16.10.1947
Sameinað þing: 8. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (3268)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Flm. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Ég flyt þessa þál., sem er í fyrsta lagi miðuð við það, að þinginu gefist kostur á að taka ákvarðanir um það, sem aflaga hefur farið í rekstri Keflavíkurflugvallarins. Það hefur verið mikið um þetta mál rætt af blaðamönnum og öðrum, en enn hafa engar skýringar komið frá ríkisstj. um það, sem fundið hefur verið að. Það atriði, sem ég vil sérstaklega, að Alþ. fjalli um, er að gefin verði út reglugerð um rekstur flugvallarins, eins og mælt er fyrir í 7. gr. flugvallarsamningsins. Menn muna, að þegar deilurnar um þetta mál stóðu í þinginu, var lögð á það áherzla af flutningsmönnum samningsins, að slík reglugerð tryggði Íslendingum úrslita yfirráð yfir vellinum. En nú er komið á daginn, að þessi reglugerð hefur ekki verið samin. Ákvæði samningsins eru þó afar augljós. Það var á það bent í umr. í fyrra, að með reglugerð mætti leiðrétta flugvallarsamninginn mikið og taka af vafaatriði. Hér er því um augljósa vanrækslu ríkisstj. að ræða. En hún afsakar þetta með því, að ákvæði samningsins séu svo augljós og ótvíræð, að reglugerðar sé ekki þörf. En hún kemst ekki fram hjá því, að samningurinn gerir ótvírætt ráð fyrir reglugerð. Þar á m. a. að taka fram það vald, sem starfsmenn flugvallarins eiga að hafa. Það er nú svo ástandið, að íslenzku starfsmennirnir vita bókstaflega ekkert, hverju þeir eiga að hlíta. Þess vegna verður Alþ. að taka ákvörðun um, hvort þessi reglugerð verði samin nú strax eða ekki.

