26.04.1949
Neðri deild: 93. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í B-deild Alþingistíðinda. (3174)

Málshöfðunarleyfi gegn þingmanni

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Bréf það, sem við Einar Ól. Sveinsson prófessor, Klemenz Tryggvason hagfræðingur, Pálmi Hannesson rektor og Sigurbjörn Einarsson dósent höfum sent hæstv. forseta neðri deildar í tilefni af einstæðri framkomu hv. þm. G-K. (ÓTh) í sameinuðu þingi 31. marz s. l., virðist hafa snert þennan hv. þm. mjög illa, ef dæma má eftir þeim ræðum, sem hann hefur flutt um málið, því rúmi, sem hann hefur látið blað sitt eyða í frásagnir af málinu, og því púðri, sem hann hefur sagt því að eyða á mig og hina bréfritarana í þessu sambandi. Síðast þegar mál þetta var hér til umræðu, kom hann með langa skrifaða ræðu til flutnings. Er að vísu ekki nema gott eitt um slíka vandvirkni að segja, en þm., sem lengi hafa setið á þingi, segja mér, að þeir minnist þess ekki, að þessi hv. þm. hafi vandað sig svo áður, nema þegar um útvarpsumræður hefur verið að ræða. Stafar þetta væntanlega af því, að hv. þm. hefur viljað reyna að gæta þess að láta ekki stráksskap sinn hlaupa með sig í gönur, þannig að hann yrði sér og þessari hv. samkomu til skammar í annað sinn á skömmum tíma. Auk þess hefur hina síðustu daga dregið talsvert úr hinni reigingslegu framkomu hans hér í þingsölunum. Fyrir nokkrum dögum gerðist t. d. það, að hann settist í fyrsta skipti í sæti sitt á almennum þingbekkjum síðan hann lét af ráðherradómi, en svo sem allir hv. þm. vita, hefur hann síðan 1946 ekki setið í sæti sínu innan um aðra hv. þm., heldur hefur hann, þá sjaldan hann hefur sýnt sig í þingdeildinni, valið sér sæti á miðju gólfi, fyrir framan ræðustólinn, þar sem öllum þingheimi og áheyrendum gæfist sem bezt tækifæri til þess að virða hann fyrir sér. En nú hefur hann sem sagt lítillækkað sig svo, að hann hefur setzt í sæti sitt, milli hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt) og hv. 8. þm. Reykv. (SG). Er þess að vænta, að þessi hv. þm. sýni á næstunni fleiri merki þess, að hann vilji vanda orð sitt og æði hér í þingsölum, og reyni að sitja á strák sínum og sýni fleiri merki hógværðar og lítillætis.

