03.12.1948
Sameinað þing: 24. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í B-deild Alþingistíðinda. (2977)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Pétur Ottesen:

Það er aðeins út af því, að tvær þáltill. hafa borizt hér til umr., sem hv. þm. V-Húnv. minntist á. Ég held, að það sé gert ráð fyrir því í þingsköpum, að þegar fram koma áskoranir frá tiltekinni tölu þm. um að taka mál á dagskrá, þá beri forseta að bera þau tilmæli upp fyrir Alþ., og ef þau tilmæli ná þar samþykki, þá skuli þau mál tekin fyrst á dagskrá á næsta fundi, sem haldinn er í Sþ., ef um mál er að ræða eins og hér, sem borin hafa verið fram í Sþ. En það hefur alltaf verið gengið á snið við þetta ákvæði þingskapa í þessu tilfelli. Og ef því á að halda áfram, þá verður að sjálfsögðu að gera að nýju tilraun af hálfu þeirra þm., sem hér eiga hlut að máli, um að bera fram slíka áskorun, og sjá þá, hvernig hæstv. forseti tekur á málinu. Og þetta verður að sjálfsögðu að gera og verður gert, ef þessi mál verða ekki tekin fyrst á dagskrá, þegar fundur verður haldinn í Sþ., eða þá a. m. k. næst á eftir þeirri fyrirspurn, sem nú liggur fyrir, að rædd verði í Sþ.