Í öðru lagi gerir þessi þál. ráð fyrir, að Alþ. leggi fyrir ríkisstj., að hún sjái um, að ekki verði fleiri en 600 menn á vellinum. Þegar rætt var um flugvallarsamninginn, kom í ljós og var ekki mótmælt, að til starfrækslu vallarins þyrfti innan við fimmtíu manns. Ameríkumenn sögðust hins vegar þurfa 600 manns, og hefur það síðan alls staðar verið fullyrt, að Bandaríkin hefðu hér 600 manns, en ekki fleiri. Áður en þeim yrði fjölgað yrði íslenzka ríkisstj. kölluð til og henni gerð grein fyrir, hvaða breyting hefði orðið frá því, er Bandaríkjamenn töldu sig þurfa að hafa 600 menn. Nú er upplýst, að á Keflavíkurflugvelli eru yfir 1000 manns. Það er talið, að 400 af þeim séu verkamenn, sem vinni að byggingarvinnu. En ef Alþ. tekur ekki í taumana, geta Bandaríkin flutt inn þúsundir manna undir því yfirskini, að hér sé um verkamenn að ræða. Ameríkumenn tóku það fram, að að óbreyttum kringumstæðum þyrftu þeir 600 manns. Hvað hefur nú ríkisstj. fram að færa um þær breyttu kringumstæður sem gera það, að Bandaríkjamenn hafa aukið mannafla sinn? — Flugsamgöngur til Þýzkalands eru ekki fleiri en þrjár á viku. En amerísk flugfélög halda uppi miklum flugsamgöngum um Keflavíkurflugvöll svo og evrópsk flugfélög. Það segir sig sjálft, að slíkar flugsamgöngur eru í engu sambandi við hernám Bandaríkjamanna í Þýzkalandi. Við getum því krafizt þess, að ekki verði fleiri menn á flugvellinum en Bandaríkjamenn þurfa nauðsynlega vegna samgangna við Þýzkaland. Íslenzka ríkisstj. getur því krafizt þess, hvenær sem er, að þessum 600 mönnum verði ekki fjölgað, heldur fækkað stórlega.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að gæta þess, að framfylgt sé því ákvæði flugvallarsamningsins, 6. tölulið, að Bandaríkin þjálfi íslenzka starfsmenn í flugvallartækni, og skal ríkisstj. sjá um, að íslenzkir menn taki við trúnaðarstörfum á flugvellinum. Í þeim trúnaðarstörfum, sem ríkisstj. telur Íslendinga ekki færa um að gegna að svo stöddu, skal hún sjá um, að Íslendingur sé settur í starfið við hlið þess Bandaríkjamanns, sem starfinu gegnir, til þess að tryggt sé, að Íslendingar læri starfann, er geti síðan tekið við honum. Eins og nú standa sakir, hefur verið mjög mikill misbrestur á því, að nokkur þjálfun hafi farið fram, og þó eigum við nógum fagmönnum á að skipa. En ég held, að minna sé gert úr okkar fagmönnum en skyldi. Þetta bendir á það, að Bandaríkin vilji hafa óbreytt völd á Keflavíkurflugvellinum og að þeir hyggi á annað en gert er ráð fyrir í flugvallarsamningnum. — Um 100 Íslendingar vinna nú þar suður frá við ýmis störf, sem ekki beinlínis heyra undir rekstur vallarins. Ríkisstj. á því að gefa Alþ. skýrslu um, hvaða menn það eru, sem stunda tæknistörf, og hverjir ekki, því að það er staðreynd, að Bandaríkjamenn. hafa ekki kennt Íslendingum. heldur haft þá til þjónustustarfa. Það væri því þýðingarmikið að fá að vita, hvaða störf það eru, sem þessir Íslendingar vinna. Margir hafa farið frá störfum við flugvöllinn, vegna þess að þeir sættu sig ekki við þá meðferð, er þeir hlutu, það væri hastarlegt aðhorfa á þá niðurlægingu, sem ætti sér stað þar. Þar ráða Bandaríkjamenn öllu. Til dæmis er enginn íslenzkur maður í flugturninum, og eigum við þó nóg af fagmönnum, sem hafa lært erlendis þau störf, sem þar fara fram, og þurfa því ekkert að læra af Bandaríkjamönnum. En Bandaríkjamenn kæra sig ekkert um að breyta til. Það er vert að gera sér það ljóst, að svo er komið, að til eru íslenzkir menn, sem kunna allt, er að tæknilegri flugvallarstjórn lýtur, og Íslendingar eru alveg færir um að taka þau störf að sér. Í hæsta lagi þurfa þeir á einstökum sviðum að hafa leiðbeinendur. Að Ameríkumenn haldi í sínum höndum stjórnartaumunum á þeim grundvelli, að Íslendingar kunni ekkert til þessara verka, er gersamlega óhæfa. Þetta veit íslenzka ríkisstj., og þetta vissu þeir, sem samninginn settu, þótt þeir fullyrtu annað. Það var ekki þörf á því að afhenda þeim flugvöllinn til þess að láta þá þjálfa okkar menn. Þeir hafa ekki afhent neitt ennþá, þótt við eigum kunnáttumenn á hinum ýmsu sviðum. Þetta var bara yfirdrepskapur til þess að blekkja almenning og draga fjöður yfir innihald samningsins, sem var það að veita Bandaríkjunum herstöðvar. Íslendingar geta ekki sætt sig við minna en að Íslendingur stjórni hverju starfi á vellinum. Flugvallarsamningurinn, samkvæmt útskýringum fylgjanda hans, gefur fullt tilefni til þessa. Ef Íslendingar eru ekki færir um það, eiga þeir að vera við hlið Ameríkumanna og jafnréttháir. Þau störf eru fá, því að Íslendingar geta leyst næstum öll störfin af hendi. Skilyrðinu um óskoruð völd Íslendinga á flugvellinum hefur ekki verið fullnægt. Það er nóg að hafa Ameríkumenn hér með sendiherraréttindum, þótt þeir stjórni ekki málum, sem yfirlýst var, að Íslendingar ættu að stjórna.