Ég undrast það annars ekkert, þótt hv. þm. G-K. virðist hafa tekið sér mál þetta nærri. Vissulega hefði það komið sér bezt fyrir hann, að ekki væri vakin á því sérstök athygli, hvernig framkoma hans var á Alþ. 31. marz s. l. Daginn áður hafði götuskríll óvirt Alþingi með því að kasta mold, eggjum og grjóti í hús þess. Daginn eftir áttu sér stað skrílslæti í sjálfum þingsölunum. Hv. þm. G-K., form. stærsta þingflokksins, formaður utanrmn., óvirti þá þingið með framkomu, sem lengi mun í minnum höfð. Hann jós úr sér fúkyrðum, sem talin mundu vera blettur á þjóðþingi sérhvers þeirra vestrænu ríkja, sem Ísland hefur nú nýlega tengzt sérstökum böndum, m. a. vegna sameiginlegrar menningar. Og hann lét sér ekki nægja að ráðast með slíkum hætti að samþm. sínum, sem þó hefði verið sök sér, þar eð þeir eiga þess auðvitað kost að svara fyrir sig á sama vettvangi. Hann réðst einnig með dæmalausum brigzlum að fjórum utanþingsmönnum, nafnkunnum embættismönnum, þ. á m. bókmenntasöguprófessornum við Háskóla Íslands, einum kunnasta vísindamanni þjóðarinnar, og rektor eins stærsta og mikilvægasta unglingaskóla landsins. Samkv. handriti þingskrifara sagði hann um okkur fimm menn, sem hann nafngreindi, að á okkur hvíldi þung ábyrgð um þá hluti, sem gerzt höfðu daginn áður. Og hann bætti við: „Það kann að vera, að þeir hafi ekki ætlazt til, að við værum drepnir. En þeir ætluðu að halda fund til þess að hindra ákvarðanir löglegs meiri hluta á Alþingi.“ Hv. þm. hefur að vísu ekki viljað játa, að þingskrifarinn hafi haft rétt fyrir sér, og lét birta þennan ræðukafla nokkuð öðruvísi í blaði sínu og hefur endurtekið hann þannig síðan. En þar segir hann, að „þessir fuglar“ hafi verið látnir ljúga því að landslýðnum, að verið væri að selja landið. Og hann bætir við: „Ef eitthvað hefði skeð, ef eitthvað skeður, þá eru það þessir menn, sem ábyrgðina bera og til sakar skulu fá að svara.“ Þótt ég treysti mér að sjálfsögðu ekki til að staðhæfa það, er það skoðun mín og margra annarra, að handrit skrifarans sé nær hinu rétta en það, sem hv. þm. skrifaði sjálfur á eftir, og er það vissulega ekki undarlegt. Og ég þori að staðhæfa, að hann minntist á dráp, eins og þingskrifarinn hefur haft eftir, en það fellir hv. þm. niður í sínum ummælum. En jafnvel þótt ummælin hafi verið nákvæmlega eins og hv. þm. endurtók þau í Morgunblaðinu, felast auðvitað í þeim rakalausar og algerlega ósæmilegar staðhæfingar, staðhæfingar, sem eru blettur á þm. og blettur á þinginu, einkum þegar þess er gætt, að fjórir utanþingsmenn eiga í hlut.

Nú er það að vísu svo, að flestir okkar hafa áður orðið fyrir stjórnmálaárásum í blöðum. Ég segi flestir okkar, því að um einn okkar, próf. Einar Ól. Sveinsson, minnist ég þess ekki, að hann hafi orðið fyrir þvílíku aðkasti, enda hefur hann engin almenn afskipti haft af stjórnmálum. Okkur hefur þó aldrei þótt ástæða til málshöfðunar út af slíku. Ég hef og átt í deilum hér á þingi, þar sem stóryrði hafa fallið í minn garð. Ég hef aldrei séð ástæðu til að óska málshöfðunarleyfis út af því. Íslenzk blaðamennska stendur á svo lágu stigi, að gífuryrði eru þar algengari en svo, að ástæða sé til að elta ólar við slíkt. Og orðbragð þm. í þingsölunum og ásakanir þeirra hvers í annars garð eru því miður oft með þeim hætti, að ósæmilegt er, svo að þeir kippa sér yfirleitt ekki upp við allt. En þó sýna þm. yfirleitt þann sjálfsagða drengskap, þá sjálfsögðu háttprýði, að deila ekki á utanþingsmenn í ræðum sínum, hvað þá að bera þá sökum og beinum brigzlum. Ég minnist dæma þess, að hinn ágæti forseti þessarar hv. d. hefur tekið fram í ræður þm., er þeir hafa deilt ósæmilega á utanþingsmenn, og bent þeim á, að slíkt sé óviðeigandi. En hvað gerðist svo í sameinuðu þingi 31. marz s. l.? Formaður stærsta þingflokksins, Ólafur Thors, réðst með dæmalausum brigzlum að fjórum kunnum utanþingsmönnum, án þess að forseti sameinaðs þings, Jón Pálmason, flokksbróðir Ólafs Thors, sæi ástæðu til að slá hamri í eitt einasta skipti í bjöllu sína, og hafði hann þó beitt honum óspart á sama fundi til þess að víta óþingleg ummæli. Íslenzkir blaðamenn eru vissulega stórorðir og íslenzkir alþm. gífuryrtir í innbyrðis deilum sínum. En vissar leikreglur eru þó yfirleitt haldnar. Ein þessara leikreglna og ein hin sjálfsagðasta er sú, að þm. noti ekki þinghelgina til árása á menn utan þings. Þessa sjálfsögðu leikreglu hefur nú formaður stærsta þingflokksins brotið á hinn freklegasta hátt. Þegar slíkt gerist, er það í rauninni alls ekki einkamál hlutaðeigandi þm. og þeirra, er hann ræðst á. Þá er um að ræða mál, er varðar sóma þingsins, þá er um að ræða mál, er snertir eðli stjórnmálabaráttunnar. Þeir sem verða fyrir árásum, sem gerðar eru í fullu ósamræmi við reglur heiðarlegrar stjórnmálabaráttu, eiga ekki að láta sér slíkt lynda, ekki aðeins til þess að fá hnekkt hinum meiðandi ummælum, heldur einnig til þess að mótmæla því siðleysi, sem lýsir sér í slíkum árásum.

