07.05.1949
Efri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Deildin vísaði þessu máli aftur til n. á síðasta fundi. Að vísu lágu ekki neinar brtt. fyrir við frv., en komið hefur fram frá hv. 1. þm. N-M. (PZ) bending um það, að nauðsynlegt mundi vera að gera breytingu á þessu, vegna þess að engin undanþága væri ætluð fyrir benzín til flugvéla, en eins og kunnugt er, hefur verið gerð undanþága á benzínskatti til flugvéla með tilliti til útlendra flugvéla, sem hér taka benzín á Keflavíkurflugvelli. Það er upplýst í málinu, að samkv. 7. gr. bifreiðal. er til staðar slík heimild í l., og hefur hún ekki fallið niður við þá breyt., sem hér er gerð. Upphaf 7. gr. l. hljóðar þannig:

„Fjmrh. getur með reglugerð sett ákvæði um endurgjald á innflutningsgjaldi af benzíni, ef sönnur eru færðar á, að það hafi ekki verið notað eða verði ekki notað til bifreiða“.

Fjmrh. benti mér á, að þessi heimild væri til staðar og hefði verið notuð í því skyni, sem hér er um að ræða. Af þessari ástæðu og af því, að engar till. lágu fyrir n., skilar n. ekki neinu áliti í þessu sambandi, en óskar gjarna að fá yfirlýsingu um það frá hæstv. fjmrh., að þessi heimild, sem hér er í l., verði notuð í sambandi við undanþágu á skatti fyrir flugvélabenzíni.