Í fjórða lagi er ætlazt til þess, að ríkisstj. setji reglur um lögfestingu ýmissa ákvæða flugvallarsamningsins, einkum að það verði tryggt, að tollur verði greiddur af öllum þeim vörum, sem fluttar eru til flugvallarins og starfsmanna þar og ekki falla undir tollundanþáguákvæði samningsins. Ameríkumenn hafa ekki fallizt á að greiða tolla. Meginhluti þeirra Ameríkumanna, sem vinna á vellinum, vinna ekki að störfum, er standa í sambandi við hernámið í Þýzkalandi, heldur að flugsamgöngum við Evrópu almennt. Þetta starfslið nýtur sérréttinda fram yfir aðra útlendinga. heyrir ekki undir íslenzk lög og greiðir ekki tolla. Allt efni, sem til þess fer, er tollfrjálst. Þótt stjórnin hafi krafizt tolla, hafa þeir ekki verið greiddir. Stjórnin hefur þar ekki komið neinu fram. Ríkisstj. átti að setja reglur um þetta og segja, að hér færi ekkert fram, fyrr en reglur hefðu verið settar, byggðar á samningnum. Svona gera ríkisstjórnir allra sjálfstæðra landa. En í einstökum atriðum samningsins hefur ekkert verið gert nema með leyfi Ameríkumanna. Það er eins og enginn samningur hafi verið til og þurft að semja um hvert atriði sérstaklega.

Það væri óskandi, að ríkisstj. upplýsti, hvernig er með greiðslu flugvallargjaldsins, hvort flugvélar, sem ekki standa í sambandi við hernám í Þýzkalandi, greiða níu aura af hverjum benzínlítra, eins og gert er á Reykjavíkurflugvellinum og reynzt hefur vel. Enn fremur, hvort greitt er gjald af flugskýlunum, eins og ráðgert er í Reykjavík. Það væri fróðlegt að fá að vita þetta.

Flugvallarnefnd gerði tillögur um það til stjórnarinnar, hvernig tollafyrirkomulaginu yrði bezt fyrir komið, og birti ég álit n. sem fskj. Ríkisstj. gerði aths. við þær till. og felldi sig ekki við þær, enda mun Ameríkumönnum hafa þótt þær óþarflega hnýsnar. N. leggur til, að sama gildi um innflutning Ameríkumanna og annan innflutning og borgaður sé af honum tollur, en hann verði síðan endurgreiddur að svo miklu leyti sem hann ekki er kræfur samkvæmt ákvæðum samningsins. Þetta er eðlilegt, eins og á stendur. Tollstjórinn í Reykjavík spurði ríkisstj., hvernig hann ætti að haga sér í þessum efnum, en fékk engin svör. Fyrsta sendingin lá langan tíma á afgreiðslunni, en loks sóttu Ameríkumenn vörurnar á sínum eigin bílum og tóku þær, án þess að þær hefðu verið tollskoðaðar. Ríkisstj. er ekki enn búin að semja reglugerðina, því að till. n. fundu ekki náð fyrir augum Ameríkumanna, og þess vegna ekki heldur ríkisstj. Það er hins vegar óhjákvæmilegt, að komið verði á þarna vörueftirliti og reglugerð sett, enda mun ríkisstj. nú orðin sannfærð um, að það sé nauðsynlegt, svo að hægt sé að segja Íslendingum, að reglugerð sé til. Kannske verður það svo, að bara yfirlýsing Bandaríkjamanna um það, hvað flutt er inn, verður tekin sem góð og gild vara. Kannske upplýsir stjórnin það hér.

Það eru ýmis gjöld, sem eðlilegt er, að Bandaríkjamenn greiði hér. Það er engin ástæða til þess, að Bandaríkjamenn, sem vinna að afgreiðslu venjulegra farþegaflugvéla, séu hér útsvars- og skattfrjálsir. Um þá eiga að gilda sömu reglur og aðra útlendinga. Bezt væri að vísa þeim Bandaríkjamönnum úr landi, sem ekki vinna að störfum, er standa í sambandi við hernám Þýzkalands. Ef stjórnin gerir það ekki, þá er engin ástæða til, að þeir borgi ekki lögboðin gjöld. Bandaríkjamenn hafa meðal annars marga bíla í þjónustu sinni, sem valda sliti á íslenzkum þjóðvegum. Það er óeðlilegt, að þeir borgi ekki þann kostnað, sem af því leiðir.

Þá er í fimmta lagi talað um það í þáltill., að séð verði um það, að allt lögreglulið og varðlið á vellinum sé íslenzkt. Flugvallarsamningurinn gefur Ameríkumönnum enga heimild til að hafa varðlið á vellinum. Stjórn flugvallarins og löggæzlan þar verður að vera í íslenzkum höndum. Nú eru þar tíu íslenzkir lögreglumenn, en þrjátíu amerískir varðliðsmenn, að vísu ekki í einkennisbúningum, en þeir eru ekkert annað en amerískt lögreglulið. Þeir segja íslendingum fyrir verkum, reka þá út af vellinum og líta á sig sem ameríska lögreglu. Það mun nú vera í ráði að fjölga þeim, en ekki er það kunnugt, að fjölga eigi íslenzkum lögregluþjónum.