Hv. þm. G-K. hefur reynt að bera í bætifláka fyrir sig með því að staðhæfa, að deilur á utanþingsmenn séu engan veginn einsdæmi í þinginu. Það kemur auðvitað fyrir, að minnzt sé á utanþingsmenn í ræðum. En ég staðhæfi, að á síðari árum hafi það aldrei komið fyrir, að utanþingsmenn hafi verið nafngreindir til þess að bera þá jafnalvarlegum brigzlum og hv. þm. gerði sig sekan um 31. marz. Ef hann þekkir eitthvert dæmi slíks, þá skora ég á hann að nefna það. Ummælin, sem óskað var málshöfðunarleyfis út af í þau tvö skipti, sem það hefur komið fyrir á síðari árum, voru lítilfjörleg í samanburði við þann áburð, sem felst í ummælum hv. þm. G-K., og auk þess var ekki um að ræða ádeilu á utanþingsmann nema í annað skiptið.

Hv. þm. hefur haldið því fram, að þessi málshöfðunarbeiðni okkar hafi verið óþörf, þegar hann hafi endurtekið ummæli sín utan þings, þ. e. í Morgunblaðinu. Í sambandi við þetta þykir mér rétt að geta fyrst smáatviks, sem varpar ljósi á drengskap og sannsögli þessa hv. þm. Að ráði skrifstofustjóra Alþingis afhentum við bréf okkar fyrst forseta sameinaðs Alþingis, þar eð hv. þm. hafði haldið ræðu, sína í sameinuðu Alþingi. En nokkru síðar kom skrifstofustjórinn til mín og sagði mér, að neðri deild ætti að fjalla um málið, þar eð hv. þm. ætti sæti í þeirri d., og ætti því bréfið að stílast til forseta neðri deildar. Ég gekk þá til forseta Sþ. og sagði honum þetta og tók hjá honum bréfið til þess að fá það forseta Nd., en í þeirri d. átti ekki að vera fundur fyrr en daginn eftir. Það kom í ljós, að forseti Sþ., Jón Pálmason, hafði skýrt flokksbróður sinum frá bréfinu, áður en hann lýsti því af forsetastóli, og tel ég það hafa verið óviðeigandi. Hann skýrði hv. þm. G-K. einnig frá því, að ég hafi tekið bréfið til þess að afhenda það hæstv. forseta Nd. Þá rauk hv. þm. til og lét prenta ummælin eftir sér í Morgunblaðinu, en sýndi jafnframt þann ódrengskap að gefa það í skyn gegn betri vitund, að við hefðum tekið bréfið aftur og hætt við málshöfðunarbeiðnina. Ég ræddi þetta mál við forseta Sþ., og lofaði hann mér því, að hann skyldi leiðrétta það í Morgunblaðinu daginn eftir, að við hefðum ekki tekið bréfið hjá honum í því skyni að hætta við málshöfðunarbeiðnina, heldur til þess eins að afhenda það forseta Nd. Það loforð hélt forseti Sþ. ekki Og enn ræddi hv. þm. G-K. um það í síðustu ræðu sinni, að við munum e. t. v. hafa ætlað að taka bréfið aftur, þótt hann hafi vitað og viti, að svo var ekki. Það ber ekki vott um mikinn drengskap að segja vísvitandi ósatt, og það ber ekki vott um mikil hyggindi að segja vísvitandi ósatt, þegar hlutaðeigandi veit, að algerlega vandalaust er að sýna fram á ósannindin.

