30.11.1948
Efri deild: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Eins og ástandið virðist vera í áfengismálunum, er þetta frv. ekki of fljótt fram komið, að hið opinbera hlutist til um, að þeir áfengissjúklingar, sem eru á meðal vor í þjóðfélaginu, fái eitthvað betri aðbúð en verið hefur til þessa. Nú er farið að líta svo á, að það fólk, sem verður áfenginu að bráð, sé sjúkt og þurfi lækningar við, engu síður en við öðrum sjúkdómum. Það eru nokkuð margir góðir menn, sem hafa viljað stíga spor í þessa átt á undanförnum árum. Ríkisvaldið hefur sýnt nokkurn skilning á málinu á undanförnum árum, með því að styrkja drykkjumannahæli, sem góðtemplarar höfðu forgöngu um. En nú er vilji fyrir hendi, að ríkisvaldið leitist við að gera ýtarlegri tilraunir til þess að hjálpa þeim drykkjusjúku en verið hefur. En ef Alþ. viðurkennir þessa nauðsyn, þá vil ég, að veitt sé til þessa máls djarflega af opinberu fé. Ég tel, að það beri að leggja þetta fé fram beint úr ríkissjóði og að ákveðin upphæð sé árlega ætluð á fjárlögum til framdráttar þessu máli. Ég kann ekki við, að neitt sé verið að reyna að fara í kringum þetta. Ákvæði lík þessu hafa stundum smogið inn í íslenzka löggjöf og nartað hefur verið í fé ríkisins svona á bak við. En ef slíkur háttur er upp. tekinn, er það ekki til annars en að rugla menn í útgjöldum ríkisins. En þó að mörgum kunni kannske að finnast það harðir kostir að veita til þessa máls af ágóða af sölu áfengis, þá er það nú svo, að ríkisframkvæmdir styðjast að mjög verulegu leyti við þennan tekjustofn, og honum verður vart breytt fyrr en fundinn er nýr tekjustofn, ef þá þegnarnir slaka ekki til um kröfur sínar til lífsins. Nú, en um þetta er annars það að segja, að ekki þýðir um það að sakast, því að um það erum við allir jafnsekir á Alþ., meðan önnur leið er ekki fundin til þess að koma í stað áfengiságóðans. En það eru nú ekki öðruvísi peningar áfengispeningarnir frá áfengisverzluninni en aðrir peningar, og tekjur af verzluninni renna í ríkiskassann. Mér finnst því eðlilegast að taka þessa peninga beint úr ríkissjóði til þess að lækna ofdrykkjumenn. En það er þetta, sem ég hef við þetta að athuga, að ef það er vilji Alþ. að fórna árlega 11/2 milljón fyrir þetta málefni, þá á að gera það fyrir opnum dyrum og setja þetta sem fastan lið á útgjaldareikning ríkisins. Hér var annað frv. á ferðinni fyrir skömmu síðan. Þar var líka reynt að seilast í ágóðann af rekstri áfengisverzlunarinnar, án þess að það kæmi berlega fram á ríkisreikningnum. Sé farið að praktísera þetta, þá gefa hvorki fjárlögin né ríkisreikningurinn rétta hugmynd af fjárútlátum ríkisins. Ég vil því leyfa mér að biðja hv. n., er hún fær málið til athugunar, að athuga það, hvort ekki væri réttara að breyta frv. þannig, að fé til hjálpar drykkjumönnum verði árlega tekið á fjárlög, en ekki verði sá siður upp tekinn að seilast ofan í ríkiskassann bakdyramegin. Það er „better for us all“, eins og Englendingurinn segir, að skerða ekki tekjustofna ríkisins, þó að til þess sé ætlazt aðeins í bili.