætti nú sízt að vera að tala um slíkt, því að þrátt fyrir allar yfirlýsingar hefur hann sjálfur hlaupið frá sinni yfirlýstu stefnu og er í makki við bolsivíka, og er hann þó aldrei nema hálfur maður, þar sem þeir eiga hlut að máli. En það er þess vegna skiljanlegt, að hv. þm. N-Ísf. heldur svona fast við þessa stefnu, þegar Brynjólfur Bjarnason er búinn að marka hana, að hér skuli sett á stofn þjóðleikhús með ríkisrekstri, og er það ekki nema rétt frá þeirra sjónarmiði að hafa það alveg eins og í Rússlandi. En hv. þm. N-Ísf. hefur skipt um skoðun í þessu máli, því að í haust, þegar hann kom að málinu, þá var hann svo ókunnugur þessu máli, að hann hélt, að mætti taka þetta fé þá strax af þjóðleikhúsinu, sem hann nú reyndar vill gefa því aftur. Ég aftur á móti sagði, að slíkt væri ekki hægt, það yrði að ljúka við húsið, en það er ekki hægt að segja, að búið sé að ljúka við það, ef ekki er hægt að komast að því, og það er langur vegur frá því, að svo sé, sem stafar að nokkru leyti að því, að þegar átti að fara að byggja þjóðleikhúsið, þá var ekki hægt að fá heppilega lóð, áhuginn var þá svo lítill, það varð því að taka lóð, sem ákveðin var með l. 1923. En þessi lóð er þannig, að það vantar alveg svigrúm kringum þjóðleikhúsið. Þetta er aðeins eitt dæmið um það, hvað hv. þm. N-Ísf. er ókunnugur þessu máli, að hann vildi hlaupa frá þjóðleikhúsinu þannig, að ekki var hægt að nota það fyrir þennan bæ. En mér var vel kunnugt um það, að slíkt var ekki hægt. Hver á að gera það? Á Reykjavík sjálf að gera það? Þjóðleikhúsinu var þröngvað upp á Reykjavík, og lítill áhugi fyrir því þangað til nú allt í einu, að leikararnir vilja nú ólmir komast á föst laun við það hjá ríkinu. Það er skylda þjóðleikhússjóðsins að ganga frá því þannig, að hægt sé að nota það og komast að því, úr því að þjóðleikhúsinu hefur verið þröngvað upp á Reykjavik. (GSv: Hvers vegna að vera að því?) Hv. þm. V-Sk. hefur hjálpað til þess eins og fleiri. Nú, þegar farið er að hugsa fyrir alvöru um það að taka meginhluta af þessum skatti til þess að reisa hús úti um land og talað hefur verið um, að það verði 75 % af skattinum. þá hleypur hv. þm. N-Ísf. frá því allt í einu og gerir sig ánægðan með aðeins 45% fyrir dreifbýlið. Hefur nokkur þm. komið jafnómyndarlega fram við sína kjósendur, — og hvernig fer hann að standa við það, sem hann var áður búinn að lofa þeim?

Hv. þm. N-Ísf. sagði, að mín stefna í þessu máli markaðist af einhverri óvild í garð leikara Leikfélags Reykjavíkur, en ég vil segja þessum hv. þm., að ég hef aldrei ætlazt til neinna launa af leikurunum. Ég vil segja hv. þm. N-Ísf. það, að það eina, sem ég hef leyft mér að gera kröfur um til Leikfélags Reykjavíkur, er að verða ekki fyrir stórlygum frá þeirra hálfu, og þegar þeir báru út, að ég væri mesti þröskuldur í leikhúsmálum, þá tók ég ofan í við einn af þessum mönnum, sem mest stóð að lyginni, og ég býst við, að hann svíði undan því og honum finnist, að hann geti ekki komizt upp með það. Leikararnir hafa unnið vel sem leikarar, en þeir hafa ekkert gert fyrir leikhúsið, en aftur á móti reynt að gera mér bölvun. Þeir fá sitt leikhús. En það mega þeir vita og einnig hv. þm. N-Ísf., að ég líð þeim ekki að bera á mig sakir, heldur mun ég þá gefa þeim hæfilega ráðningu — en leikhúsið kemur.