Loks er í till. minni lagt til, að ríkisstj. verði falið að hafa vakandi auga með allri starfsemi Bandaríkjamanna á flugvellinum eða í sambandi við hann og fyrirbyggja, að í nokkru efni verði af Bandaríkjanna hálfu gengið lengra en samningurinn heimilar. Það er alkunnugt, að reknar eru stofnanir á flugvellinum, sem eru svo umfangsmiklar, að þær verða ekki réttlættar vegna þeirra nota, sem Ameríkumenn töldu sig þurfa að hafa af vellinum. Þar er nú fullkomin loftskeytastöð með sextíu manna starfsliði. Fyrir þær fáu flugvélar, sem fara um völlinn vegna hernámsins í Þýzkalandi, er þessi stöð algerlega óþörf. Það er leikur fyrir íslenzkar loftskeytastöðvar að annast þetta. Það eina, sem rekur Bandaríkjamenn til þess að hafa þessa loftskeytastöð, er bara það að hafa hana tiltæka, ef eitthvað óvenjulegt kemur fyrir. sem sé stríð. Einhverjir mundu kannske koma með þá mótbáru. að ekki sé hægt að senda herstjórnartilkynningar frá íslenzku stöðvunum, en það er auðvelt að senda þau skeyti á dulmáli, sem þeir vilja ekki, að almenningur viti um. Loftskeytastöðin er óþörf til þess a.ð reka flugvöllinn á þeim grundvelli, sem samningurinn gerir ráð fyrir.

Þá er stór veðurathugunarstöð á vellinum. Það getur verið, að hennar sé þörf, en hún á að vera á vegum íslenzku veðurstofunnar. Það er venja Ameríkumanna að spyrja, hvort við höfum menn til að taka við þessu, annars verði þeir að hafa þar sína menn. En við verðum sjálfir að meta þörfina í þessu efni og ekki taka sem góða og gilda vöru fullyrðingar Bandaríkjamanna. Það virðist vera þegjandi samkomulag stjórnarinnar, að það, sem Bandaríkjamenn segja, sé rétt, og alltaf fallið fyrir þeirri röksemd, að við getum ekki tekið við. Bandaríkjamenn spyrja, hvort við getum skaffað sextíu menn til loftskeytastöðvarinnar. Við getum það, en það væri óhyggilegt, því að það er hægt að senda um þær stöðvar, sem þjóðin á og rekur sjálf. Þeir gætu sent forgangshraðskeyti og komið þannig áfram tilkynningum sínum, en það, sem fyrir þeim vakir, er að efla lið sitt á vellinum. Stjórninni væri sæmra að fletta ofan af hlutverki þeirra á vellinum en að taka upp á sína arma fullyrðingar þeirra og sannfæra þjóðina um, að þær séu réttar. Ríkisstj. er með þessu háttarlagi ekki orðin annað en áróðursmiðstöð fyrir Ameríkumenn, og hefur hennar hlutskipti því orðið mjög ömurlegt í sambandi við framkvæmd samninganna. Það er þörf á mjög ströngu eftirliti og að Íslendingur sé við hvert einasta starf á vellinum. Það þarf að tryggja það, að flugvöllurinn verði ekki notaður sem herstöð og Ísland á þann hátt dregið inn í deilur stórveldanna. Það verður aðeins gert með því að hafa strangt eftirlit með öllu, sem þar fer fram. Það verða að vera menn á staðnum, sem sjá til þess, að ekkert fari þar fram annað en það, sem búið er að leyfa með samningunum.

Það eru vitanlega ýmis önnur dæmi, sem sýna þrekleysi ríkisstj. gagnvart Bandaríkjamönnum og ekki eru í samræmi við sjálfstæði þjóðarinnar. Eitt dæmið er það. að benzínbirgðirnar á vellinum. sem Standard Oil átti, voru afhentar umboðsfélagi þess hér, Olíufélaginu h/f, sem þar með fékk einkaleyfi á benzíninu á flugvellinum. Það kann að verða sagt, að flugvélum, sem á vellinum lenda, sé heimilt að kaupa benzín af öðrum félögum, en það verður þá að flytja það frá Reykjavík, og er því einu félagi ívilnað á kostnað hinna.