Annars eru ástæðurnar fyrir því, að við viljum ekki taka beiðni okkar aftur, þótt hv. þm. hafi endurtekið það, sem hann telur ummæli sin, í Morgunblaðinu, tvær:

1) Við höfum ekki ætlað okkur að lögsækja hvorki Ólaf Thors né nokkurn annan fyrir blaðaummæli. Ef svo væri, þá væru sumir okkar þegar búnir að höfða tugi meiðyrðamála. Ástæðan til málshöfðunarbeiðninnar er sú, að formaður stærsta þingflokksins, form. utanrmn. og fyrrv. forsrh. hefur í þingræðu, í sögulegum umr., veitzt sameiginlega að fimm nafngreindum mönnum og þar af fjórum utanþingsmönnum, sem gegna ábyrgðarmiklum trúnaðarstöðum í þjóðfélaginu, og talið þá hafa hvatt til ofbeldis og bera ábyrgð á óeirðum og árásum á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Hann hefur sagt, að þessir menn skuli fá að svara til saka, og hann hefur nefnt þá sökudólga og sagt, að þeim eigi að refsa. Ég veit, að mörgum finnst ástæðulaust að taka hv. þm. G-K. alvarlega. Það er alþjóð kunnugt, að hann er strákslegri og ógætnari í orðum en flestir þm. aðrir. Þess vegna sögðu ýmsir við okkur: Ef einhver annar hefði talað svona, væri sjálfsagt að gera ráðstafanir út af því, en stóryrði þessa manns tekur enginn alvarlega. Við vorum hins vegar þeirrar skoðunar, að meðan svona maður væri formaður þingflokks og form. utanrmn. og fyrst svona maður hefði verið forsrh., væri ekki gott að komast hjá að líta dálítið öðruvísi á hann, en hvern annan þm. Það eru því ekki aðeins ummælin í sjálfu sér, sem eru tilefni þessarar ráðstöfunar okkar, heldur það, hvar þau eru viðhöfð og af hverjum, og síðast en ekki sízt, að með þeim er brotin á freklegan hátt viðurkennd þinghefð. Ef. d. neitaði um málshöfðunarleyfið, yrðum við að fara í mál. út af ummælum í Morgunblaðinu, og þau yrðu þá dæmd dauð og ómerk. Okkur gildir yfirleitt einu, hvað stendur í Morgunblaðinu, jafnvel þótt það sé uppprentun á því, sem hv. þm. G-K. hefur sagt á Alþingi. Við viljum fá það dæmt dautt og ómerkt, sem hv. þm. hefur sagt á Alþ. við umrætt tækifæri, og okkur hefur verið tjáð, að það geti haft áhrif á rekstur málsins, hvort það er höfðað út af ummælum í þingræðu og með leyfi d. eða út af blaðaummælum, jafnvel þótt um endurtekin þingræðuummæli sé að ræða. Þetta virðist hv. þm. og einhverjum fleirum hafa gengið illa að skilja, en við frekari umhugsun ætti þetta þó að geta orðið ljóst.

2) Það er ekki óumdeilt, hvað þm. hefur í raun og veru sagt. Handriti þingskrifarans ber ekki saman við það, sem þm. telur sig sjálfan hafa sagt. Þegar um jafnalvarlegar ásakanir er að ræða og felast í ummælum hv. þm., hlýtur það að sjálfsögðu að verða eitt af verkefnum dómarans að athuga, hvort hægt er að komast að hinu rétta um ummælin, ef hann telur slíkt fært. Það væri alvarlegt fyrir hv. þm., ef það kynni að sannast, að þingskrifarinn hefði rétt fyrir sér og hv. þm. hefði sagt, að fimm embættismenn, þar á meðal háskólakennarar í bókmenntasögu og guðfræði og skólastjóri við menntaskóla, hefðu e. t. v. ætlað að drepa hann og tugi annarra þm. Slíkt tal væri ekki aðeins einsdæmi í síðari tíma sögu Alþingis, heldur og vafalaust í síðari tíma sögu þjóðþinga á Vesturlöndum, og hefði margur þm. orðið frægur að endemum af minna tilefni, en slíkri framkomu.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að við tökum beiðni okkar ekki aftur, heldur höldum fast við hana.

