13.12.1948
Efri deild: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (3517)

47. mál, menntaskólar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það eru aðallega tvö atriði, sem ég ætla að gera að umtalsefni. — Eins og allir sjá, sem lesa þetta frv., felur það í sér ákvæði um að stofna 3 nýja menntaskóla, þegar fé er veitt til þess á fjárlögum. Það er gert ráð fyrir, að tveir þeirra verði í sveit, á Eiðum og Laugarvatni, og sá þriðji á Ísafirði. Út af þessu finnur 2. þm. Árn. ástæðu til að gefa í skyn með dylgjum, að þessir staðir séu viðsjálir og þar sé andrúmsloftið ekki sem skyldi. Hann segir í sínu nál.: „Slíkur menntaskóli mætti ekki verða í neinni þeirri hvirfingu, er kynni á leiðinlegan hátt að minna á það, er raskar rónni í stórbæjunum.“ Er hv. þm. að dylgja með, að Eiðar eða Laugarvatn séu slíkar hvirfingar, eða hvers konar árásir eru þetta á menn, — forstöðumenn þessara skóla, — sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér hér? Þetta er líka fjarstæða. Það er ekkert á þessum stöðum af því, sem raskar ró manna í stórbæjum. Við sjáum þar enga róna og yfirleitt ekkert, sem raskar ró og húsfriði, og þess vegna tel ég ástæðulaust að vera með dylgjur um þetta í sambandi við þessa staði. Hitt atriðið, sem ég vildi minnast á, er út af þeim ummælum, að það væri í raun og veru enginn vilji í þessum umræddu landshlutum fyrir menntaskólastofnun þar. Það væru t. d. ekki forustumennirnir á Ísafirði, sem skrifað hefðu undir áskorunina. Þeir, sem skrifað hefðu undir hana, væru allir „aftan í oss“, gerðu það fyrir aðra, en hefðu ekki sjálfstæða skoðun á málinu. Ég tel svona málflutning mjög óviðeigandi og vart sæmandi, því að auðvitað er hver sá maður, sem sjálfstæða skoðun hefur á einhverju máli og berst fyrir henni, forustumaður. Og hvað Austurland snertir, þá hefur þetta mál komið fyrir á hverju leiðarþingi í N-Múlasýslu og allir þar reynzt fylgjendur þess, enda aldrei dottið annað í hug.

Það mátti vænta þess, að Sjálfstfl. yrði á móti þessu máli, því að hann hefur fyrr verið á móti aukinni menntun í landinu, enda er það einkenni íhalds allra tíma, að það berst á móti aukinni menntun, á hvaða hátt og hvernig sem hún birtist, því að það veit sem er, að með henni er forréttindastefnunni hætta búin. Annars er það einkennilegt, — og þó ekki, þegar skyggnzt er undir yfirborðið, — hvað menn eru hræddir við, að fólk menntist. Menntaskólanám er ekkert annað en almenn menntun, sem gerir menn betur færa til hvers konar starfa og nýtari og heilsteyptari þjóðfélagsborgara. — Það er talað um menntaskólanám sem áfanga á leið til háskólanáms, en það þarf ekki að vera neinn áfangi, heldur aðeins almennt nám. Ég er ekkert hræddur við, að almennir borgarar fái menntun. En þeir menn, sem vilja halda við sérréttindum ákveðinna stétta í þjóðfélaginu, þeir telja sér hag í, að almenningur sé ekki upplýstur nema sem minnst, og þeir hafa staðið og standa á móti menntun hans alls staðar og ævinlega. Þeir stóðu á sínum tíma á móti menntaskóla á Akureyri; töldu ekki þörf á að útskrifa nema svo sem 20 stúdenta árlega, rétt til að fylla upp í skörð í embættismannahópnum. Þeir óttuðust, og óttast það enn, að því fleiri menn sem fái almenna menntun, því færri verði þeir „attan í oss“, sem leiddir yrðu eins og blindingjar af stjórnmálaskúmunum til andstöðu við það, sem raunverulega horfir þeim til heilla. Það er því ekkert að furða, þótt íhaldið hér standi á móti því, að mönnum séu gefin aukin tækifæri til almennrar menntunar; það gerir það eðli sínu samkvæmt, hér eins og annars staðar, nú eins og ávallt áður. Hins vegar vita þessir menn, að það er ekki vel séð hjá fólkinu að leggjast á móti menntaskólunum, og þess vegna segja þeir það ekki beint, að þeir séu á móti þeim. Þeir segja aftur á móti sem svo: Það sé miklu betra að koma upp heimavist við menntaskólann í Rvík. Og svo tala þeir um það í ein 25 ár að koma upp heimavist við Menntaskólann í Rvík, — en ekkert er gert. Þeir töluðu nákvæmlega á sama hátt um að koma upp heimavist við menntaskólann hér, þegar rætt var um stofnun menntaskóla á Akureyri, og höfðu það sem skálkaskjól eða snuðu, sem stungið er upp í krakka til þess að láta hann ekki grenja. Og þetta kemur þeim ekkert undarlega fyrir, sem þekkja Sjálfstfl. hér á landi. Hann rær að því öllum árum að halda í sérréttindi og fríðindi ákveðinna manna, og til þess að sá róður megi sækjast, þarf fjöldinn að hafa sem minnst af menntun að segja, annars sér hann í gegnum moldviðrið. Þetta er nú lífsskoðun þessara manna, og við því er ekkert að segja. Samkv. henni eru þeir á móti því, að menntaskólar risi, og þeim verður ekki komið upp nema í trássi við þá.

Um hina tilteknu skólastaði er annars það að segja, að þeir hafa verið valdir vegna þess, að þar eru til vísar að menntaskólum, sem geta vaxið og þroskazt, og í því er fólgin nokkur trygging fyrir því, að lögin um þá verði ekki tóm pappírsgögn, — eins og t. d. um ríkishótelið eða Austurveg, — sem ekki væri fyrir hendi, ef það þyrfti að reisa þá frá grunni. Og án þess að lagt sé í mikinn kostnað, ættu þar að geta vaxið upp góðir menntaskólar smám saman á næstu 10–15 árum. Og Alþ. hefur það alveg í hendi sér, hve ört sú þróun gengur, og form. fjvn , hver sem hann verður í framtíðinni, ræður mestu um fjárveitingarnar. Það er óumdeilanlega hægara að auka menntaskólanámið með því að ákveða nú þessa framtíðarstaði, þar sem skilyrði eru þegar fyrir hendi og síðan að fikra sig áfram eftir atvikum og getu.

Ég veit ekki, hvernig fara muni um þetta mál nú hér á Alþ., en ef svo færi, að hin rökstudda dagskrá hv. 2. þm. Árn. yrði samþ., mundi það eiga fyrir sér hinn sama feril og mörg önnur góð mál, að vera tekið upp aftur og aftur, unz ekki tjáir lengur á móti að standa, þar sem öllum er ljóst orðið, að rétt er stefnt.