Þeir, sem kunnir eru starfrækslu Keflavíkurflugvallarins, eru sammála um, að Ameríkumenn ráði þar einir öllu og hjóm, að Íslendingar stjórni flugvellinum íhlutunarlaust. Stjórnin hefur ekki þorað að setja reglur um flugvöllinn, af því hún hefur vitað, að Ameríkumenn mundu ekki samþykkja þær, og hún þorir ekki að gefa þær út, fyrr en þeir hafa samþykkt þær. Þetta vita allir. Meðan svo er, er erfitt að fá Íslendinga til þess að gegna störfum á vellinum. Allir finna, hver blekkingastarfsemi hér fer fram til þess að dylja, að um herstöð sé að ræða. En Ameríkumenn eru ekki nærgætnari við vini sína hér en það, að þeir víla ekki fyrir sér að segja, að hér sé um herstöðvar „bases“ að ræða, og tala ekki um takmörkuð tímabundin réttindi. Það er líka öllum kunnugt, að um herstöðvar er að ræða, og veltur því á öllu fyrir okkur, fyrst samningurinn var gerður, að forðast að lenda í deilum stórveldanna um herstöðvar og áhrifasvæði. Nú hafa Ameríkumenn hafizt handa um byggingarframkvæmdir, og þeim er þannig háttað, að svo lítur út, að Ameríkanarnir búist við því, að flugvallarsamningurinn verði framlengdur af vinum þeirra og muni gilda lengur en þann tíma, sem nú er gert ráð fyrir. Þeir byggja vönduð íbúðarhús fyrir starfslið sitt, og er þeim komið svo fyrir, að litlar líkur eru fyrir því, að þær byggingar gætu komið að neinu gagni fyrir Íslendinga, ef Bandaríkjamenn færu. Hús þessi eru svo fullkomin, að búast má við því, að þau yrðu notuð í 20–30 ár, og þessi hús eru byggð á þeim stöðum, að ekki væri mögulegt fyrir Íslendinga að nota þau húsakynni neitt verulega, svo að gagni kæmi. Nú hefur íslenzka ríkisstj. vald til þess að fyrirskipa, að ekki skuli byggt á þessum stað, og hún getur neitað að samþykkja byggingar á þeim stöðum, sem Ameríkanar eru að byggja á nú. Allt bendir til þess, að Ameríkanarnir séu nú að reyna að byggja sér hús, þannig að þeir geti með einföldu móti einangrað sig síðar meir. En ríkisstj. getur krafizt þess samkvæmt flugvallarsamningnum, að svo sé byggt á flugvellinum, að byggingarnar geti komið að gagni seinna meir. Ameríkanar mega ekki taka neitt í burt né fara með neitt af flugvellinum samkvæmt samningnum um Keflavíkurflugvöllinn. Þetta er mikilsvert ákvæði, og það er einnig mikilsvert, að tryggt sé, að Íslendingar geti hagnýtt sér þessi mannvirki, er Ameríkumenn hverfa héðan á brott. Þessu var gert ráð fyrir hér á Alþ. í fyrra af þeim þm., er samþykktu flugvallarsamninginn, en það er bersýnilegt, að þessar byggingarframkvæmdir miða í þá átt og gera ráð fyrir þeim möguleika, að Bandaríkjamenn dvelji hér lengur en gert er ráð fyrir í samningnum frá í fyrra.

Ég mun svo ekki í bili ræða þetta mál mikið nánar, þótt hér séu ýmis atriði, sem ég vildi drepa á, en mér gefst vonandi tækifæri til þess að ræða þetta frekar síðar við þessar umr. En ég leyfi mér að benda á það að lokum, að það er mikill ábyrgðarhluti, sem hvílir á hv. þm., sem samþykktu flugvallarsamninginn, að taka skýra afstöðu um framkvæmd, samningsins. Og framkvæmdin á ákvæðum þessa samnings er einna líkust því sem enginn samningur hefði verið gerður.

Það er engu líkara en að með samningnum sé verið að reyna að blekkja eða að slá ryki í augu almennings til þess að forsvara þau afnot, sem Bandaríkjastjórn hefur á þessu landssvæði. og ekki sé meiningin að framkvæma samninginn út í æsar, og þetta er allt í samræmi við hina losaralegu samningsgerð.

