09.11.1948
Neðri deild: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (3903)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til andsvara hv. þm. G-K. Ég held, að þetta sé fyrsta ræðan, sem hann flytur á þessu þingi. Ég heyrði, þegar hann flutti þessa ræðu sína, að það er kominn enn þá meiri vindur í hann, en var í honum í fyrra. Það er ótrúlegt, að það skuli hafa komizt í hann meiri vindur, en mér sýnist það samt vera svo. M. ö. o., mér virtist hann vera enn þá merkilegri með sig og enn þá leiðinlegri nú.

Þegar ég kom fyrst á þing, fyrir tveimur árum, var hv. þm. forsrh. Þá vantaði hann ekki hér á þingfundi. Þá sat hann hér svo að segja frá fundarbyrjun til fundarloka í stóli forsrh. Þá var ekki ástæða til að kvarta, eins og ég var að lesa um í þingtíðindum, að kvartað var yfir af mörgum fyrir 12 árum, að þm. G-K. væri allra manna latastur við að sækja þingfundi, svo að jafnvel var óskað eftir því, að forseti áminnti hann um að vera sómasamlega oft við. Þegar hann var ráðh., var hann þaulsætinn í ráðherrastóli. En það brá svo undarlega við, að þegar hann hætti að vera forsrh., þá hætti hann að koma á þingfundi. Og þegar nú sá sjaldgæfi viðburður gerist, að hann kemur hér, þá er hann ekki á almennum þingbekk. Hvar situr hann nú? Ekki í sínu sæti. Hans sæti er hérna, en ekki þarna. Hann situr aldrei í sínu sæti. Til þess telur hann sig of fínan. Þá sjaldan honum þóknast að líta inn í deildina, þá situr hann þarna fyrir framan ræðustólinn, þar sem honum er ekki ætlað sæti. Ég verð því að segja, að mig furðar stórlega á því, að þessi hv. þm. skuli vera að belgja sig hér upp með merkilegheitum. Mig furðar á því, að hann skuli leyfa sér að kasta hér hnútum að öðrum mönnum.

Annars stóð þessi hv. þm. upp til að segja tvennt, og hvort tveggja var ósatt. Hið fyrra var það, að hann hefði engu við að bæta rök hv. 7. þm. Reykv. Það er ósatt að því leyti, að hann hafði því nær ekkert heyrt af hans rökum, því að hann hefur ekki verið við, fyrr en hann skauzt hér í gætt í lok síðustu ræðu hv. 7. þm. Reykv. Síðara atriðið var það, að ég hefði verið að bregða sessunaut mínum, hv. 7. þm. Reykv., um æsku hans. Ég skal játa, að ef ég brygði honum um æsku, þá sæti það illa á mér, sem er yngstur þm. En ég nefndi það ekki. Ég nefndi ekki, að hann væri ungur maður. Þetta tvennt, sem hann hafði að segja, er því hvort tveggja ósatt.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að segja, að það kom fram í ræðu hans, að ég fer mjög í taugarnar á þessum fyrrv. forsrh., hv. þm. G-K. Það er ekki nýtt fyrir mig, ég hef vitað það áður. Mér finnst það alltaf vera góðs viti í hvert skipti, sem ég verð var við það, að hv. þm. G-K. er á móti mér, því að þá veit ég, að ég hef gott mál að flytja og er á réttri leið.