Á það hefur verið bent, að það sé hættuleg braut fyrir þingið að létta af þinghelginni og heimila málshöfðun á hendur þm. Ef það yrði föst regla að létta af þinghelginni, þegar þess væri óskað, má auðvitað segja, að þinghelgin yrði einskis virði. Með því að óska þinghelginni létt af út af hvaða smávægilegu tilefni sem væri mætti þá í rauninni afnema hana. En reynslan sýnir, að ekki hefur verið um að ræða neina viðleitni í þá átt. Á undanförnum áratugum hefur þessa verið óskað aðeins tvisvar sinnum. Í annað skiptið féll málið niður, enda var þá um tvo þm. að ræða, Jón Þorláksson og Tryggva Þórhallsson. Í hitt skiptið óskaði utanþingsmaður, Jakob Möller, málshöfðunarleyfis gegn Jóni Magnússyni. Í það skiptið var leyfið veitt, enda mæltist Jón Magnússon eindregið til þess. Það eru því fordæmi fyrir því að veita slíkt leyfi, en það er ekkert fordæmi fyrir því að synja um það. Auðvitað hefði Jón Magnússon getað gert það sama og hv. þm. G-K. hefur gert nú, þ. e. rokið til og endurtekið ummælin utan þings, en hann valdi ekki þann kost, heldur taldi eðlilegra, að d. leyfði málshöfðunina, fyrst fram á hana hefði verið farið, vafalaust meðfram vegna þess, að utanþingsmaður átti í hlut. Ég tel, að miklu fremur mætti segja, að það væri hættuleg braut að taka að synja um leyfi til málshöfðunar. Það mundi óhjákvæmilega efla þá skoðun, að þm. geti leyft sér hvaða ummæli sem er, jafnvel um utanþingsmenn, án þess að hægt væri að láta þá sæta ábyrgð, og það mundi ekki auka á álit Alþingis, en það nýtur vissulega ekki of mikils álits.

Í síðustu ræðu sinni sagði hv. þm., að ekki sæti á okkur fimmmenningunum að vera að kvarta undan ummælum sínum, þar eð við hefðum borið sig og aðra jafnmiklum sökum í blaði okkar Þjóðvörn. Ég greip þá fram í fyrir honum og benti honum á að byggja ræðu sína á réttum forsendum. Við værum ekki allir í ritnefnd Þjóðvarnar, þ. e. ekki Einar Ól. Sveinsson og ég. Hv. þm. svaraði því þá til, að ég væri einn af stjórnendum Þjóðvarnarfélagsins. Ég benti honum enn á, að hann færi þarna ekki heldur með rétt mál. Þetta kallaði hv. þm. að sverja af sér Þjóðvörn og Þjóðvarnarfélagið, og blað hans, Morgunblaðið, sagði síðan daginn eftir, að ég hafi afneitað „öllu samneyti við Þjóðvarnarfélagið.“ Þá segir blaðið enn fremur: „Þá afneitaði Gylfi oft og ákveðið jafnt blaðinu Þjóðvörn sem félaginu Þjóðvörn, orðum þess öllum og æði, kvaðst enga ábyrgð bera á því fólki og helzt hvergi nærri þeim hafa komið né koma vilja.“ Ég læt hv. þm. um að dæma þá blaðamennsku, sem hér er um að ræða. Allir hv. þm., sem mál mitt heyrðu, vita, að ég sagði ekkert í þessa átt. Hugsum okkur, að ég færi að tala um hv. þm. G-K. sem ritstjóra Morgunblaðsins og hann segði sem rétt er, að hann væri ekki ritstjóri þess blaðs, en ég staðhæfði þá, að hann hefði afneitað Morgunblaðinu! Ég gerði ekki annað en að benda á staðreyndir, að gefnu tilefni, því að mér fannst ástæðulaust að láta hv. þm. haldast það uppi að ræða bréf okkar fimmmenninganna á öðrum forsendum en réttum. Og það er beinlínis hlægilegur útúrsnúningur að telja, að í slíku felist einhver afneitun á stefnu þessa blaðs og þessa félags. Að gefnu þessu tilefni skal ég taka fram það, sem raunar er kunnugt af því, sem ég hef áður sagt og skrifað, að ég tel stefnu Þjóðvarnarfélagsins og blaðsins Þjóðvarnar í þeim tveimur meginmálum, sem þau hafa látið til sín taka, Keflavíkurmálinu og Atlantshafsbandalagsmálinu, hafa verið rétta. Í ritnefnd Þjóðvarnar eru menn, sem ég met mjög mikils og þekki mjög vel, og það er beinlínis hlægilegt að herma það upp á mig, að ég vilji helzt hvergi nærri þeim hafa komið né koma vilja. Ég skora hér með á þá blaðamenn Morgunblaðsins og Þjóðviljans, sem sáu ástæðu til að snúa svo herfilega út úr ummælum mínum — og skírskota um leið til blaðamannsheiðurs þeirra — að skýra rétt og satt frá þessum ummælum mínum nú og leiðrétta þar með það, sem þeir birtu í fyrradag.

