07.03.1949
Efri deild: 71. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (3745)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég mun leiða hest minn hjá mestu af því, sem hér hefur verið rætt. Ég tel, að markmið frv. sé að tryggja yfirstj. og yfirumsjón með ríkisstofnunum, og um þetta vildi ég einungis segja það, að ég er því samþykkur af ýmsum ástæðum, sem ræddar hafa verið hér og kunnar eru. Ég tel aldrei vel um hnútana búið, nema stj. hafi tögl og hagldir um þessi mál, svo að ekkert sé gert án vitundar hennar eða án hennar samþykkis. Frv. verður því að dæma eftir því, hvað ákvæði þess eru vel til þess fallin að ná því markmiði, sem ég hef áður minnzt á og get skilyrðislaust játað fylgi mitt. Viðvíkjandi því, að fjmrh. hafi slíka heimild, þá má svo vera. En þegar tekið er með í reikninginn, að fjmrh. er þannig settur, að um hann er alltaf setið af einhverjum, eins og sagt er, að fjandinn sitji um sálir manna (HV: Sálir vondra manna.), þá gerir það honum erfiðara fyrir, og aðstoð í þessum málum ætti að skapa meira samræmi og hafa í för með sér meiri tryggingu en ella. Það, sem ég teldi sérstaklega, að hafa mætti nokkuð annan keim, lýtur að nöfnum og formi fremur en efni frv. Til skýringar skal ég geta þess, að ég kynni t. d. betur við, að hinn nýi embættismaður héti ekki ráðsmaður ríkisins, heldur ráðamaður ríkisins. Það er sitt hvor merking í þeim orðum. Samkvæmt gamalli venju hafði ráðsmaðurinn hjá ekkjunni alveg sérstökum skyldum að gegna. Ég vil leggja áherzlu á það, að aðalráðamaðurinn á þessum vettvangi hlýtur að vera stj. sjálf, og gildir þar um hið sama og t. d. l. um fjárhagsráð, en þau l. hefði ég aldrei samþ., ef svo hefði ekki verið. „Ráðsmaður“ bendir umfram það, sem tilgangur frv. er. Þetta eru ekki mótmæli gegn frv. Meginstörfin í sambandi við þetta embætti hljóta að verða falin í því að semja till. til ráðuneytisins, en það er eins nauðsynlegt fyrir því. Ég held, að ekkert eigi að lögfesta, sem telja megi, að gangi um of í þá átt að draga úr valdi stj. í slíkum málum. Hinu get ég verið samþ., að fjmrn. sé þetta verk ofvaxið, miðað við fyrirkomulagið nú. Ég get vel skilið, að til þess þurfi aukna starfskrafta, og hvað er þá nær en að sérstökum embættismanni sé falið þetta starf? Hann sé sem sagt ráðunautur eða ráðamaður ríkisstj. eða fjmrh. um þessi efni, en lengra getur vald hans eftir eðli sínu ekki náð. Ég tel stafa nokkra hættu af því, hvað það er ofarlega á baugi, eins og raun ber vitni um, að ábyrgð og vald dreifist á of margar hendur. Ég mun ekki skýra þetta nánar, en ég er alveg samþ. því, að frv. eins og þetta eigi rétt á sér til þess að ákveða nýja stjórnardeild, hvort sem forstöðumaður hennar heitir skrifstofustjóri eða ráðamaður ríkisins. Ég álít, ef þetta frv. verður að l., þá þurfi að taka það sem skýrast fram, hvert sé verkefni þessa manns, og að setja skuli ákvæði um, að hann skuli gera till. í hvert sinn um ríkisstofnanir og heildaraðstöðu í þeim efnum til fjmrh., sem geti svo orðið því til tryggingar, að þar sé hyggilega og hófsamlega að öllu farið. Aðstaðan milli fjmrn. hefur alla tíð verið dálítið laus í reipunum hvað lagaskipan snertir og hinna sérstöku stofnana ríkisins. Mér finnst endilega, að að því muni verða réttarbót, að treysta þetta með sérstökum l., svo að ekki verði um það deilt, að ríkisstj. ekki megi, heldur eigi að hafa hönd í bagga með þessu, eins og hugsað er með frv. Ég er því samþ. þessu frv. að öðru leyti en því, að ég vil láta það koma fram, að hér sé aðeins um embættismann að ræða, sem getur að vísu orðið mjög þarfur, ef val hans tekst vel, sem ber fram sínar till. við fjmrh., en er enginn ríkisráðsmaður.