18.12.1948
Efri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. viðhafði þau orð, að ég yrði að hugleiða það, að það væri ekki á hans valdi að ákveða, til hvaða framkvæmda þessi hluti af benzínskattinum skuli fara, og sagði, að ég yrði að aðgæta, að aðrir hefðu áhuga fyrir öðru, en brú á Þjórsá, en það, sem ég meinti, var það, að brúasjóðurinn yrði framtíðarsjóður, sem leysti sem sitt fyrsta verkefnið brú á Þjórsá, og ég sé ekki betur en að bílarnir, sem fyrst og fremst borga benzínskattinn, þurfi á brúnum að halda og það sé þess vegna sjálfsagður hlutur að ákveða, að viss hluti af því, sem þeir leggja fram, renni til þess að gera þeim fært að komast yfir stórárnar, sem ekki verða brúaðar með einni fjárveitingu frá Alþ. og þarf þess vegna að safna fé til í fleiri ár.

Mér skildist á hæstv. ráðh., að bara í þetta sinn vekti fyrir mér áhugi á Þjórsá, en því er ekki til að dreifa, því að ég hef áhuga á því, að til að brúa stórárnar, sem ekki verða brúaðar með einni fjárveitingu, fáist fé, svo að þær verði brúaðar. Minn áhugi er ekki aðeins bundinn við eina sérstaka á.

Hv. 1. þm. Eyf. vildi láta fella þetta af því, að skatturinn væri of lágur, og vildi láta taka það upp síðar. Það verður þá kannske í fjórða skiptið, sem Alþ. breytir benzínskattinum, það er búið að gera það með tvennum l. áður, og nú á að gera það í þriðja skiptið. Það getur vel verið, að það þyki bezt við eiga að koma í hverri viku með brtt. við sömu l., en sjálfsagt er það ekki til að flýta vinnubrögðum þingsins að taka benzínskattinn í áföngum, eins og manni skilst, að eigi að gera hér.