Í síðustu ræðu sinni lét hv. þm. G-K. sér tíðrætt um málflutning Þjóðvarnar í umræðunum um Atlantshafsbandalagið, en hann minntist aftur á móti ekki á sinn eigin málflutning og Morgunblaðsins. Ég skal því minna hann á nokkrar staðreyndir í því sambandi. Eða er hann kannske búinn að gleyma þessum ummælum sínum úr áramótagreininni síðustu:

„Þeirra dómur (þ. e. forustumanna stórþjóðanna) er, að hætta sé á ferð, hræðileg hætta, að hún stafi frá einræðisríkjunum og að hlutleysið sé óvitahjal, ekkert sé til varnar annað en sterkustu vígvélar og öflugustu morðtæki, svo sterk og öflug tæki til varnar og árásar, að engir þori á þá að ráðast.“

Hvað er hv. þm. að segja hér? Hann er að boða, að væntanlegt bandalag verði geysiöflugt og harðsnúin hernaðarsamtök, bæði til varnar og sóknar.

Og hv. þm. bætti við: „Hvar mundi sá, sem hefur slíka styrjöld, byrja. Á hvern mundi hann fyrst ráðast? Er að minnsta kosti ekki ákaflega sennilegt, að hann sneri sér fyrst að þeim, sem er hernaðarlega mikilvægur, en samt óvarinn?“

Hvað er hv. þm. að boða hér? Er hann ekki að boða rússneska árás á Ísland í upphafi stríðs, ef landið sé óvarið?

Og enn bætir hann við: „Brjótist styrjöld út, veltur á öllu fyrir Íslendinga að forðast, að varnarleysi þeirra hrópi á árásaraðilann: Taktu mig. Það er útlátalaust, hér eru engar varnir, en mikilvæg hernaðaraðstaða.“

Hefði hv. þm. getað sagt skoðun sína öllu skýrar? Hér er verið að krefjast landvarna, til þess að árásaraðili geti ekki tekið landið. Og hvernig geta menn nú undrazt, að þeir, sem telja það eitt brýnasta hagsmunamál Íslendinga í nútíð og framtíð, að hér séu engin hervirki og enginn útlendur her á friðartímum, hafi orðið skelfingu lostnir og fyllzt baráttuhug, þegar slík ummæli eru viðhöfð af formanni stærsta þingflokksins?