Ólafur Thors, fyrrv. hæstv. utanrrh., hann sat einn að þessari samningsgerð við Bandaríkin. Hann var mjög önnum kafinn og var í mörgum öðrum störfum, er hann vann að þessum samningi í fyrra. En á móti honum, fyrir hönd Bandaríkjanna, samdi maður, sem hafði þetta verk eitt að vinna, að semja um afnot Keflavíkurflugvallarins. Og Ólafur Thors kvaddi engan sérfræðing sér til aðstoðar við þessa mikilvægu samningsgerð. Svo þegar samningurinn var lagður fyrir hv. Alþ., þá lýsir hann því yfir, að samningsuppkastinu mætti helzt ekki breyta. Að vísu komst samningurinn ekki í gegn á Alþ. óbreyttur, en sama er að segja um þær breyt., er samningurinn tók í meðferð Alþ., að þær voru allar mjög flausturslegar, og mér verður á að spyrja: Hvað felst í því ákvæði samningsins, að Íslendingar skuli hafa óskoruð yfirráð á flugvellinum? Íslendingar hafa nú enga stjórn í daglegum rekstri vallarins, t. d. ekki í stjórnturni eða loftskeytastöð. Ameríkanar borga ekki tolla né lendingargjöld fyrir flugvélar sínar. Er þetta að hafa óskorað vald á flugvellinum? Nei, þessi ummæli voru og eru aðeins fögur orð. Ég vil leyfa mér að biðja hæstv. utanrrh., (BBen) um skýringu vegna ummæla hans í nál. utanrmn., þar sem hann segir, að réttur Ameríkumanna á flugvellinum yrði ekki meiri en réttur erlends skips og skipshafnar í höfn. Hæstv. ráðh. ætti að bera hér saman vald skipshafnar á Reykjavíkurhöfn og vald Ameríkumanna á Keflavíkurflugvellinum. Ég býst við, að það þætti allskrítið, ef Ameríkumenn vísuðu Íslendingum frá eða til ákveðinna hafnarsvæða í Reykjavíkurhöfn. ef þeir settu upp sérstaka loftskeytaþjónustu fyrir skip og sendu menn upp í stjórnturn Reykjavíkurhafnar til lóðsanna. Það þætti einkennilegt, en það þætti víst enn einkennilegri ráðstöfun, ef Ameríkumenn vísuðu lóðsunum út úr stjórnturninum. En ég veit nú mæta vei, að hæstv. ráðh. veit, að réttur Ameríkumanna er annar og meiri á Keflavíkurflugvelli en skipshafnar í höfn, og að þessi orð voru sögð til þess eins að reyna að blekkja þjóðina. Nú. það væri full ástæða til þess. að alþm. rannsökuðu þessi mál með flugvallarnefndinni. fyrirkomulag allt og framkvæmdir við flugvöllinn og aðgerðir hæstv. ríkisstj. í þessum málum, því að aðalvarnir hæstv. ríkisstj. virðast vera þær að setja eins konar dulu eða járntjald fyrir þessa starfsemi á flugvellinum og þyrla upp ryki í augu þjóðarinnar viðvíkjandi starfsemi þeirri, sem rekin er á Keflavíkurflugvellinum. Ef rannsókn færi fram á þessum málum, þá mundi margt koma fram í dagsins ljós, sem gæti valdið óróa á meðal almennings í landinu. og það er þegar bersýnilegt, að Íslendingar hafa þegar sett sig í vandræði vegna þessa flugvallarsamnings. Ég býst nú samt við því, að meiri hl. þeirra alþm., sem nú sitja Alþ., muni ekki samþykkja, að nákvæm rannsókn fari fram í þessu máli. Og hæstv. ríkisstj. mun ekki upplýsa neitt varðandi þessa starfsemi, heldur leitast við að gera hjúpinn utan um hana enn ógagnsæjari, og það er eitt öruggasta ráðið til þess, að Ameríkumenn geti farið öllu sínu fram á Keflavíkurflugvelli að eigin geðþótta. Við munum nú heyra, hvað hæstv. ríkisstj. segir og hverju hún svarar til, og hv. þm. gefst nú tækifæri til þess að taka ákvæði samningsins til athugunar.