Hv. þm. les auðvitað eitthvað af útlendum blöðum. Hann hefur því vitað, að um síðustu áramót voru allar horfur á, að í Atlantshafssáttmálanum yrðu miklu meiri skuldbindingar en raun varð á, og að líklegt var, að í kjölfar hans fylgdi mjög náin hernaðarsamvinna samningsaðilanna, að öllum líkindum með bækistöðvum í ýmsum þátttökulandanna. Þess vegna hefur hann talað eins og hann talaði. Hv. þm. orðaði það aldrei, Morgunblaðið orðaði það aldrei, að það ætti að vera skilyrði af Íslendinga hálfu, að hér yrðu engar erlendar herstöðvar á friðartímum og enginn erlendur her. Þegar séra Sigurbjörn Einarsson hélt því fram í ræðu, að Íslendingar ættu að halda fast við hefðbundna stefnu hlutleysis í hernaðarátökum, hófst upp hinn ofsalegasti söngur um, að landið mætti ekki vera varnarlaust, og ráðizt var að séra Sigurbirni persónulega með enn þá meiri heift, en þó er venja í íslenzkum blöðum fyrir það að berjast fyrir því, sem kallað var varnarleysi landsins. Þegar stúdentafundur gerði ályktun, þar sem erlendum herstöðvum og erlendri hersetu var andmælt, var síður en svo, að undir hana væri tekið. Henni var þvert á móti tekið mjög illa. Hún var afflutt og henni var andmælt. Ég skrifaði grein í Alþýðublaðið, þar sem því var haldið fram, að það eitt væri í samræmi við íslenzka utanríkisstefnu að taka ekki þátt í neinum þjóðasamtökum, sem haft gætu í för með sér erlendar herstöðvar og erlenda hersetu á friðartímum. Það var síður en svo, að undir þessar skoðanir væri tekið, nema hvað þess er að geta, að Tíminn hélt fram svipuðum skoðunum. Vikur og mánuðir liðu þannig, að hvorki hv. þm. G-K. né Morgunblaðið sögðu nokkru sinni, að þeir væru andvígir erlendum herstöðvum eða erlendri hersetu í landinu. Þetta fyllti þúsundir manna um land allt tortryggni, og vegna þessa eru þær tortryggnar enn, því að það var ekki fyrr en eftir að erlend blöð voru farin að herma, að samningurinn mundi verða miklu lausari í reipunum, en áður hafði verið búizt við og þar með, að ástæðulaust væri að gera ráð fyrir nokkrum ákvæðum um bækistöðvar í einstökum löndum, að hv. þm. og blað hans og flokkur lét í ljós þá skoðun, að hann væri andvígur erlendum her og herstöðvum hér á friðartímum. Þessi málflutningur verður munaður. Hann er frumorsök þeirrar ólgu, sem varð í umræðum um málið.

Á málflutningi hv. þm. og blaðs hans hefur og verið annað megineinkenni, bæði áður en samningurinn var gerður og eftir það. Reynt hefur verið að stimpla alla þá, sem hafa verið á öðru máli varðandi þessa samningsgerð, sem kommúnista. Það hefur verið beitt miskunnarlausum „terror“ í málflutningi. Það hefur verið reynt að fæla menn frá skoðunum sínum, þeir skyldu stimplast kommúnistar og vera óalandi og óferjandi. Því hefur verið haldið fram þvert ofan, í allar staðreyndir, að í nágrannalöndunum séu engir andvígir þessum samningi nema kommúnistar. Í Svíþjóð er þó ástandið þannig, að enginn þingflokkanna vildi mæla með aðild Svíþjóðar að samningnum, og eru Svíar þó ekki minni lýðræðisþjóð en hverjir aðrir. Í Danmörku greiddi heill flokkur, radikali flokkurinn, atkvæði á móti aðild Danmerkur, auk kommúnista, en Danir hafa reynzt svo siðaðir að gera engin hróp að þeim fyrir þá sök, og ekkert danskt blað hefur kallað þá fimmtu herdeild eða hrópað að þeim kommúnistabrigzlum vegna þessa. Þegar bandalagsmálið var tekið til fyrri umr. í norska stórþinginu, er mér sagt, að 22 þm. norska verkamannaflokksins hafi verið fjarverandi, án efa í mótmælaskyni við samninginn. Þegar svo endanlega voru greidd atkvæði um samninginn, greiddu tveir þm. verkamannaflokksins atkvæði gegn honum ásamt kommúnistum. Blað verkamannaflokksins skýrði frá ræðum þeirra og röksemdum eins og ræðum og röksemdum allra annarra, og þeim var síður en svo brugðið um kommúnisma. Í forustugrein blaðsins var rætt um afstöðu þeirra af skilningi og hæversku, en þeir tóku fram, að þeir greiddu atkvæði gegn samningnum á öðrum forsendum, en kommúnistar. Hér á Alþingi greiddum við þrír atkvæði gegn samningnum, auk hv. þm. Sósfl., en við gerðum það á öðrum forsendum en hv. þm. Sósfl. Við hv. 3. landsk. þm. bárum fram brtt. og gerðum samþykkt þeirra að skilyrði fyrir fylgi okkar við samninginn. Við lýstum því yfir, að yrðu þær samþ., mundum við greiða atkvæði með samningnum, en yrðu þær felldar, mundum við greiða atkvæði gegn honum. En það er ekkert skeytt um ástæður og rök fyrir mótatkvæðinu. Við skulum vera kommúnistar eða hjálparmenn kommúnista, fimmta herdeild þeirra, eins og allir, sem leyfa sér að hafa aðra skoðun á þessu utanríkismáli en hv. þm. G-K. og Morgunblaðið.

Hér er um að ræða alvarlegustu hlið þess málflutnings, sem nú er rekinn af mestu kappi hér á landi. Hér er verið að beita sömu bardagaaðferðinni og nazistar beittu með miklum árangri, þegar þeir stimpluðu alla andstæðinga sína kommúnista og reyndu að skipta þjóðunum milli sín og kommúnista. Þessi baráttuaðferð má ekki bera árangur hér á landi. Þá er voðinn vís. Hún skal ekki bera árangur. Íslenzkur almenningur er þroskaðri en svo, að hann muni láta þessa baráttuaðferð bera árangur.

Að síðustu ætla ég að víkja nokkrum orðum að þeim aðstoðarmanni, sem hv. þm. G-K. hefur fengið í þessum umr., hv. þm. S-Þ. (JJ). Ég geri það ekki af því, að hv. þm. G-K. sé nokkurt gagn að því, sem þessi hv. þm. hefur lagt til málanna. Það er löngu komið svo, að engum málstað er gagn að liðveizlu þess manns, heldur spillir hann fyrir þeim, sem hann reynir að hjálpa, auk þess sem það er nokkurn veginn víst, að um slæman málstað er að ræða, ef hann er reiðubúinn til að fylgja honum. Þessi hv. þm. er eini þm., sem opinskátt og opinberlega hefur óskað eftir erlendum her til Íslands og erlendum herstöðvum. Fátt sýnir þó betur, hve því fer víðs fjarri, að nokkurt mark sé tekið á honum í íslenzkum stjórnmálum, að þessar kenningar hans hafa litla athygli vakið, þótt vitað sé um algera andúð þjóðarinnar á þessum skoðunum. Þessi hv. þm. er afturganga í íslenzkum stjórnmálum, en þó að því leyti frábrugðinn öðrum afturgöngum, að enginn óttast hann og öllum er sama um, hvað hann segir og gerir. Annars ætti maður með slíkar skoðanir auðvitað að hafa vit á að hafa hljótt um sig, þar sem utanríkismál og öryggismál landsins eru á dagskrá,svo fáránlegar eru skoðanir hans og svo líklegar til óvinsælda og andúðar, ef eitthvað mark væri tekið á þeim.

Hv. þm. S-Þ. gerði tilraun til að endurtaka þau ummæli samherja síns, hv. þm. G-K., að við fimmmenningarnir bærum fulla ábyrgð á óeirðunum 30. marz, e. t. v. í þeirri von, að við óskuðum líka eftir að lögsækja hann. En honum tekst ekki að fá okkur frekar en aðra til að taka nokkurt mark á sér. Okkur gildir nákvæmlega einu, hvað hann segir og gerir, og munum að sjálfsögðu láta það algerlega afskiptalaust.